Hoppa yfir valmynd
15. október 2012 Innviðaráðuneytið

Málþing um valdeflingu í héraði á ársþingi Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra

Valdefling í héraði var efni málþings á ársþingi Samtaka sveitarfélaga í Norðurlandi vestra sem haldið var á Skagaströnd á föstudag og laugardag. Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra var einn frummælenda á málþinginu en umfjöllunarefni þess var um nýtt hlutverk landshlutasamtaka sveitarfélaga og svæðasamvinnu sveitarfélaga í opinberri stefnumótun og forgangsröðun.

Frá aðalfundu Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra á Skagaströnd 12. október. Frá vinstri: Adolf H. Berndsen, oddviti, Magnús B. Jónsson sveitarstjóri og Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra.
Frá aðalfundu Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra á Skagaströnd 12. október. Frá vinstri: Adolf H. Berndsen, oddviti, Magnús B. Jónsson sveitarstjóri og Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra.

Framsögur um efnið höfðu auk Ögmundar þau Karl Björnsson, framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga, Hermann Sæmundsson, skrifstofustjóri í innanríkisráðuneytinu, og Hólmfríður Sveinsdóttir, verkefnastjóri sóknaráætlana landshluta. Að loknum framsöguerindum fóru fram umræður.

Karl Björnsson nefndi meðal annars í erindi sínu að það væri skoðun Sambands íslenskra sveitarfélaga að byggðamál yrðu hýst í ráðuneyti sveitarstjórnarmála og að sambandið styddi vinnu við sóknaráætlanir landshluta. Sagði hann þær hiklaust verða til að efla valddreifingu í héraði.

Hermann Sæmundsson ræddi bætt verklag við svæðisbundna áætlanagerð og samstarf sem ætlunin væri að ná með sóknaráætlunum og þakkaði Karli Björnssyni fyrir gott samstarf. Hann sagði sóknaráætlanirnar, sem byggðust meðal annars á samstarfs yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, vera tilboð um ný vinnubrögð sem læra þyrfti og taka skref fyrir skref og sagði að fram færu nú innan stjórnarráðsins viðræður um samspil byggðamála og sóknaráætlana. Hermann sagði markmið verkefnisins að einfalda og efla samskipti ríkis og sveitarfélaga og tryggja gagnsæi, hagkvæmni, hlutlægni og skilvirkni við úthlutun og umsýslu fjárveitinga úr ríkissjóði sem ekki fara til lögbundinna verkefna í landshlutum.

Hólmfríður Sveinsdóttir ræddi hið nýja verklag og valdeflingu landshluta og kynnti næstu skref. Móta þyrfti formlegan samráðsvettvang á hverju svæði og landshlutarnir að ákveða fyrirkomulag og skipulag sóknaráætlana og síðan fyrirkomulag á móttöku og útdeilingu fjármagns sem í þær kæmi. Hún sagði Byggðastofnun nú vinna að stöðugreiningu fyrir landshlutana þar sem fjallað væri meðal annars um efnahagsþróun, samgöngur, menntun, opinbera þjónustu og aðra þjónustu. Hólmfríður sagði gert ráð fyrir 400 milljóna króna framlagi í sóknaráætlanir allra landshluta á þessu ári en við það myndi síðan bætast áður ákveðin framlög til vaxtasamninga og menningarsamninga í mörgum landshlutum.

Ekki hagsmunaaðilar heldur samstarfsaðilar

Ögmundur Jónasson byrjaði á að færa sveitarfélögunum í landshlutanum og Sambandi íslenskra sveitarfélaga fyrir gott samstarf sem byggðist á gagnkvæmri virðingu. Hann liti ekki á sveitarfélög sem hagsmunaaðila heldur samstarfsaðila, aðilar væru ekki sammála um alla hluti en samstarfið væri engu að síður gott. Hann sagði ríkisvaldið þekkja fjárhagsvanda sveitarfélaga og sveitarfélög þekkja fjárhagsvanda ríkisins. Ráðherra sagði sýnina með sóknaráætlanir skýra, áherslan væri á að efla sveitarfélög. Sveitarfélög verði ekki sameinuð með lögum heldur geti margs konar samstarf leitt til þróunar sem gæti endað með sameiningu. Ögmundur ræddi einnig innanlandsflugið og sagði að kanna yrði hvort samningar um stuðning ríkisins við innanlandsflug á Norðausturlandi sem þeir renna út í lok næsta árs verða framlengdir. Þá nefndi ráðherra verk nefndar um rafræna þjónustu undir forystu Þorleifs Gunnlaugssonar. Til skoðunar væri hvernig unnt væri að efla rafræna stjórnsýslu og nýta þá lýðræðismöguleika sem það byði uppá. Í lokin sagði ráðherra frá innanríkisstefnu sem nú væri í smíðum í ráðuneytinu. Með henni væri unnið að samþættingu fjölmargra aðgerðaráætlana og væri verkið unnið í samvinnu við sveitarfélögin og landshlutasamtökin og fjölmarga aðra.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum