Hoppa yfir valmynd
14. febrúar 2022 Innviðaráðuneytið, Mennta- og barnamálaráðuneytið, Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Jöfnunarsjóður veitir framlög til að samþætta þjónustu sveitarfélaga í þágu barna

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, og Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra. - mynd

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, hefur í samráði við Ásmund Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, undirritað reglugerð um framlög á vegum Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga til að mæta kostnaði sveitarfélaga vegna samþættingar þjónustu í þágu farsældar barna á árinu 2022 (nr. 1455/2021). 

Ráðherra hefur einnig samþykkt tillögu ráðgjafarnefndar Jöfnunarsjóðs um áætluð framlög til sveitarfélaga, sem byggja á reglugerðinni. Skipting fjárframlaga byggir á niðurstöðu vinnuhóps um útreikning framlaga. 

Ný lög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna (nr. 86/2021) tóku gildi 1. janúar. Við gildistöku bætist við ákvæði til bráðabirgða við lög nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga. Í 1. og 2. mgr. ákvæðisins segir að við tekjur Jöfnunarsjóðs á árunum 2022–2024 bætist árlegt framlag úr ríkissjóði sem skuli ráðstafa með greiðslu framlaga til einstakra sveitarfélaga til að mæta kostnaði sveitarfélaga vegna samþættingar þjónustu í þágu farsældar barna. Samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2022 nemur framlag til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga 1.100 m.kr. á árinu. 

Að loknum undirbúningi á vegum ráðuneyta og Sambands íslenskra sveitarfélaga var ákveðið að stofna vinnuhóp til að útfæra tillögu að skiptingu fjármagns til sveitarfélaga sem yrði grunnur að reglugerð um útreikning framlaga í samræmi við lög. Vinnuhópurinn var skipaður tveimur fulltrúum frá félagsmálaráðuneytinu, einum fulltrúa frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu og tveimur fulltrúum frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga.

Skipting fjárframlaga til sveitarfélaga tekur mið af eftirfarandi fjórum breytum sem hafa jafnt vægi: 

  • Fjöldi barna í hverju sveitarfélagi 
  • Fjöldi barna með stuðning í skólum 
  • Fjöldi barna á lágtekjuheimilum
  • Fjöldi barna af erlendum uppruna

Nánar má lesa um forsendur framlagsins í skýringum við tillögu vinnuhópsins. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum