Hoppa yfir valmynd
21. apríl 2021 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 165/2021 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Hinn 21. apríl 2021 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 165/2021

í stjórnsýslumáli nr. KNU21030061

Beiðni […] um endurupptöku

 

I. Málsatvik og málsmeðferð

Hinn 25. febrúar 2021 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 15. desember 2020, um að afturkalla alþjóðlega vernd og dvalarleyfi […], f.d. […], ríkisborgari Alsír, ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 74. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Niðurstaða kærunefndar var send lögmanni kæranda með ábyrgðarpósti hinn 25. febrúar 2021. Hinn 18. mars 2021 barst kærunefnd beiðni kæranda um endurupptöku ásamt fylgiskjali. Þá bárust frekari gögn og skýringar dagana 24. mars, 5., 9., 13. og 19. apríl 2021.

II. Málsástæður og rök kæranda

Af tölvubréfum kæranda til kærunefndar má ráða að hann krefjist endurupptöku á máli sínu hjá kærunefnd þar sem hann telji að hann sé í hættu í heimaríki og hafi þörf á vernd og dvalarleyfi hér á landi. Í því sambandi vísar kærandi til þess að hann sé veikur og hafi verið dæmdur til fangelsisvistar í heimaríki í fjarveru hans (I. in absentia). Þá vísar kærandi til þess að hann hafi ekki haft vitneskju um að honum væri, sem handhafa alþjóðlegrar verndar hér á landi, óheimilt að ferðast aftur til heimaríkis. Þá kemur fram að kærandi fari nú huldu höfði í heimaríki þar sem hann óttist að yfirvöld muni hafa uppi á honum og færa hann í fangelsi. Af þeim sökum geti hann ekki leitað sér heilbrigðisaðstoðar þar í landi.

III. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Kærunefnd kvað upp úrskurð í máli kæranda hinn 25. febrúar 2021. Með úrskurðinum komst kærunefnd að þeirri niðurstöðu að heimilt væri að afturkalla alþjóðlega vernd kæranda hér á landi sem og dvalarleyfi hans á grundvelli 73. gr. laga um útlendinga, sbr. 59. gr. sömu laga, enda væri skilyrði þess ekki lengur uppfyllt. Þá var það mat kærunefndar að aðstæður kæranda í heimaríki væru ekki með þeim hætti að veita bæri honum dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 74. gr. laga um útlendinga.

Í úrskurðinum kom fram að kærunefnd hafi metið frásögn kæranda um að hann hafi einungis einu sinni farið aftur til Alsír eftir að hann fékk alþjóðlega vernd hér á landi ótrúverðuga. Að teknu tilliti til gagna málsins, þ. á m. fjölda stimpla í vegabréfi kæranda, var lagt til grundvallar að kærandi hafi ferðast reglulega til heimaríkis undanfarin ár og dvalið meirihluta áranna 2018 og 2019 þar í landi. Þá tók kærunefnd undir mat Útlendingastofnunar að umræddar dvalir í heimaríki drægju að verulegu leyti úr trúverðugleika kæranda um þá atburði sem kærandi kvað upphaflega hafa leitt til flótta hans frá landinu. Í úrskurðinum var jafnframt fjallað um heilsufar kæranda og byggt á læknisfræðilegum gögnum sem þá lágu fyrir. Í umræddum gögnum kom m.a. fram að kærandi hafi verið metinn óvinnufær frá 1. janúar til 30. apríl 2018 í kjölfar vinnuslyss. Kærandi hafi náð fullri heilsu og verið metinn vinnufær frá 1. maí 2018. Þá hafi kærandi verið greindur með nýrnasteina hinn 8. september 2020 og greint lækni frá svefnvandamálum, þreytueinkennum og skjálftaköstum hinn 11. september 2020. Það var mat nefndarinnar, að teknu tilliti til gagna um heimaríki kæranda, að kærandi hefði aðgang að heilbrigðisþjónustu og lyfjum í heimaríki vegna veikinda sinna.

Til stuðnings beiðni sinni um endurupptöku lagði kærandi fram ljósmyndir af læknisvottorði, dags. 8 desember 2020, og sjúkradagpeningavottorði, dags. 21. desember 2020, frá Heilsugæslunni í Hamraborg. Kemur þar fram að kærandi hafi verið metinn óvinnufær til 31. janúar 2021, en hann glími enn við ýmsa kvilla vegna vinnuslyss sem hann hafi orðið fyrir árið 2017. Þá hafi hann verið greindur með kvíða, ótilgreinda taugatruflun og í alvarlegri geðlægð.

Þá lagði kærandi fram vottorð á arabísku, dags. 17. september 2020, og enska þýðingu þess (e. police record), dags. 20. september 2020. Fram kemur að […], f.d. […], ríkisborgari Alsír, hafi tvívegis verið dæmdur í árs fangelsi og til greiðslu sektar að upphæð 20000 DZD fyrir minniháttar brot (e. misdemeanor). Annars vegar hinn 27. febrúar 2011 fyrir fjársvik (e. Fraud and swindle) og hins vegar hinn 3. júlí 2011 fyrir lítilsvirðingu í garð yfirvalda (e. Contempt of public functionary). Fram kemur að umrædd brot hafi verið framin hinn 25. október og 22. nóvember 2010. Í viðtali hjá Útlendingastofnun vegna umsóknar kæranda um alþjóðlega vernd, dags. 22. október 2013, kvaðst kærandi hafa flúið heimaríki og haldið til Marokkó hinn 9. september 2010. Ljóst er því að framburður kæranda stangast á við upplýsingar í framlögðu vottorði. Þá hefur kærunefnd litið til þess að kærandi hefur, líkt og rakið er að framan, reglulega ferðast til heimaríkis síðastliðin ár og dvalið þar um langan tíma í senn. Ekkert hefur komið fram í málinu sem bendir til þess að alsírsk yfirvöld hafi haft afskipti af kæranda. Í ljósi framangreinds telur kærunefnd að umrætt gagn leggi ekki grunn að frásögn kæranda um að hann eigi á hættu fangelsisvist eða illa meðferð í heimaríki af hálfu yfirvalda. Verður það því ekki talið til þess fallið að styðja við beiðni kæranda um endurupptöku.

Kærandi lagði auk þess fram þrjú skjáskot af Facebook þar sem fram kemur að alsírska leyniþjónustan hafi pyndað og drepið blaðamann er fengið hafði alþjóðlega vernd á Englandi. Ráða má af tölvubréfi kæranda að hann óttist sömu afdrif þar sem hann hafi orðið vitni að átökum og fjöldamorðum og búi yfir vitneskju um leyndarmál. Kærunefnd telur óljóst hvernig umrætt mál tengist persónulegum aðstæðum kæranda eða styðji við frásögn hans. Þá hefur kærandi ekki framvísað neinum gögnum eða leitt að því líkur að hann sé í hættu í heimaríki vegna framangreinds. Fyrrnefnd skjáskot eru því ekki til þess fallin að styðja við beiðni kæranda um endurupptöku.

Kærunefnd telur, með vísan til framangreinds, að hin nýju gögn leggi ekki frekari grunn að málsástæðum kæranda eða gefi til kynna að þær upplýsingar sem nefndin byggði á þegar hún kvað upp úrskurð sinn þann 25. febrúar 2021 hafi verið ófullnægjandi eða rangar. Þá telur kærunefnd að gögn málsins bendi ekki til þess að aðstæður kæranda eða aðstæður í heimaríki kæranda, t.a.m. hvað varðar aðgang að heilbrigðisþjónustu, hafi breyst verulega síðan nefndin úrskurðaði í málinu á þann hátt að nefndin telji að það geti haft áhrif á efnislega niðurstöðu málsins.

Samantekt

Að framangreindu virtu ert það því mat kærunefndar að atvik í máli kæranda hafi ekki breyst verulega þannig að taka beri mál hans upp að nýju á grundvelli 24. gr. stjórnsýslulaga. Þá er ekkert sem bendir til þess að niðurstaða í máli kæranda hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik.

Með vísan til alls framangreinds er beiðni kærenda um endurupptöku málsins hafnað.

 

Úrskurðarorð:

Kröfu kæranda um endurupptöku er hafnað.

The request of the appellant to re-examine the case is denied.

 

Tómas Hrafn Sveinsson

Sindri M. Stephensen                                                      Þorbjörg I. Jónsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum