Hoppa yfir valmynd
1. mars 2008 Heilbrigðisráðuneytið

Fræðsludagur heimilislækna 2008

Fræðsludagur heimilislækna 2008
Guðlaugur Þór Þórðarson,
heilbrigðisráðherra

 

Ávarp heilbrigðisráðherra

 

 

Ágætu heimilislæknar og aðrir gestir.

Ég vil byrja á því að þakka fyrir þetta góða boð um að koma og ávarpa ykkur hér.

Yfirskrift þessa málþings sem við sitjum hér er einkarekstur í heilbrigðiskerfinu. Þessa dagana er varla á dagskrá sá fundur eða ráðstefna meðal lækna og annarra heilbrigðisstétta að þetta sé ekki rætt. En hvað erum við raunverulega að tala um hér? Hver er framtíðarsýnin? Hvernig náum við því markmiði að reka hér áfram framúrskarandi heilbrigðisþjónustu sem allir landsmenn eiga góðan aðgang að?

Við myndun núverandi ríkisstjórnar síðastliðið vor var mörkuð afar skýr stefna í heilbrigðismálum. Þar kemur fram að veita skuli heilbrigðisþjónustu á heimsmælikvarða. Þá á að kostnaðargreina heilbrigðisþjónustuna og taka upp blandaða fjármögnun á heilbrigðisstofnunum þar sem fjármagn fylgi sjúklingum. Þannig fái heilbrigðisstofnanir fjármagn í samræmi við þörf og fjölda verka. Skapa eigi aukið svigrúm til fjölbreytilegri rekstrarforma í heilbrigðisþjónustunni, m.a. með útboðum og þjónustusamningum, en jafnframt tryggja að allir hafi að henni jafnan aðgang, óháð efnahag. Stóraukin áhersla verður lögð á forvarnir á öllum sviðum og leitað verður leiða til að lækka lyfjaverð og einfalda greiðsluþátttöku hina opinbera.

Í ráðuneytinu stendur nú yfir mikil stefnumótunarvinna sem miðar að því að útfæra þær leiðir sem best eru til þess fallnar að ná markmiðum ríkisstjórnarinnar um hagkvæmni í ríkisrekstri og heilbrigðisþjónustu á heimsmælikvarða.

Ég verð að játa að mér sýnist það vissulega vera mikil áskorun fyrir íslensk stjórnvöld að viðhalda þeirri hágæða heilbrigðisþjónustu sem við Íslendingar búum við. Hvers vegna segi ég þetta?

Jú, þegar íslensk heilbrigðisþjónusta er skoðuð í alþjóðlegum samanburði OECD kemur í ljós að hún er að færa landsmönnum afburða árangur á mörgum sviðum. Sem dæmi má nefna að hér er lægsta dánartíðni vegna krabbameina, dánartíðni vegna hjartasjúkdóma og heilablóðfalla er undir meðatali og tíðni ungbarnadauða sú lægsta. Við íslenskir karlmenn getum vænst þess að lifa allra karla lengst og lengi vel vermdu konurnar okkar þetta sæti meðal kvenna í heiminum en þó svo það hafi nú breyst þá eru þær ennþá meðal þeirra langlífustu í heimi. Á heildina litið kemur Ísland mjög vel út miðað við alla mælikvarða sem notaðir eru til að mæla gæði heilbrigðisþjónustu.

Þessi frábæri árangur kostar vissulega sitt svo sem sjá má þegar við skoðum heildarútgjöld til heilbrigðisþjónustu á mann, en miðað við árið 2005 erum við Íslendingar þar í sjötta sæti meðal OECD ríkja.

Ennfremur sýna tölur sem OECD birti nýlega yfir árlegan vöxt heilbrigðisútgjalda á föstu verðlagi á mann frá 1995-2005 að Ísland er þar í fjórða sæti með árlegan vöxt upp á 5%, heilu prósentustigi yfir meðaltali OECD.


Ágætu gestir.

Þá erum við komin að hinni hlið málsins og hún er þessi:
Á sama tíma og við erum í sjötta sæti hvað varðar heildarútgjöld til heilbrigðismála á mann, í fjórða sæti fyrir árlegan vöxt heilbrigðisútgjalda á mann og í fjórða sæti hvað varðar fjölda langlegurýma á hverja 1.000 íbúa sem náð hafa 65 ára aldri - þá eru við á meðal yngstu þjóða innan OECD.

Hér hringja jú einhverjar bjöllur, ekki satt? Samkvæmt þessu erum við ekki enn farin að sjá þá útgjaldaaukningu sem fylgir breyttri aldurssamsetningu þjóðar með vaxandi fjölda háaldraðra eins og gerst hefur meðal nágrannaþjóðanna. Samkvæmt tölum frá OECD eru heilbrigðisútgjöld vegna einstaklings eldri en 65 ára, að meðaltali fjórföld á við einstakling yngri en 65 ára.

Breyttu þjóðfélagi fylgja aukin lífsgæði, fleiri tækifæri og betri lífskjör, en við verðum jafnframt að taka á þeim fylgikvillum sem fylgja breytingunum. Þar má m.a. nefna aukna kyrrsetu, aukið áreiti, breytt mataræði og aukna fíkniefnaneyslu sem nokkra orsakaþætti sem m.a. leitt hafa af sér offitu og tengda sjúkdóma og aukna tíðni geðraskana.

Þannig stefnir samkvæmt spám, í fyrsta skipti í það að kynslóðin sem er að vaxa úr grasi í Bandaríkjunum muni að meðaltali lifa skemur en kynslóðin á undan. Og samkvæmt Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni, WHO, er þunglyndi nú í öðru sæti fyrir algengustu ástæður vinnutaps 15-44 ára á Vesturlöndum. Stofnunin áætlar að árið 2020 muni það sama gilda fyrir alla aldurshópa af báðum kynjum.

Þá erum við komin að þessu með áskorunina. Með hliðsjón af frábærum árangri og miklum gæðum heilbrigðisþjónustunnar, en ungum aldri þjóðarinnar, ef svo má að orði komast, þá hljótum við að spyrja okkur: Hvernig eigum við að tryggja og viðhalda hágæða heilbrigðisþjónustu á heimsmælikvarða til lengri tíma þannig að kynslóðir framtíðarinnar fái notið sömu gæða þjónustu og við gerum í dag?

Okkur í heilbrigðisráðuneytinu er ljóst að þetta er mikil áskorun og við trúum því að í stefnu ríkisstjórnarinnar í dag felist þær aðgerðir sem geri okkur kleift að draga úr vexti útgjalda með betri kostnaðarstýringu innan heilbrigðiskerfisins, en jafnframt viðhalda heilbrigðisþjónustu á heimsmælikvarða til framtíðar.


Góðir gestir.

Innan heilbrigðisráðuneytisins var skýrslu Efnahags- og framfarastofnunarinnar, OECD, um stöðu íslenska heilbrigðiskerfisins í alþjóðlegum samanburði, sem kynnt var í gær, beðið með mikilli eftirvæntingu.

Það er skemmst frá því að segja að greining OECD var í stuttu máli sú að heilbrigðiskerfið okkar er mjög gott en dýrt. Ef ekkert verður gert, stefnir í að útgjöld Íslendinga til heilbrigðismála muni nema um 15% af vergri landsframleiðslu árið 2050. Tillögur þessarar virtu alþjóðlegu stofnunar í átt til aukinnar skilvirkni og samkeppni í íslenska heilbrigðiskerfinu eru síðan mjög í anda þess sem núverandi ríkisstjórn hefur lagt upp með og það er gott að fá þannig hvatningu til þess að halda áfram á sömu braut.

  • Í skýrslu OECD er lagt til að ýtt verði frekar undir einkarekstur í heilbrigðisþjónustunni, en nú veita einkaaðilar aðeins fjórðung þjónustunnar – og að opnað verði fyrir samkeppni milli veitenda þjónustunnar til að tryggja skilvirkni í rekstri.
  • Þá er lagt til að tryggt verði að við samningsgerð um heilbrigðisþjónustu verði nákvæmlega skilgreint það magn sem keypt er og þau lágmarks gæði sem þjónustan þarf að uppfylla. Einnig að sá aðili sem annast innkaup á heilbrigðisþjónustu hafi þá færni og sérfræðiþekkingu sem þarf til að gera slíka samninga og fylgja þeim eftir.
  • OECD bendir á að huga skuli að því að beita notendagjöldum til að koma í veg fyrir að einkarekstur samhliða lágri eða engri hlutdeild sjúklings í kostnaði við þjónustu, leiði til ofnotkunar á þjónustu.  
  • OECD vill styrkja hlutverk ríkisins sem kaupanda, setja þak á opinber útgjöld, hraða greiningu á skilvirkni helstu þátta þjónustu og koma á afkastatengdri fjármögnun sem ýtir undir framleiðni við að veita þjónustu.
  • Ennfremur er lagt til að hugað verði að því að koma aftur á aðgangstýringu að heilbrigðiskerfinu (gate keeping). Heilsugæslulæknar eða hjúkrunarfræðingar myndu meta þörf fyrir þjónustu og beina sjúklingum áfram á það úrræði sem best ætti við í hverju tilfelli.
  • OECD telur nauðsynlegt í ljósi aukinnar ábyrgðar stjórnenda heilbrigðisstofnana að tryggt verði að þeir hafi fullnægjandi stjórnunarþekkingu og nauðsynlegar upplýsingar til að stýra stofnunum sínum.  
  • OECD hvetur til þess að í ríkari mæli verði notuð hagkvæmari úrræði við að veita þjónustu. Þjónusta verði færð af legudeildum yfir á dag- og göngudeildir, en hlutfall innlagna er enn hátt á Íslandi í alþjóðlegum samanburði.
  • Að lokum hvetur OECD til þess að lyfjakostnaður verði lækkaður með því að ýta undir samkeppni og notkun samheitalyfja. Ríkið ætti að kaupa öll lyf á grundvelli útboða og gera breytingar á reglum um hlutdeild sjúklinga í lyfjakostnaði sem hvetja til framboðs og eftirspurnar eftir lyfjum á sem hagstæðustu verði.


Góðir gestir.

Ég gæti farið mörgum orðum um hvert þeirra atriða sem OECD lagði til og hverju við erum að vinna í varðandi hvert og eitt þeirra. En yfirskrift þessa málþings er Einkarekstur í heilbrigðisþjónustu.

Ætlun mín er að skapa svigrúm til fjölbreytilegri rekstrarforma í heilbrigðisþjónustu, m.a. með útboðum og þjónustusamningum, þar sem jafnframt verði tryggt að allir hafi jafnan aðgang að þjónustunni. Með slíku einkaframtaki eða einkarekstri er einstaklingum falinn rekstur á tiltekinni þjónustu, sem eftir sem áður er greidd úr opinberum sjóðum!

Hér skyldi öllum vera ljóst að einkarekstur sem greiddur hefur verið úr opinberum sjóðum er og hefur verið snar þáttur innan íslenska heilbrigðiskerfisins um árabil og nægir þar að nefna ýmsar öldrunarstofnanir, endurhæfingarstöðvar og einkareknar lækningastofur og jafnvel heilsugæslustöðvar. Heilbrigðisþjónusta sem veitt er af öðrum aðilum en ríki og sveitarfélögum nemur um það bil 25% - sem OECD þykir ekki nægilega mikið - af veittri þjónustu innan heilbrigðiskerfisins og eru þar sjálfseignarfélög og samtök eins og Karitas, SÁÁ, Endurhæfingarstöð Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra, Krabbameinsfélag Íslands, Hjartavernd, Reykjalundur, Læknavaktin, Orkuhúsið, Rauði Kross Íslands (útvegun og rekstur sjúkrabíla) og Heilsugæslan í Salahverfi dæmi um slíka þjónustu. 

Starfsemi þessara aðila hefur alla tíð verið fjármögnuð úr opinberum sjóðum og öllum sem á þurfa að halda tryggður aðgangur að þeirri þjónustu þeim svo gott sem, ef ekki algerlega að kostnaðarlausu. Mér þætti áhugavert að rökræða við þann aðila sem héldi því fram að þessi einkarekna þjónusta sem ég taldi hér upp, hefði gert nokkuð annað en eiga sinn hlut í okkar góða heilbrigðiskerfi!


Góðir gestir.

Einkarekstur í heilbrigðiskerfinu er engin töfralausn ein og sér. Hér skiptir máli að menn missi ekki sjónar af markmiðinu, því að hér á landi verði rekin framúrskarandi heilbrigðisþjónusta á eins hagkvæman hátt og mögulegt er. Það skiptir máli að menn missi sig ekki í bókstafstrú með eða á móti fjölbreyttu rekstrarformi í heilbrigðisþjónustunni. Aðalatriðið er að læra af þeim sem hafa gert hlutina vel og það er það sem við erum að gera.

Það eru skemmtilegir og krefjandi tímar framundan í heilbrigðismálum þjóðarinnar. Ég hlakka til þess að eiga við ykkur sem hér sitjið samstarf um að undirbúa og hrinda í framkvæmd þeim breytingum sem nauðsynlegar eru til þess að festa íslenska heilbrigðiskerfið í sessi sem það besta í heimi.

Takk fyrir,

(Talað orð gildir)



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum