Hoppa yfir valmynd
9. febrúar 2023 Innviðaráðuneytið

Lagt til að rýmka heimildir til að nýta bréfakassasamstæður í þéttbýli

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, mælti á Alþingi í dag fyrir frumvarpi um breytingar á lögum um póstþjónustu frá 2019. 

Í frumvarpinu er m.a. lagt til að rýmka til muna heimildir alþjónustuveitanda til að nýta bréfakassasamstæður í þéttbýli. Ráðherra sagði í framsöguræðu sinni að bréfasendingum hafi undanfarin ár fækkað jafnt og þétt en pakkasendingum fjölgað að sama skapi. Könnun, sem ráðuneytið gerði í fyrra, hafi leitt í ljós jákvæða afstöðu hjá almenningi gagnvart bréfakassasamstæðum en könnunin var gerð að tilstuðlan starfshóps um alþjónustu í póstdreifingu. Póstbox fyrir pakkasendingar hafi einnig fengið góðar viðtökur hér á landi. Aukin notkun bréfakassasamstæðna geti því haft sparnað í för með sér og minnkað alþjónustukostnað ríkissjóðs.

Þá er með frumvarpinu lagt til að innleiða samevrópskar reglugerðir um pakkasendingar yfir landamæri (ESB 2018/644 og ESB 2018/1263). Með þeim er leitast við að tryggja gagnsæi gjaldskráa póstrekenda yfir landamæri og greiða fyrir netverslun á milli landa.  Grunnreglugerðinni er einkum ætlað að ýta undir traust neytenda á því að eiga viðskipti á netinu milli landa með aukinni söfnun og miðlun upplýsinga um pakkasendingaþjónustu. Framkvæmdarreglugerðin varðar sérstök eyðublöð sem póstrekendum af ákveðinni stærð, ber að nota. Hafa ber í huga að reglugerðin gildir aðeins yfir landamæri en ekki innanlands.

Loks er lagt til að textamisræmi í póstlögum verði lagað, sem tengist lagabreytingu árið 2021 þegar verkefni Póst- og fjarskiptastofnunar voru færð yfir til Byggðastofnunar. Þá var heitið „Póst- og fjarskiptastofnun“ ekki að fullu afmáð úr lögunum. Þrátt fyrir að lykilákvæði hafi verið breytt, sem tryggir Byggðastofnun fullt umboð til að annast framkvæmd laganna þykir rétt að færa þetta að fullu í rétt horf.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum