Hoppa yfir valmynd
21. desember 2011 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Aukið fé til að styrkja meðferð ungmenna

Alþingishúsið
Alþingishúsið

Við afgreiðslu fjárlaga á Alþingi var samþykkt tillaga velferðarráðherra um að auka framlög til Barnaverndarstofu um 35 milljónir króna til að styrkja meðferðarúrræði fyrir börn og ungmenni, einkum vegna áfengis- og vímuefnaneyslu. Velferðarráðherra fagnar niðurstöðu fjárlaganefndar enda sé málið brýnt. 

Síðastliðinn áratug hefur jafnt og þétt dregið úr neyslu áfengis og ólöglegra vímuefna meðal barna og unglinga. Margt bendir hins vegar til þess að vandi þeirra barna og ungmenna sem ánetjast vímuefnum sé verri en áður, meðal annars vegna þess að þau hafi aðgang að enn hættulegri efnum og vegna bágra félagslegra aðstæðna. Árlega sækja um 200 ungmenni meðferð á vegum barnaverndaryfirvalda, um helmingur þeirra utan stofnana.

Í sumar kynnti Barnaverndarstofa fyrir velferðarráðherra aðgerðir sem stofnunin telur nauðsynlegar til að styrkja meðferðarúrræði fyrir börn og unglinga þar sem áhersla var meðal annars lögð á að undirbúa þurfi betur vistun fyrir börn sem á þurfa að halda og jafnframt að auka eftirfylgni með þeim eftir útskrift.

Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra segir ótvírætt að tillögur Barnaverndarstofu um að efla meðferð fyrir þennan hóp og þar með ósk um aukna fjármuni hafi átt fullan rétt á sér. „Ég leit á það sem forgangsverkefni að fá fjármuni til að styrkja meðferðarúrræði fyrir þau börn og ungmenni sem eiga í hvað mestum vanda og er þakklátur fjárlaganefnd fyrir að hafa orðið við þessu erindi.“

Gert er ráð fyrir að fjárveitingin renni til þess að efla starfsemi Stuðla þar sem rekin er meðferðardeild og neyðarvistun fyrir börn og ungmenni í vanda.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum