Hoppa yfir valmynd
13. október 2015 Félagsmálaráðuneytið

Staðan á vinnumarkaði í september

Stjórnarráðið
Stjórnarráðið

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, kynnti stöðuna á vinnumarkaði samkvæmt skýrslu Vinnumálastofnunar fyrir september síðastliðinn á fundi ríkisstjórnar í dag. Enn fækkar fólki á atvinnuleysisskrá, mest meðal þeirra sem hafa skemmst verið skráðir án atvinnu en síður í hópi þeirra sem hafa verið lengi skráðir án atvinnu.

Skráð atvinnuleysi hjá Vinnumálastofnun hefur dregist nokkuð saman það sem af er ári. Þannig var skráð atvinnuleysi hjá stofnuninni mest í janúar til mars eða 3,6% en var komið niður í 2,4 % í september sem svarar til þess að 4.120 atvinnuleitendur hafi að meðaltali verið skráðir án atvinnu á þeim tíma. Skráðum atvinnuleitendum í september 2015 fækkaði að meðaltali um 377 frá því í ágúst 2015. Körlum án atvinnu fækkaði hlutfallslega um 82 milli sömu mánaða á meðan konum fækkaði hlutfallslega um 295. Skráð atvinnuleysi meðal kvenna í september var að meðaltali 2,9% en að meðaltali 2,0% meðal karla. Konur eru nærri tvisvar sinnum fleiri en karlar meðal skráðra atvinnuleitenda sem lokið hafa námi á háskólastigi. Fjöldi kvenna meðal skráðra atvinnuleitenda sem lokið höfðu háskólaprófi fór úr 952 konum í febrúar 2015 niður í 864 konur í ágúst 2015 en á sama tímabili fækkaði körlum sem lokið höfðu námi á háskólastigi og skráðir voru án atvinnu hjá Vinnumálastofnun úr 577 í 457.

Samkvæmt upplýsingum frá Vinnumálastofnun virðist fækkun atvinnuleitenda helst vera meðal þeirra sem skemmst hafa verið skráðir án atvinnu hjá stofnuninni. Þannig hafði hlutfall þeirra sem höfðu nýtt sér minna en sex mánuði af bótatímabili sínu lækkað í 33% í hópi atvinnuleitenda í ágúst 2015 en hlutfallið var 40% í febrúar 2015. Hlutfall þeirra sem höfðu nýtt meira en tvö ár af bótatímabili sínu stóð hins vegar í stað á sama tímabili og var 11%.

Jafnframt sýna upplýsingar frá Vinnumálastofnun að skráðum atvinnuleitendum sem lokið hafa námi á háskólastigi fækkar hægar en skráðum atvinnuleitendum sem lokið hafa grunnmenntun. Þannig var hópur skráðra atvinnuleitenda sem lokið hafði námi á háskólastigi 24% af skráðum atvinnuleitendum í febrúar 2015 en hlutfallið var komið í 27% í ágúst 2015. Hlutfall þeirra sem höfðu einungis lokið grunnnámi fór úr 44% í febrúar 2015 niður í 42% í ágúst 2015 en sá hópur er eftir sem áður stærsti hópur skráðra atvinnuleitenda hjá stofnuninni.

Skráð atvinnuleysi eftir landshlutum

Skráð atvinnuleysi á höfuðborgarsvæðinu var 2,6% í september 2015 og hafði því dregist saman um 0,2% miðað við ágúst 2015 sem svarar til þess að atvinnuleitendum á höfuðborgarsvæðinu hafi fækkaði hlutfallslega um 322 milli sömu mánaða. Skráð atvinnuleysi á landsbyggðinni í heild stóð í stað milli mánaða og var 2,0% í september 2015 en atvinnuleitendum á landsbyggðinni fækkaði hlutfallslega um 55 á milli sömu mánaða. Skráð atvinnuleysi á Suðurnesjum lækkaði um 0,1% milli mánaða og var 2,9% í september 2015 sem svarar til þess að 180 atvinnuleitendur hafi að meðaltali verið skráðir þar án atvinnu á þeim tíma. Skráð atvinnuleysi mældist lægst á Norðurlandi vestra í september 2015 þar sem skráð atvinnuleysi var 1,2% sem svarar til þess að 44 hafi að meðaltali verið skráðir án atvinnu í september 2015.

Útlendingar á atvinnuleysisskrá

Samkvæmt upplýsingum frá Vinnumálastofnun voru 878 erlendir ríkisborgarar skráðir án atvinnu í lok september 2015 eða um 20% allra skráðra atvinnuleitenda hjá stofnuninni. Pólskir ríkisborgarar voru samtals 536 eða um 61% erlendra ríkisborgara skráða án atvinnu hjá Vinnumálastofnun í september 2015.

Starfsþjálfunarúrræði

Lesa má úr tölulegum upplýsingum frá Vinnumálastofnun að ýmis konar starfsþjálfunarúrræði séu áhrifaríkustu aðgerðirnar gegn langtímaatvinnuleysi. Um miðjan september síðastliðinn hafði Vinnumálastofnun gert 335 starfsþjálfunarsamninga við atvinnuleitendur en slíkir samningar eru fjármagnaðir úr Atvinnuleysistryggingasjóði. Því til viðbótar hafði stofnunin gert samninga eða staðið að samningum við 290 atvinnuleitendur í samvinnu við Reykjavíkurborg sem og Hafnarfjarðarbæ en í þeim tilvikum var um að ræða atvinnuleitendur sem þáðu fjárhagsaðstoð hjá fyrrnefndum sveitarfélögum. Umræddir samningar eru ekki greiddir úr Atvinnuleysistryggingasjóði heldur af því sveitarfélagi þar sem viðkomandi atvinnuleitandi hefur skráð lögheimili og koma slíkir samningar því ekki fram í tölum um starfsþjálfunarúrræði sem stofnunin birtir í mánaðarlegri skýrslu sinni um stöðuna á vinnumarkaði eða öðru útgefnu efni.

Að mati Vinnumálastofnunar má ætla að margar ástæður liggi að baki því að ekki stærri hluti af fjölda atvinnuleitenda en raun ber vitni hefur fengið samning um starfsþjálfunarúrræði á vegum stofnunarinnar. Í því sambandi bendir stofnunin sérstaklega á eftirspurn eftir slíkum samningum meðal atvinnurekenda en stofnunin samþykkir nær undantekningalaust umsóknir atvinnurekenda um ráðningu starfsmanna á grundvelli samnings um starfsþjálfun viðkomandi atvinnuleitenda. Að mati Vinnumálastofnunar má ætla að betri staða á vinnumarkaði en verið hefur, þar með talið batnandi rekstarumhverfi fyrirtækja, hafi mögulega leitt til þess að atvinnurekendur telji sig betur í stakk búna en áður til að ráða starfsfólk með hefðbundnum hætti og án aðkomu Vinnumálastofnunar. Í því sambandi er vert að geta þess að Vinnumálstofnun hefur hafið kynningarátak meðal atvinnurekenda hvað varðar möguleika á að ráða atvinnuleitendur til starfa á grundvelli starfsþjálfunarsamnings.

Þess má jafnframt geta að nú stendur yfir í velferðarráðuneytinu vinna við endurskoðun á reglum sem gilda um gerð starfsþjálfunarsamninga þar sem meðal annars er leitast við að kanna hvort og þá með hvaða hætti unnt er að haga skilyrðum fyrir gerð slíkra samninga með þeim hætti að þeir nýtist sem best þeim sem skráðir eru án atvinnu hverju sinni innan þess fjárhagsramma sem úrræðinu er ætlað.

Horfur á vinnumarkaði í október

Samkvæmt upplýsingum frá Vinnumálastofnun eykst skráð atvinnuleysi að jafnaði í október vegna árstíðabundinna áhrifa. Árið 2014 jókst skráð atvinnuleysi úr 3,0% í 3,2% milli september og október það ár. Vinnumálastofnun gerir því ráð fyrir að skráð atvinnuleysi í október aukist lítið eitt og verði á bilinu 2,5% til 2,7%.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira