Hoppa yfir valmynd
21. maí 2006 Innviðaráðuneytið

Samningar um tengingu Siglufjarðar og Ólafsfjarðar undirritaðir

Fulltrúar verktakafyrirtækjanna Háfells og Metrostav og Vegagerðarinnar ásamt samgönguráðherra undirrituðu á laugardag samning um vegtengingu milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar. Athöfnin fór fram í Bátahúsinu í Siglufirði og var fjöldi íbúa Siglufjarðar og Ólafsfjarðar viðstaddur ásamt þingmönnum og ráðherrum.
Samningur um nýja leið milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar var undirritaður milli Vegagerðarinnar, samgönguráðherra og verktaka 20. maí.
Frá undirritun samnings um veginn milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar.

Jón Rögnvaldsson vegamálastjóri sagði að hér yrði til ný leið milli Ólafsfjarðar og Siglufjarðar og lagði áherslu á að framkvæmdin snerist um annað og meira en aðeins jarðgöng þótt þau væru umfangsmikill hluti verksins. Hreinn Haraldsson, framkvæmdastjóri þróunarsviðs Vegagerðarinnar, sagði framkvæmdina þá mestu sem Vegagerðin hefði samið um en samningsupphæðin er 5 milljarðar og 739 milljónir króna. Göngin yrðu samtals 10,3 km löng, 3,7 km milli Siglufjarðar og Héðinsfjarðar og 6,9 km milli Héðinsfjarðar og Ólafsfjarðar með um 450 metra vegskálum, nýr vegur yrði 3,3 km langur og ný brú yrði byggð í Héðinsfirði. Hann sagði leiðina milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar verða alls um 15 km en leiðin um Lágheiði væri 62 km og ef fara yrði um Öxnadalsheiði milli þessara bæja væri leiðin 234 km.

Sturla Böðvarsson samgönguráðherra sagði við undirritunina að með framkvæmdinni myndu byggðir tengjast betur og eflast um leið. Sagði hann þessa undirritun sögulegan áfanga í samgöngumálum.

Runólfur Birgisson, bæjarstjóri Siglufjarðar, kvaðst þakklátur stjórnvöldum fyrir að verkið væri nú komið af stað og sagðist finna fyrir vaxandi skilningi meðal landsmanna á þörf þess að tengja byggðarlögin með þessum hætti. Þá sagði hann það ekki síður ánægjulegt að undirritunin færi fram á 88 ára kaupstaðarafmæli Siglufjarðar 20. maí. Hann minnti á að Sverrir Sveinsson hefði fyrstur manna rætt málið á Alþingi og þakkaði hann honum og öðrum sem unnið hefðu málinu brautargengi á undirbúningsstigi. Kvaðst hann sannfærður um að framkvæmdin yrði vítamínsprauta fyrir mannlíf og atvinnulíf á Tröllaskaga.

Eiður Haraldsson, framkvæmdastjóri Háfells, sagði að framkvæmdir myndu hefjast í júlí og sprengingar í september. Verkinu skal vera lokið 10. desember 2009. Verkaskipting milli Háfells og Metrostav yrði með þeim hætti að tékkneska fyrirtækið sæi um borun og sprengingar en Háfell um aðra þætti verkefnsins. Eiður sagði að um og yfir 35 starfsmenn myndu í allt vinna við verkefnið þegar mest væri. Hann sagði verkið það umfangsmesta sem Háfell hefði tekið að sér, um það bil fimm sinnum stærra en flutningur Hringbrautar í Reykjavík sem Háfell annaðist.

Siv Friðleifsdóttir heilbrigðisráðherra ávarpaði einnig samkomuna og sagðist hafa skipað starfshóp til að kanna eflingu og þróun heilbrigðisþjónustu í þessum byggðum með tilkomu þessarar nýju leiðar. Halldór Blöndal, alþingismaður og fyrrverandi samgönguráðherra, sagði í ávarpi sínu að þetta væri ein stærsta stund sem hann hefði upplifað og sagði Héðinsfjarðargöng gera Eyjafjörð að sterkasta byggðakjarna utan Reykjavíkur. Kristján Möller alþingismaður sagði að loksins væri nú langri baráttu lokið og Stefanía Traustadóttir, bæjarstjóri Ólafsfjarðar, sagði ákvörðun um sameiningu Siglufjarðar og Ólafsfjarðar vera heillaspor fyrir byggðirnar ekki síst nú þegar göngin væru í sjónmáli.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum