Hoppa yfir valmynd
26. maí 2006 Innviðaráðuneytið

Árangursríkar viðræður samgönguráðherra á fundi ECMT

Á ráðstefnu samgönguráðherra Evrópulanda, European Conference of Ministers of Transport (ECMT), á Írlandi 17. og 18. maí lýsti Sturla Böðvarsson samgönguráðherra sig samþykkan því að bjóða fleiri ríkjum utan Evrópu aðild að samstarfinu en ráðstefnurnar eru haldnar árlega. Ráðstefnuna sátu að þessu sinni fulltrúar nokkurra ríkja utan Evrópu og sagði ráðherra það styrkja starf samtakanna að útvíkka starf þeirra með aðild fleiri ríkja.

Sturla Böðvarsson fjallaði um umferðaröryggismál í ræðu sinni á ráðstefnunni og greindi frá umferðaröryggisáætlun sem er hluti af samgönguáætlun. Sagði hann helstu atriði hennar aukna áherslu á hraðamælingar og eftirlit með ölvunarakstri og mikilvægt væri einnig að gera umferðarmannvirki öruggari. Ráðherra sagði að ríki Evrópu stæðu í stríði á vegunum og leggja yrði mun meiri kraft í aðgerðir í þessu stríði þar sem tugþúsundir færust á ári hverju og mun fleiri slösuðust alvarlega. ,,Við verðum að finna áhrifaríkari leiðir til að taka höndum saman og nota vettvang sem þennan til að læra bæði jákvæða og neikvæða reynslu hvert hjá öðru. Ég trúi því að við sigrum í þessu stríði,” sagði ráðherrann.

Meginviðfangsefni fundarins var annars vegar framangreind breyting á skipulagi samstarfsins og hins vegar umræða um sjálfbæra samgöngustefnu. Undir sjálfbæra samgöngustefnu falla hvers kyns aðgerðir til að draga úr mengandi útblæstri og hávaða, auka umferðaröryggi, minnka umferðarálag og tryggja aðgengi allra. Fram kom það álit ráðherranna að öll ríki vilja hafa sjálfbæra samgöngustefnu en erfiðlega hafi gengið að hrinda henni í framkvæmd. Sett voru fram markmið varðandi sjálfbærar samgöngur í þéttbýli, umhverfismál, öryggismál á vegum og aðgengismál.

Að meðaltali býr um 80% fólks í þéttbýli í ríkjum ECMT og því eru vandamál sem tengjast samgöngum í borgum ekki einungis á höndum sveitastjórna heldur og ríkisstjórna. Samgönguráðherrar Evrópu hafa áður sett fram hugmyndir um að efla sjálfbærar samgöngur í bæjum, meðal annars með að stjórnvöld setji fram skýra stefnu, stuðli að samstarfi og hvetji til hagkvæmra og hagnýtra almenningssamgangna. Samþykkt var á fundinum að hnykkja á þessum hugmyndum og að hvetja til þess að yfirvöld styðji sveitastjórnir á sviði tækni og fjármála og með öðrum hætti til að að koma á sjálfbærum samgöngum í þéttbýli.

Samþykkt var að hvetja til ýmissa aðgerða til að draga úr losun koltvísýrings frá umferðinni. Þannig ættu að vera forgangsverkefni að skattlagning bíla taki mið af útblæstri mengandi efna, að styðja og efla kunnáttu atvinnubílstjóra og einkabílstjóra í vistakstri og styrkja ætti aðgerðir til að draga úr losun mengandi efna með endurskipulagningu og markvissri stjórnun hjá flutningafyrirtækjum sem reka stóra bílaflota.

Ítrekuð voru fyrri markmið samtakanna um að fækka banaslysum í umferð um 50% árið 2012 og bent á að mikið verk sé enn óunnið á því sviði en markmiðið var fyrst sett fram á fundi ráðherranna árið 2002. Að meðaltali látast um 180 þúsund manns í umferðarslysum á ári hverju í ríkjum ECMT og samstarfslandanna, sem eru Bandaríkin, Kanada, Ástralía, Japan, Suður-Kórea, Mexíkó og Marokkó. Til að ná markmiðunum verður kastljósinu einkum beint að nokkrum meginatriðum og aðalorsakir umferðarslysa settar í forgang en þær eru helst hraðakstur, of lítil notkun öryggisbelta, ölvunarakstur og hegðun ungra ökumanna. Tryggja þarf að lagaúrræði séu nægilega virk gagnvart refsingum við umferðarlagabrotum og auka þarf úrræði til að efla vitund einstaklinga, samtaka og yfirvalda gagnvart víðtækum öryggisaðgerðum.

Einkum skal horft til meginorsaka banaslysa sem eru hraðakstur, ölvunarakstur og of lítil notkun öryggisbelta. Eru ríki hvött til þess að búa þannig um hnúta að refsirammi laga styðji aðgerðir á þessu sviði.

Þá samþykkti ráðstefnan að nauðsynlegt væri að gefa meiri gaum að aðgengismálum í samgöngum. Vakin er athygli á því að á næstu 20 árum muni 65 ára og eldri íbúum fjölga um 40% og hópur 80 ára og eldri muni tvöfaldast. Helmingur íbúa sem er yfir 75 ára býr við einhvers konar fötlun og þess vegna sé brýnt að tryggja jafnt aðgengi.

Auk Sturlu Böðvarssonar samgönguráðherra sátu fundinn af hálfu Íslands Ragnhildur Hjaltadóttir ráðuneytisstjóri og Jóhann Guðmundsson, skrifstofustjóri flutninga- og samgönguáætlana.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum