Hoppa yfir valmynd
16. júlí 2020 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 249/2020 Úrskurður

 

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 16. júlí 2020 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 249/2020

í stjórnsýslumáli nr. KNU20060013

 

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 9. júní 2020 kærði einstaklingur sem kveðst heita [...], vera fæddur [...], og vera ríkisborgari Pakistan (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 29. maí 2020, um brottvísun og endurkomubann til Íslands í tvö ár.

Af greinargerð má ráða að kærandi krefjist þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.            Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi þann 11. september 2018. Með ákvörðun, dags. 2. október 2019, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Með úrskurði þann 8. apríl 2020 staðfesti kærunefnd útlendingamála þá ákvörðun Útlendingastofnunar. Í úrskurði kærunefndar var lagt fyrir kæranda að yfirgefa landið og honum veittur 15 daga frestur til þess. Var athygli kæranda vakin á því að ef hann yfirgæfi ekki landið innan frests kynni að vera heimilt að brottvísa honum og ákveða endurkomubann. Þann 6. maí sl. synjaði kærunefnd beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa í máli hans. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 29. maí sl., var kæranda brottvísað og honum ákveðið endurkomubann til Íslands í tvö ár. Ákvörðunin var birt fyrir kæranda þann 2. júní sl. Kærandi kærði ákvörðunina til kærunefndar þann 9. júní sl. Greinargerð kæranda barst kærunefnd þann 24. júní sl. Þá bárust frekari gögn frá kæranda dagana 12. júní og 3. júlí 2020. Þann 6. júlí sl. óskaði kærandi eftir frestun réttaráhrifa á ákvörðun Útlendingastofnunar á meðan málið væri til meðferðar hjá kærunefndinni, sbr. 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þann 7. júlí féllst kærunefnd á þá beiðni.

III.          Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kæranda hafi verið veittur frestur til sjálfviljugrar heimfarar með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 2. október 2019, sem staðfest hafi verið með úrskurði kærunefndar útlendingamála, dags. 8. apríl 2020. Komst Útlendingastofnun að þeirri niðurstöðu að brottvísun kæranda fæli ekki í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart honum eða nánustu aðstandendum hans. Bæri Útlendingastofnun að teknu tilliti til ákvæða 102. gr. laga um útlendinga, að vísa kæranda á brott skv. a-lið 2. mgr. 98. gr. laganna. Var kæranda brottvísað og ákveðið endurkomubann til landsins í tvö ár.

IV.       Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð byggir kærandi á því að hin fyrirhugaða brottvísun feli í sér ósanngjarna ráðstöfun í skilningi 3. mgr. 102. gr. laga um útlendinga. Kærandi hafi, á meðan mál hans hafi verið til meðferðar á stjórnsýslustigi, rakið aðstæður í Pakistan með vísan til alþjóðlegra skýrslna og gagna, m.a. um versnandi stöðu mannréttinda í landinu og að almennt öryggisástand þar sé ótryggt. Vísar kærandi til þess að brottvísun hans stríði gegn banni við endursendingu útlendinga sem finna megi í 42. gr. laga um útlendinga og 33. gr. flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna sem Ísland sé aðili að og skuldbundið til þess að fylgja að þjóðarétti. Kærandi hafi verið hér á landi síðan 2018 vegna umsóknar sinnar um alþjóðlega vernd og hafi myndað góð tengsl við bæði land og landsmenn. Þá gerir kærandi athugasemdir við úrskurð kærunefndar í máli sínu, þ. á m. þá niðurstöðu nefndarinnar að hann uppfylli ekki skilyrði 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga til útgáfu dvalarleyfis. Vísar kærandi einnig til þess að endursending, þegar heimsfaraldur Covid-19 standi yfir, sé umfram allt afar ósanngjörn ráðstöfun í skilningi 3. mgr. 102. gr. laga um útlendinga.

V.        Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í a-lið 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga segir að svo framarlega sem 102. gr. eigi ekki við skuli vísa útlendingi úr landi sem er án dvalarleyfis ef hann hefur ekki yfirgefið landið innan veitts frests, sbr. 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga. Eins og áður er rakið lagði kærandi fram umsókn um alþjóðlega vernd hér á landi þann 11. september 2018. Með ákvörðun, dags. 2. október 2019, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Framangreind ákvörðun Útlendingastofnunar var staðfest með úrskurði kærunefndar þann 8. apríl 2020 og var úrskurðurinn birtur fyrir kæranda þann 20. apríl sl. Í úrskurði kærunefndar var lagt fyrir kæranda að yfirgefa landið og honum veittur 15 daga frestur til þess. Var athygli kæranda vakin á því að ef hann yfirgæfi ekki landið innan frests kynni að vera heimilt að brottvísa honum og ákveða honum endurkomubann, sbr. a-lið 2. mgr. 98. gr. og 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga. Ljóst er að kærandi yfirgaf ekki landið innan veitts frests og dvelur ólöglega hér á landi.

Með úrskurði kærunefndar nr. 153/2020, dags. 22. maí 2020, voru ákvarðanir Útlendingastofnunar, er vörðuðu brottvísun hjóna sem höfðu, ásamt börnum sínum, verið synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að vera synjað um dvalarleyfi skv. 74. gr. laga um útlendinga, felldar úr gildi. Tók kærunefnd m.a. fram:

„Stjórnvöldum ber við töku stjórnvaldsákvörðunar í senn að byggja slíkt á málefnalegum sjónarmiðum sem og að gæta þess að meðalhófs sé gætt, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga. Þá felst í jafnræðisreglu stjórnsýsluréttarins, sem lögfest er í 11. gr. stjórnsýslulaga, að sambærileg mál hljóti sambærilega úrlausn hjá stjórnvöldum. Slík sjónarmið eiga sérstaklega við þegar breyting á slíkri framkvæmd er íþyngjandi fyrir aðila máls. Þar sem frávísun skv. 106. gr. laga um útlendinga er vægara úrræði en brottvísun skv. 98. gr. laga um útlendinga sé henni beitt í samspili við 1. og 2. mgr. 104. gr. laganna og þar sem frávísun hefur hingað til verið beitt í sambærilegum málum og hjá kærendum þurfa knýjandi rök að vera til staðar svo réttlætanlegt sé að beita brottvísun í málinu. Málefnaleg sjónarmið sem gætu komið til skoðunar við slíkt mat eru t.d. hvort um sé að ræða einstakling eða fjölskyldu, hvort viðkomandi hafi sótt áður um alþjóðlega vernd hér á landi, hvort viðkomandi sé frá ríki á lista Útlendingastofnunar yfir örugg upprunaríki, hvort viðkomandi hafi dvalið hér á landi í lengri tíma í ólögmætri dvöl og hvort einstaklingur hefur gerst brotlegur við lög hér á landi. Telur kærunefnd að hafa megi hliðsjón af þessum sjónarmiðum við mat á því hvort brottvísun sé í samræmi við framangreindar meginreglur stjórnsýsluréttar.“

Var það niðurstaða kærunefndar í úrskurðinum að engin knýjandi rök eða aðrar sérstakar ástæður væru fyrir hendi í máli kærenda svo réttlætanlegt væri að brottvísa þeim og ákveða þeim endurkomubann til landsins, þar sem ekki væri ljóst að með flutningi á grundvelli fyrirliggjandi frávísunar væri ekki hægt að ná fram sömu niðurstöðu. Var það niðurstaða kærunefndar að brottvísun kærenda í málinu hefði ekki verið í samræmi við meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga og væri annmarkinn slíkur að rétt væri að fella ákvarðanir Útlendingastofnunar úr gildi.

Í fyrirliggjandi máli eru aðstæður líkt og áður greinir þær að íslensk stjórnvöld voru með til meðferðar umsókn kæranda um alþjóðlega vernd á tímabilinu frá 11. september 2018 til 8. apríl 2020. Af gögnum málsins er ljóst að kærandi hefur ekki áður lagt fram umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi né á Schengen-svæðinu. Jafnvel þótt kærandi hafi ekki yfirgefið landið innan veitts frests er ljóst að skammur tími leið frá því að kærunefnd úrskurðaði í máli hans og þar til Útlendingastofnun tók ákvörðun um brottvísun. Í máli kæranda liggur fyrir framkvæmdarhæf ákvörðun, sbr. 103 og 104. gr. laga um útlendinga, sem hefur í framkvæmd verið talin fullnægjandi grundvöllur flutnings viðkomandi aðila til heimaríkis. Að mati kærunefndar er ekkert í máli kæranda þess eðlis að það réttlæti frávik frá fyrri stjórnsýsluframkvæmd og áréttar nefndin að frávísun skv. 106. gr. laga um útlendinga hefur verið beitt í sambærilegum málum og máli kæranda í miklum meirihluta mála. Þá eru að mati kærunefndar engin knýjandi rök eða aðrar sérstakar ástæður fyrir hendi í máli kæranda svo réttlætanlegt verði talið að brottvísa honum og ákveða endurkomubann til landsins á þessum tímapunkti þar sem ekki er ljóst að með flutningi hans á grundvelli frávísunar hafi ekki verið hægt að ná fram sömu niðurstöðu. Þrátt fyrir að kærandi hafi ekki verið talinn í slíkri stöðu að það réttlætti veitingu alþjóðlegrar verndar á grundvelli 37. gr. laga um útlendinga eða dvalarleyfis á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. laganna, þá er hann ekki frá öruggu upprunaríki, þarf að ferðast um langan veg til þess að komast til síns heimaríkis og hafði ekki dvalið hér í lengri tíma frá því að endanleg niðurstaða lá fyrir í máli hans og þar til honum var birt ákvörðun Útlendingastofnunar um brottvísun. Þá er kærandi ekki með gild ferðaskilríki og ljóst að ýmsar takmarkanir voru í gildi, og eru enn, um allan heim vegna Covid-19 faraldursins sem áhrif hafa á möguleika kæranda á að komast til heimaríkis. Með vísan til þess sem áður hefur verið rakið er það mat kærunefndar, eins og atvikum þessa máls er sérstaklega háttað, að brottvísun kæranda sé ekki í samræmi við meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga. Sá annmarki er að mati nefndarinnar slíkur að rétt er að fella ákvörðun Útlendingastofnunar í máli kæranda úr gildi.

Í greinargerð byggir kærandi á því að hin fyrirhugaða brottvísun feli í sér ósanngjarna ráðstöfun í skilningi 3. mgr. 102. gr. laga um útlendinga með vísan til aðstæðna í heimaríki. Kærunefnd áréttar að nefndin hefur þegar tekið afstöðu til málsástæðna kæranda um aðstæður í heimaríki, sbr. úrskurð kærunefndar nr. 133/2020 frá 8. apríl 2020. Þá hefur kærunefnd í framangreindum úrskurði jafnframt komist að því að kærandi uppfylli ekki skilyrði 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Af gögnum málsins verður ekki séð að aðstæður kæranda hafi breyst frá því að úrskurður kærunefndar var kveðinn upp.

Kærunefnd áréttar að þrátt fyrir framangreinda niðurstöðu hefur úrskurður nefndarinnar í máli kæranda, dags. 8. apríl 2020, full réttaráhrif, m.a. um að hann hafi ekki heimild til dvalar hér á landi og skuli því yfirgefa landið.

Í ljósi þeirra sérstöku aðstæðna sem nú eru uppi vegna Covid-19 faraldursins er kæranda leiðbeint um að berist honum boð um flutning til heimaríkis er honum heimilt að vekja athygli kærunefndar á því en kærunefnd getur þá ákveðið að fresta framkvæmd úrskurðar, sbr. lokamálslið 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga. Athygli kæranda er einnig vakin á því að Útlendingastofnun getur frestað framkvæmd ákvörðunar með vísan til 2. mgr. 103. gr. laga um útlendinga, vegna sérstakra aðstæðna útlendings eða vegna þess að ómögulegt sé að framkvæma ákvörðun að svo stöddu.

 

 

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi.

The decision of the Directorate of Immigration is vacated.

 

 

 

Jóna Aðalheiður Pálmadóttir

 

 

 

Gunnar Páll Baldvinsson                                                              Daníel Isebarn Ágústsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum