Hoppa yfir valmynd
30. janúar 2003 Heilbrigðisráðuneytið

Framkvæmdir út úr friðlandinu

Fréttatilkynning nr. 3/2003

Ströng skilyrði sett vegna Norðlingaölduveitu

Framkvæmdir út úr friðlandinu


Jón Kristjánsson, settur umhverfisráðherra, hefur úrskurðað í þeim ellefu kærum sem fram hafa komið vegna fyrirhugaðrar Norðlingaölduveitu. Ráðherra fellst á framkvæmdir með ströngum skilyrðum. Megin skilyrðin sem ráðherra setur fela í sér að
  • fyrirhugað lón fer algjörlega út úr friðlandinu,
  • náttúrufar og vatnsbúskapur í friðlandinu raskast ekki og
  • nær ekkert gróið land fer undir vatn.

Ráðherra fellst m.ö.o. á Norðlingaölduveitu með því að framkvæmdir eru færðar út úr friðlandinu. Þetta þýðir að hinn kærði úrskurður Skipulagsstofnunar, uppkveðinn 12. ágúst 2002, er felldur úr gildi að því er varðar þá ákvörðun stofnunarinnar að fallast á þann kost við útfærslu hinnar fyrirhuguðu framkvæmdar, að lónhæð Norðlingaöldulóns verði 578 m y.s. Í úrskurði setts umhverfisráðherra kemur fram að úrskurður Skipulagsstofnunar er að öðru leyti staðfestur með skilyrðum, eins og áður sagði. Skilyrðin eru:
1. Vatnsborð Norðlingaöldulóns verði lækkað þannig að allt lónið sé utan friðlands Þjórsárvera og hafi engin langtímaáhrif á friðlandið. Í því skyni er framkvæmdaraðila heimilt að færa stíflu neðar í Þjórsá um allt að 1,4 km og að breyta veituleið í tengslum við það. Framkvæmdaraðili geri ítarlega áætlun um útfærslu framkvæmdarinnar, að uppfylltum þessum skilyrðum.

2. Óheimilt er að reisa varnargarða innan friðlands Þjórsárvera. Gert verði setlón vestan Þjórsárlóns, utan friðlandsins, með tilheyrandi leiðigörðum, stíflum og skurðum. Veita ber vatni úr lóninu í kvíslar neðan þess þannig að tryggt verði að grunnvatnsstaða innan friðlandsins haldist sem næst óbreytt. Heimilt er að veita vatni að öðru leyti úr lóninu í Þjórsárlón. Framkvæmdaraðili geri ítarlega áætlun um útfærslu framkvæmdarinnar, að uppfylltum þessum skilyrðum. Endanlega stærð og umfang setlónsins skal ákvarða í samráði við sveitarstjórn og Umhverfisstofnun.

3. Í samræmi við skilyrði nr. 1 og 2 skal framkvæmdaraðili gera vöktunaráætlun, í samráði við Umhverfisstofnun, þar sem skilgreind verði viðmið þeirra umhverfisþátta sem máli skipta fyrir áhrifasvæði fyrirhugaðrar framkvæmdar.

4. Allar breytingar á mannvirkjum vegna áður nefndra skilyrða nr. 1 og 2 skulu metnar þannig að tryggt sé að umhverfisáhrif séu í samræmi við viðmið sem fram koma í matsskýrslu eða vöktunarskýrslu samkvæmt skilyrði nr. 3, hvor sem ganga lengra í átt til verndunar umhverfisins.

5. Framkvæmdaraðili skal viðhalda meðal rennsli í Þjórsá yfir hádaginn á sumrin til að tryggja vatnsrennsli í fossum, eins og frekast er unnt.

6. Framkvæmdaraðili skal, í samráði við hlutaðeigandi sveitarstjórnir, Landgræðslu ríkisins og Umhverfisstofnun, undirbúa vöktun og framkvæmdaráætlun til að stjórna og draga úr áhrifum vegna jarðvegsrofs og fokefna meðfram bökkum Norðlingaöldulóns og setlóns samkvæmt skilyrði nr. 2. Enn fremur til að draga úr áhrifum fokefna vegna aurburðar meðfram Þjórsá, að Sultartangalóni.

7. Framkvæmdaraðili skal tryggja, í samráði við Umhverfisstofnun og hlutaðeigandi sveitarstjórnir, að umferð um mannvirki sem opna leiðir að varpsvæðum fugla trufli ekki varp.

8. Samkvæmt 17. gr. laga nr. 106/2000 skulu leyfisveitendur hafa eftirlit með framkvæmdinni, þ. á m. því að skilyrðum nr. 1-7 sé fylgt.

Við meðferð kærumálanna leitaði ráðherra til sérfræðinga til þess að leggja mat á tiltekna umhverfisþætti. Þetta voru þau Birgir Jónsson, jarðverkfræðingur, Kristinn Haukur Skarphéðinsson, dýravistfræðingur, Sigurður Erlingsson, verkfræðingur og Kristín Svavarsdóttir, plöntuvistfræðingur. Þá fékk ráðuneytið D. Conor Skehan frá Írlandi, sérfræðing í mati á umhverfisáhrifum framkvæmda á Evrópska efnahagssvæðinu, til að veita ráðuneytinu ráðgjöf um aðferðir við undirbúning úrskurðarins.

Var af hálfu ráðherra sérstaklega hugað að þeim möguleika hvort tæknilega væri unnt að haga framkvæmdum við Norðlingaölduveitu þannig að umhverfisáhrifa gætti í minna mæli en Landsvirkjun gerði ráð fyrir í matsskýrslu sinni.

Í þessu skyni fékk ráðuneytið Viðar Ólafsson, verkfræðing, til að láta kanna mögulegar tæknilegar útfærslur í þessum efnum. Niðurstöðu athuguna hans og annarra sérfræðinga er að finna í skýrslu, dags. 24. janúar 2003, og fylgir skýrsla þessi með fréttatilkynningunni sem fylgiskjal.

Meginiðurstaða þessarar athugunar er sú að mögulegt sé að minnka Norðlingaöldulón verulega þannig að það nái ekki inn á friðlandið, og, að áhrif framkvæmdarinnar raski ekki náttúrufari, dýralífi og grunnvatnsstöðu í verunum.

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu,
30. janúar 2003

Hjálagt:

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum