Hoppa yfir valmynd
11. apríl 2008 Heilbrigðisráðuneytið

Ársfundur Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna

Ávarp

heilbrigðisráðherra, Guðlaugs Þórs Þórðarsonar

á ársfundi Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna

föstudaginn 11. apríl 2008.

Góðir þingfulltrúar.

Mér er ánægja af því að fá að ávarpa ykkur hér með fáeinum orðum í upphafi þings ykkar. Starfsemi ykkur er mér vel kunnug og ég hef á henni mikinn áhuga af ýmsum ástæðum.

Ég vil byrja í þessu stutta ávarpi mínu á því að þakka landssambandinu mikinn og einlægan áhuga á sjúkraflutningum á Íslandi. Mér er vel ljóst, að verkefni þessa félags er að sinna tveimur nokkuð ólíkum málaflokkum, annars vegar slökkviliðs- og björgunarþjónustu af ýmsum toga, sem er á ábyrgð sveitarfélaga, en hins vegar að sinna sérhæfðri heilbrigðisþjónustu, sem er á höndum ríkisins.

Ég vil lýsa þeirri eindregnu skoðun minni, að landssambandið hafi sýnt metnað og mikinn áhuga í þeim málaflokki, sem að mér snýr og tekið jákvæðan þátt í allri skipulagningu og uppbyggingu þessa starfs. Í því sambandi get ég nefnt þætti eins og mikla vinnu ykkar við verkferla við störf sjúkraflutningamanna, sem hafa verið yfirfarðir og samþykktir af landlækni. Ég get einnig nefnt virka þátttöku landssambandsins í uppbyggingu og starfi sjúkraflutningaskólans sem fyrir nokkrum árum færðist til Akureyrar og starfar þar, að mínu mati með mikilli reisn og metnaði. Ég get sömuleiðis nefnt það sem næst í tíma stendur, þ.e. þátttöku sambandsins í nefndarstarfi um sjúkraflutninga, en þannig var að í kjölfar umræðu sumarið 2007, rétt eftir að ég tók við starfi ráðherra, um skipulag sjúkraflutninga, menntunarmál og mönnun ákvað ég að skipa nefnd til að fjalla um þessi mál. Þar voru landssamtökin með virka og gagnmikla þátttöku. Nefndin skilaði af sér á formlegum fundi sem við héldum í Ráðherrabústaðnum fyrir ekki löngu síðan þar sem farið var yfir málið og það er núna til frekari vinnslu í ráðuneytinu.

Eins og eflaust margir vita hér lagði nefndin til 23 tillögur til úrbóta, m.a. er hún með tillögur um að skipulag sjúkraflutninga fylgi skiptingu landsins í nýákveðin heilbrigðisumdæmi og samráðsnefndir heilbrigðisstofnana útfæri nánar skipulag sjúkraflutninga innan hvers umdæmis. Þessa daga er ráðuneytið því að senda skýrsluna út til umsagnar í umdæmunum. Það er mjög að mínu skapi, að heimamenn komi sem mest að þessari útfærslu á sínum vettvangi. Einnig eru lagðar til mjög uppbyggilegar hugmyndir um samhæfingu á landsvísu, nám, bæði grunnnám og sérnám. Í heildina er ég mjög ánægður með þessa vinnu og mun kappkosta að fylgja henni eftir, en það mun ekki allt verða á mínum höndum, því að t.d. eru nokkrar tillögur í þá veru að færa nám í auknum mæli í hendur menntakerfisins og þar með menntamálaráðuneytisins, bæði grunnnám og sérnám á háskólastigi. Mér finnst allar þessar tillögur vera mjög þess virði að þær séu skoðaðar ítarlega.

Góðir þingfulltrúar.

Að mínu mati eru sjúkraflutningar mjög mikilvægur þáttur í heilbrigðisþjónustu okkar, ég tel einnig, að þessi þáttur þjónustunnar eigi eftir að verða enn mikilvægari á komandi árum og kemur þar ýmislegt til.

Í fyrsta lagi eru uppi mjög sjálfsagðar og auknar kröfur um há gæði sjúkraflutninga, sem ekki fyrir löngu voru nánast á stigi almennra fólksflutninga en krefjast núna mikillar þjálfunar og menntunar þeirra sem að koma, hvort sem það er flutningur frá heimili, slysstað eða heilbrigðisstofnun. Þetta leggur mikla áherslu á menntun, getu og gæði sjúkraflutninganna.

Í öðru lagi hefur fylgt nútímanum að úrlausna er núna leitað á færri og stærri staði við flóknum vandamálum, hvort heldur um veikindi eða slys er að ræða. Fólk er því flutt um lengri veg en áður var og inn á stofnanir sem eru í stakk búnar til að taka við þessum vanda. Þetta er eðlileg þróun í ljósi betri tækni og aukinna krafna. Ég get nefnt sem dæmi að slys á útlimum voru sjaldnast flutt úr heimabyggð fyrir einni kynslóð síðan, en núna telst það ekki óvanalegt að úr verði töluverður sjúkraflutningur þegar slíkt ber að.

Í þriðja lagi munum við án efa í vaxandi mæli standa frammi fyrir þeirri staðreynd sem nágrannalöndin hafa upplifað, að mönnun héraða af heilbrigðisstarfsfólki, sérstaklega læknum og hjúkrunarfræðingum, verður æ þyngri og því hlutverk sjúkraflutninga enn mikilvægara. Þá er mikilvægt að þeir sem fyrstir koma að hafi góða þekkingu til verka og skili sjúklingnum sem best í annarra hendur án þess að töf eða meðferð hafi leitt til versnunar á ástandi hans.

Góðir þingfulltrúar.

Í mínum huga leikur ekki minnsti vafi á mikilvægi sjúkraflutninga, menntunar ykkar og þjálfunar. Ég mun því áfram sem hingað til fylgjast vel með þessum málaflokki. Í framtíðinni mun verða ætlast til mikils af ykkur, á ykkur verða lagðar auknar kröfur og þá dettur mér hér í hug sú umræða sem nýlega varð á höfuðborgarsvæðinu um aukið hlutverk ykkar í neyðarbíl, en gegn þessum auknu kröfum munum við standa saman, bæði þið sem faghópur og ég sem ábyrgur fyrir þessum þætti íslenskrar heilbrigðisþjónustu.

Ég vil óska ykkur árangursríks þings og velfarnaðar í öllum ykkar störfum.

Takk fyrir.

(Talað orð gildir)



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum