Hoppa yfir valmynd
26. júní 2018 Utanríkisráðuneytið

Mikill árangur af vatns- og salernisverkefni með UNICEF í Mósambík

Utanríkisráðuneytið ákvað á síðasta ári að halda áfram samstarfsverkefni í Mósambík með Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) og ráðast í annað þriggja ára framhaldsverkefni í Sambesíufylki í norðanverðu landinu. Að sögn Vilhjálms Wiium deildarstjóra tvíhliða þróunarsamvinnu í ráðuneytinu er á næstu þremur árum stefnt að því að 150 þúsund manns fái viðunandi salernisaðstöðu, 25 þúsund manns fái aðgengi að nýjum vatnsveitum og að tæplega 6 þúsund nemendur í 15 skólum fái bætta vatns- og salernisaðstöðu.

Nýkomin er út lokaskýrsla fyrsta áfanga verkefnisins sem hófst í ársbyrjun 2015. Verkefnið hafði að meginmarkmiði að bæta aðgengi fólks í dreifbýli að hreinu vatni og salernisaðstöðu í völdum héruðum fylkisins og þar með stuðla að bættri heilsu, menntun og lífskjörum almennt. Áherslan var á grunnskóla og samfélög í grenndinni. UNICEF hafði yfirumsjón með framkvæmd verkefnisins og samkvæmt lokaskýrslu til utanríkisráðuneytisins kemur fram að þrátt fyrir margvísleg vandamál hefðu allflest markmið verkefnisins náðst.

Má þar nefna uppsetningu 285 vatnsveitna sem veittu annars vegar 29.400 nemendum í 84 grunnskólum og hins vegar ríflega 60 þúsund manns í nágrenni skólanna aðgang að hreinu vatni. Einnig voru byggðir kamrar í 29 skólum en í þeim skólum eru nær 20 þúsund nemendur. Mörg námskeið voru haldin til að auka vitund almennings á mikilvægi hreinlætis og þess að ganga ekki örna sinna á víðavangi. Um 115 þúsund manns sóttu þessi námskeið.

Vilhjálmur segir að í vatnsmálum hafi náðst betri árangur en áætlað var í upphafi. „Þegar verkefnið hófst var markmiðið að ná til 48 þúsund manns og 14 þúsund skólabarna. Vegna hagstæðrar þróunar gengis varð mögulegt að nálega tvöfalda fjölda skóla sem verkefnið náði til, miðað við upphaflegar áætlanir. Hins vegar gekk ekki eins vel í hreinlætismálum, en þar stóð til að auka vitund um 300 þúsund manns á mikilvægi hreinlætis. Niðurstaðan varð sú að ekki náðist nema tæplega helmingur markmiðsins. Þetta má fyrst og fremst rekja til óeirða sem brutust út annað veifið í mörgum fylkjum Mósambíkur á hluta verkefnistímabilsins,“ segir Vilhjálmur og bætir við að þann tíma var ekki mögulegt að komast á stóran hluta þeirra héraða sem verkefnið náði til.

Hann nefnir einnig að ekki hafi verið hægt að fjölga námskeiðum eftir að friður komst á vegna skorts á leiðbeinendum. Við uppbyggingu vatnsveitna hafi hins vegar verið hægt að fjölga verktökum og ná miklum árangri í þeim verkþætti þrátt fyrir róstur á svæðinu.

Margvíslegur annar árangur náðist í verkefninu að sögn Vilhjálms, til dæmis voru ráðnir ýmsir sérfræðingar í vatns- og salernismálum til fylkisstjórnar Sambesíu og þeirra héraða sem verkefnið náði til. Héraðsstjórnir fengu aðstoð við framtíðarskipulagningu og stefnumótun. Margvísleg þjálfun var veitt, til dæmis til vatnsnefnda í samfélögunum sem fengu nýjar vatnsveitur, en nefndirnar sjá um innheimtu hóflegra notendagjalda og einfaldar viðgerðir á dælubúnaði.

 

Myndband frá síðasta ári um verkefnið og viðtal við Americo Muianga verkefnissstjóra UNICEF í Mósambík.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

6. Hreint vatn og hreint

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum