Hoppa yfir valmynd
11. janúar 2017 Heilbrigðisráðuneytið

Óttarr Proppé tekinn við embætti heilbrigðisráðherra

Kristján Þór Júlíusson og Óttarr Proppé - mynd

Óttarr Proppé tók í dag við embætti heilbrigðisráðherra í velferðarráðuneytinu í nýrri ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar. Óttarr er 7. þingmaður Suðvesturkjördæmis og hefur setið á Alþingi fyrir Bjarta framtíð frá árinu 2013.

Kristján Þór Júlíusson, fráfarandi heilbrigðisráðherra, færði Óttari lyklavöldin og óskaði honum velfarnaðar í þeim mikilvægu verkefnum sem embættinu fylgja.

Ráðherrar velferðarráðuneytisins eru tveir; heilbrigðisráðherra og félags- og jafnréttismálaráðherra. Heilbrigðisráðherra fer með verkefni sem snúa að heilbrigðisþjónustu, lyfjamálum, sjúkratryggingum, lýðheilsu og forvörnum en verkefni félags- og jafnréttismálaráðherra varða m.a. félags- og fjölskyldumál, almannatryggingar, húsnæðismál, jafnréttismál og vinnumál.

Örugg, góð og aðgengileg heilbrigðisþjónusta fyrir alla landsmenn

Óttarr segir að líkt og fram kemur í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar verði örugg og góð heilbrigðisþjónusta, óháð efnahag og þjóðfélagsstöðu, forgangsmál ríkisstjórnarinnar. Til að fylgja því eftir sé m.a. mikilvægt að minnka greiðsluþátttöku fólks fyrir heilbrigðisþjónustu, bæta aðgengi að sérfræðiþjónustu á landsbyggðinni, efla getu heilsugæslunnar til að sinna hlutverki sínu sem fyrsti viðkomustaður fólks í heilbrigðiskerfinu og styrkja geðheilbrigðisþjónustuna. Þá sé alveg ljóst að hraða verði uppbyggingu Landspítalans við Hringbraut eins og kostur er, setja aukinn þunga í uppbyggingu öldrunarþjónustu og ráðast sem fyrst í sérstakt átak til að stytta bið eftir þjónustu í heilbrigðiskerfinu.

„Mér er ljóst að sem heilbrigðisráðherra tek ég við stórum og vandasömum málaflokki þar sem mikið er í húfi, enda varðar hann alla landsmenn. Framundan eru stór og mikilvæg verkefni til að efla og bæta heibrigðisþjónustuna, en ég mun líka leggja áherslu á að starf á sviði forvarna og bættrar lýðheilsu fái sinn verðuga sess“ segir Óttarr Proppé,

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum