Hoppa yfir valmynd
4. desember 2019 Innviðaráðuneytið

Framlög aukin og framkvæmdum flýtt í samgönguáætlun

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. - mynd

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, lagði í dag fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um samgönguáætlun fyrir tímabilið 2020-2034. Um er að ræða uppfærða og endurskoðaða samgönguáætlun til fimmtán ára á grunni þeirrar sem samþykkt var á Alþingi síðasta vetur. Einnig lagði ráðherra fram tillögu til þingsályktunar um samgönguáætlun (aðgerðaáætlun) fyrir tímabilið 2020-2024.

Fjölmörgum framkvæmdum er flýtt á tímabili áætlunarinnar með sérstakri áherslu á að bæta umferðaröryggi og tengingar milli byggða. Á tímabilinu verður framkvæmdum, sem í heild eru metnar á um 214,3 milljarða króna, flýtt. „Stærstu einstöku framkvæmdir sem færast nær okkur eru jarðgangagerð á Austurlandi, stofnbrautir til og frá höfuðborgarsvæðinu og ýmsar stórar framkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu.“ 

Samgönguáætlunin er lögð fram með hliðsjón af nýrri fjármálaáætlun fyrir árin 2020-2024 en í henni var fjármagn til samgöngumála aukið verulega. Í endurskoðuninni er auk þess tekið tillit til samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins, niðurstaðna starfshóps um fjármögnun samgönguframkvæmda, nýrrar stefnu ríkisins í flugmálum, nýrrar stefnu ríkisins í almenningssamgöngum milli byggða, niðurstöðu verkefnishóps um jarðgangakosti á Austurlandi og niðurstöðu verkefnishóps um lagningu Sundabrautar. 

Tillagan var kynnt í samráðsgátt stjórnvalda og barst fjöldi ábendinga. Sumar höfðu áhrif á endanlega tillögu en aðrar nýtast í næstu endurskoðun samgöngu- og fjármálaáætlana. Ákveðið var að færa framar framkvæmdir við bæði Vatnsnesveg og Strandaveg um Veiðileysuháls miðað við fyrri tillögur.

Öryggi er grunntónninn

Sigurður Ingi sagði í framsöguræðu sinni að samgönguáætlunin fela í sér mikilvæga framtíðarsýn og markmið til næstu fimmtán ára. „Grunntónn í aðgerðum áætlunarinnar er öryggi. Að loknu fimmtán ára tímabilinu verða umferðamestu vegir til og frá höfuðborgarsvæðinu komnir með aðskilda akstursstefnu,  á Vesturlandsvegi alla leið að og framhjá Borgarnesi, á Suðurlandsvegi að Hellu og á Reykjanesbraut að flugstöðinni. Suðurlandsvegur og Reykjanesbraut verða raunar fullkláruð á fyrstu tveimur tímabilunum eða fyrir árið 2029. Unnið er að því að finna leiðir til að flýta framkvæmdum við Reykjanesbraut frekar, enda er sá vegur einn umferðarmesti þjóðvegur landsins. Skipulagsmál á svæðinu við Straumsvík eru enn óleyst og Vegagerðin áætlar að verkefni þar gætu verið boðin út í fyrsta lagi í lok árs 2022,“ segir ráðherra. „Annað mikilvægt markmið er að klára uppbyggingu vegakerfisins á Vestfjörðum," sagði ráðherra í framsöguræðu sinni. „Strax á næsta ári verður farið í framkvæmdir á Vestfjarðavegi, svokallaðan veg um Teigskóg. Í lok fyrsta tímabils verður komin hringtenging Vestfjarða með Dýrafjarðargöngum og uppbyggðum vegum yfir Dynjandisheiði. Á öðru tímabili bætist svo við tenging Vestfjarðarvegar til Bíldudals. Með nýrri vegtengingu um göngin styttist leiðin um 27 km. Þá verður kominn nýr uppbyggður vegur um sunnanverða Vestfirði alla leið til Patreksfjarðar. Með vegabótum á sunnanverðum Vestfjörðum og uppbyggingu vegar til Borgarfjarðar eystri verður mikilvægu markmiði samgönguáætlunarinnar til langs tíma náð á tímabilinu. Það er að tengja allar byggðir með yfir 100 íbúa með bundnu slitlagi. Þá verða margar eldri stórar brýr endurnýjaðar svo sem brúin yfir Ölfusá, brúin yfir Jökulsá á Fjöllum, brúin yfir Lagarfljót og báðar brýrnar yfir Skjálfandafljót.“

Framlög aukin og framkvæmdum flýtt

Samkvæmt tillögunni verða ríkisframlög til fimmtán ára samgönguáætlunar alls um 637 milljarðar króna. Lagt er til að stærstum hluta þess fjármagns verði varið til vegamála, þ.e. um 563 milljörðum. „Samkvæmt fjármálaáætlun eru framlög til vegamála árin 2020-2024 aukin um 4 milljarða hvert ár. Framlög í þjónustu og viðhald á vegakerfinu eru aukin miðað við gildandi áætlun. Þjónusta um 640 milljónir á ári og viðhald um 500 milljónir á ári. Samtals eru því framlög til viðhalds og þjónustu að aukast um rúma 15 milljarða sé litið til 15 ára tímabilsins alls,“ sagði Sigurður Ingi í framsöguræðu sinni á Alþingi í dag. 

Samvinnuverkefni

Ráðherra kynnti einnig aukna áherslu í samgönguáætlun á að koma á samvinnu milli einkaaðila og hins opinbera við uppbyggingu innviða. Slíkar leiðir eru algengar á Norðurlöndunum, sérstaklega í stærri framkvæmdum. Hvalfjarðargöngin voru fjármögnuð með slíkri leið. Sex verkefni hafa verið talin fýsileg í þeim efnum og eru til umfjöllunar í sérstöku frumvarpi um samvinnuverkefni (PPP). „Helstu kostir samvinnuleiðar er að fjármögnun er utan fjárlaga og veitir því möguleika til frekari flýtingar þjóðhagslega arðbærra verkefna. Þar að auki veitir þessi aðferð sterkan hvata til nýsköpunar sem getur hugsanlega leitt til lægri kostnaðar í hönnun, framkvæmd og rekstri,“ sagði ráðherra.

Í framsöguræðu sinni fjallaði Sigurður Ingi einnig um jarðgangaáætlun sem nú í fyrsta sinn hluti af samgönguáætlun, fyrstu flugstefnu Íslands, nýtt samkomulag um rannsóknir á möguleikum á byggingu nýs flugvallar í Hvassahrauni. Ein af áherslum flugstefnunnar er að stutt verði við uppbyggingu Akureyrar- og Egilsstaðaflugvalla sem alþjóðlegra fluggátta. Við uppbyggingu innviða þar verði lögð áhersla á að þeir mæti sem best þörfum flugrekenda fyrir varaflugvelli hér á landi.

Markmið um umhverfisvænar samgöngur

Sigurður Ingi sagði í ræðu sinni að eitt af brýnustu verkefnum næstu ára væri að draga svo úr neikvæðum áhrifum samgangna að þau falli innan marka sjálfbærrar þróunar án þess þó að kostir góðra samgangna skerðist. „Ríkisstjórnin hefur sett fram aðgerðaráætlun í loftlagsmálum sem miðar að því að standa við skuldbindingar Íslands samkvæmt Parísarsamkomulaginu. Í samgönguáætlun er lagt til að unnið verði í samræmi við áherslur aðgerðaráætlunarinnar. Eitt af meginmarkmiðum samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins er að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda vegna umferðar m.a. með því að efla almenningssamgöngur og virka samgöngumáta,“ sagði ráðherra. Sigurður Ingi sagði að horft yrði til orkuskipta í stefnumótun fyrir almenningssamgöngur og flug á Íslandi. Mjög stórt skref hafi verið tekið í þá átt þegar ný Vestmannaeyjaferja hóf siglingar en hún er að hluta rafdrifin. Loks væri lagt til að unnin verði greining á efnahagslegum hvötum til eflingar ræktunar orkujurta á Íslandi.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum