Hoppa yfir valmynd
7. janúar 2017 Matvælaráðuneytið

Lítil lyfjanotkun í íslenskum landbúnaði og fiskeldi

Búskapur í sveit
Sveitastörf

Gunnar Bragi Sveinsson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur ákveðið að skipa starfshóp til að móta hvernig betur megi koma upplýsingum um sýklalyfjanotkun við framleiðslu matvæla úr dýraríkinu á framfæri við neytendur. 

Markmið með þessari vinnu er að upplýsa neytendur um þá eftirsóknarverðu stöðu sem íslensk matvælaframleiðsla býr við vegna lítillar sýklalyfja- og varnarefnanotkunar í íslenskum landbúnaði og fiskeldi samanborið við önnur lönd. Auk þess er hreinleiki vatns og lofts á Íslandi með því besta sem gerist.

Starfshópnum er ætlað að taka saman upplýsingar um sýklalyfjanotkun við framleiðslu matvæla úr dýraríkinu bæði hér á landi og í okkar helstu viðskiptalöndum. Hópurinn mun jafnframt koma með tillögur hvernig best sé að koma þessum upplýsingum á framfæri við neytendur og hvaða hætta getur stafað af mikilli sýklalyfjanotkun, t.d. varðandi fjölónæmar bakteríur.

Hópurinn verður skipaður fimm fulltrúum; einum tilnefndum af Neytendasamtökunum, einum tilnefndum af Bændasamtökum Íslands, einum tilnefndum af Matvælalandinu Ísland og tveimur sem tilnefndir eru af sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Gert er ráð fyrir að starfshópurinn skili af sér tillögum sínum eigi síðar en 1. mars 2017.


Myndin sýnir sýklalyfjanotkun í Evrópu, Bandaríkum, Ástralíu og Nýja-Sjálandi (mg. fyrir hvert kíló af lifandi dýrum). Evrópsku tölurnar byggja á upplýsingum frá Lyfjastofnun Evrópu frá 2011.

Sýklalyfjanotkun í nokkrum löndum

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum