Hoppa yfir valmynd
24. mars 2004 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Tengsl eru tækifæri

Ráðstefna um tengsl- og tengslamyndun
Ráðstefna um tengsl- og tengslamyndun

Ágætu heiðurskonur.

Það er mér sérstök ánægja að fá að ávarpa ykkur hér í dag. Í mínu starfi kemur það oft í minn hlut að ávarpa ólíka hópa og þá gjarnan fullan sal af karlmönnum. Það er því kærkomin tilbreyting að fá tækifæri til að ræða við svo föngulegan hóp kvenna sem hér er í dag.

Það góða framtak sem fólst í stofnun Félags kvenna í atvinnurekstri í apríl 1999 er enn eitt lóð á vogarskál íslenskrar jafnréttisbaráttu og í raun rökrétt framhald þeirrar þrotlausu baráttu kvenna um jafnan rétt og jöfn tækifæri sem rekja má til frumkvöðla jafnréttisbaráttunnar í upphafi 20. aldarinnar.  Það óeigingjarna starf sem konur hafa lagt á sig í ríkara mæli en karlar hefur skilað okkur áleiðis en þó er enn nokkuð í land.  Framtak ykkar með stofnun Félag kvenna í atvinnurekstri er liður í að ná settu marki.

Veruleg breyting hefur orðið á viðfangsefnum kvenna í atvinnuskyni. Í árdaga þegar konur hófu að láta að sér kveða í atvinnulífinu fólst það einkum í því að færa hefðbundin kvennastörf út af heimilinu og bindast samtökum um mannúðar og góðgerðarstörf. Sá hópur sem ég stend hér frammi fyrir í dag er lifandi dæmi um þann árangur sem orðið hefur.  Hér inni eru dugmiklar konur sem eiga það sameiginlegt að standa í fjölbreyttum atvinnurekstri sem teygir anga sína víða og skapar dýrmæt störf og virðisauka fyrir þjóðarbúið.

Sem ráðherra jafnréttismála tel ég mikilvægt að ríkið leggi sitt af mörkum til að virkja enn frekar það frumkvæði og sköpunarkraft sem býr í íslenskum konum.  Hluti af þeirri viðleitni er styrktarsjóður á vegum félagsmálaráðuneytisins sem veitir styrki til atvinnumála kvenna.  Sjóðurinn hefur það m.a. að markmiði að auka fjölbreytni í atvinnumálum kvenna, að auðvelda aðgang kvenna að fjármagni og styrkja þannig konur í að taka sín fyrstu skref í atvinnurekstri.  Fyrirtæki sem fengið hafa styrki úr þessum sjóði hafa mörg hver haslað sér áberandi völl í íslensku atvinnulífi og má þar nefna Purity Herbs sem framleiðir olíur og sápur úr íslenskum jurtum.  Einnig má nefna Hárkollugerð Kolfinnu Knútsdóttur sem nú nýverið var tilnefnd til verðlauna á kvennaráðstefnu sem haldin verður í Singapor í maí nk.

Þessar styrkveitingar hafa oft auðveldað konum að taka ákvörðun um að láta slag standa þar sem styrkveitingin hefur gert hvorttveggja í senn, að auka tiltrú þeirra á viðskiptahugmynd sinni og að ýta þeim úr vör.

Félagsmálaráðuneytið stendur að Lánatryggingasjóði kvenna ásamt iðnaðarráðuneyti og Reykjavíkurborg.  Verkefnið var tilraunaverkefni til þriggja ára en var að þeim tíma liðnum framlengt um önnur þrjú ár á grundvelli úttektar á starfi sjóðsins.  Í ljós kom í þeirri úttekt að starfsemi sjóðsins skipti sköpum fyrir þau verkefni sem hlutu tryggingu hjá sjóðnum.  Fæst þeirra hefðu farið af stað án hans og lánin sem tryggingin stóð að baki voru í flestum tilvikum um eða yfir helmingur fjármögnunar verkefnisins.  Lántakendur lögðu flestir áherslu á mikilvægi sjóðsins fyrir konur sem vilja hefja atvinnurekstur, einkum óhefðbundna atvinnustarfsemi. 

Nú er stefnumótunarvinna í gangi varðandi framtíð sjóðsins.

Góðir ráðstefnugestir.

Félagsmálaráðherra ávarpar ráðstefnugesti.Ég mun innan skamms leggja fram á Alþingi þingsályktunartillögu um áætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára. Í áætluninni er lagt upp með afmörkuð verkefni, kveðið á um hvaða ráðuneyti eru ábyrg fyrir framkvæmd þeirra og hvaða aðilar aðrir komi að.

Í fyrri framkvæmdaáætlunum var stefnt að því að samþætta jafnréttis- og kynjasjónarmið inn í daglegt starf allra ráðuneyta. Enn er nauðsynlegt að hafa þetta markmið að leiðarljósi þar sem árangurinn hefur ekki verið sem skyldi. Hér er þó rétt að benda á að samþætting er ekki markmið í sjálfri sér, heldur er það jafnrétti kynjanna sem er markmiðið. Það næst með því meðal annars að gera samþættingu að viðteknum vinnubrögðum í stjórnsýslunni. Samþætting er aðferðin, eða verkfærið, sem getur gert það kleift að markmiðinu um jafnrétti verði náð.

Í áætluninni mun ég leggja til eftirfarandi stefnumarkandi áherslusvið til næstu ára:

  • Samþættingu jafnréttissjónarmiða.
  • Fræðslu um jafnréttismál.
  • Jafnrétti á vinnumarkaði.
  • Jafnréttisáætlanir ráðuneyta.
  • Skilgreiningu á hlutverki jafnréttisfulltrúa ráðuneyta.

Til að tryggja að raunverulegur árangur náist við framkvæmd verkefnanna sem tíunduð eru í framkvæmdaáætluninni er mikilvægt að gerð verði úttekt á árangri ríkisstjórnarinnar. Skilgreina verður á hvaða hátt þetta verður gert, en æskilegt er að slík úttekt verði gerð um mitt framkvæmdatímabilið og aftur í lok þess og mun ég beita mér fyrir því.

Stjórnvöld eiga að ryðja brautina en það er engu að síður mikilvægt að hinn almenni vinnumarkaður taki virkan þátt í því að ná fram jafnrétti kynjanna. Skýrslan um efnahagsleg völd kvenna sýnir að enn er til staðar kynbundinn launamunur í samfélaginu og hafa konur um 72% af launum karla fyrir jafnlangan vinnutíma. Skýra má 21–24% launamunarins með ólíkum starfsvettvangi, starfi, menntun og ráðningarfyrirkomulagi. Eftir stendur 7,5–11% launamunur sem stafar af því að hjónaband, barneignir og fleira hefur önnur áhrif á laun kvenna en karla.

Ljóst er að leita verður leiða til að uppræta launakerfi þar sem stöðuheiti, föst yfirvinna og bílahlunnindi eru notuð til að bæta lág laun sem samið er um í kjarasamningum. Markmið ríkisstjórnarinnar er að uppræta launamun kynjanna þannig að jafnrétti náist á þessu sviði.

Það er von mín og ósk að okkur takist að tryggja dætrum okkar og sonum jafnrétti á öllum sviðum mannlífsins.

Góðir gestir.

Ráðstefnugestir.Það er afskaplega ánægjulegt að finna fyrir þeirri grósku sem felst í samtökum á borð við Félag kvenna í atvinnurekstri.  Saman myndið þið öflugan hóp kvenna með sameiginleg markmið sem eykur tiltrú annara kvenna á mátt sinn.  Sameinaðar myndið þið öflugt tengslanet sem er mikilvægt í rekstri fyrirtækja.

Það er að mínu mati fagnaðarefni að konur skuli vera að sækja í ríkara mæli fram á svið atvinnurekstrar vegna þess að ég tel, og nú vona ég að ég móðgi ekki kynbræður mína, að konur séu um margt hæfari, skilningsríkari og umburðarlyndari stjórnendur en karlmenn.  Þetta segi ég vegna þess að konur nálgast viðfangsefni sitt oft með öðrum hætti en karmenn þær eru oftar en ekki skipulagðari og samviskusamari í störfum sínum og ígrunda ákvarðanir sínar vel.

Þessi orð mín má ekki skilja svo að karlkyns atvinnurekendur séu til allra verka óhæfir heldur væri það mjög jákvætt að á þessu sviði næðist sem mest jafnvægi kynjanna eins og vonir standa til að náist á öðrum sviðum þjóðlífsins. 

Mig langar að bera sérstakt lof á framtak Félags kvenna í atvinnurekstri sem felst í að veita árlega viðurkenningu félagsins til handa framúrskarandi konum í atvinnurekstri. Slík viðurkenning vekur athygli á atvinnurekstri kvenna og er öðrum konum sérstök hvatning í störfum sínum og er það vel.

Ég vil að lokum þakka fyrir það tækifæri að fá að ávarpa ykkur hér í dag og óska ykkur velfarnaðar í störfum ykkar. 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum