Nr. 753/2023 Úrskurður
KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA
Hinn 14. desember 2023 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 753/2023
í stjórnsýslumáli nr. KNU23050034
Kæra […]
á ákvörðun
Útlendingastofnunar
I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild
Hinn 5. maí 2023 kærði […], fd. […], ríkisborgari Venesúela (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 28. apríl 2023, um að synja honum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.
Kærandi krefst þess aðallega að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að honum verði veitt viðbótarvernd á grundvelli 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara krefst kærandi þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða með vísan til 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara krefst kærandi þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að lagt verði fyrir stofnunina að taka mál hans til nýrrar meðferðar.
Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.
II. Málsmeðferð
Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi 26. september 2022. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun 15. nóvember 2022 ásamt löglærðum talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 28. apríl 2023, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Kæranda var jafnframt brottvísað frá landinu og honum ákvarðað endurkomubann til tveggja ára. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála 5. maí 2023. Kærunefnd barst greinargerð kæranda ásamt fylgiskjölum 19. maí 2023.
III. Ákvörðun Útlendingastofnunar
Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hann sé í hættu í heimaríki sínu, Venesúela, vegna almenns ástands þar í landi.
Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi væri ekki flóttamaður og honum skyldi synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi samkvæmt ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.
Kæranda var brottvísað frá landinu og honum ákvarðað endurkomubann til tveggja ára. Kæranda var veittur 15 daga frestur til að yfirgefa landið. Fram kom að yfirgæfi kærandi landið sjálfviljugur innan frestsins yrði endurkomubannið fellt niður.
Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.
IV. Málsástæður og rök kæranda
Í greinargerð kæranda eru gerðar ýmsar athugasemdir við ákvörðun Útlendingastofnunar. Andmælir kærandi m.a. staðhæfingu Útlendingastofnunar í hinni kærðu ákvörðun að hann hafi ekki lagt fram greinargerð. Vísar kærandi til kvittunar til staðfestingar á skilum, dags. 29. nóvember 2022, máli sínu til stuðnings. Með vísan til staðhæfingar Útlendingastofnunar sé ljóst að ekki hafi verið tekið tillit til málsástæðna kæranda við meðferð málsins hjá stofnuninni þar sem ekki hafi verið fjallað um eða afstaða tekin til málsástæðna hans sem sannanlega hefðu komið fram í greinargerð til stofnunarinnar. Útlendingastofnun hafi með þessu ekki gætt að málsmeðferðarreglum stjórnsýsluréttar og hafi stofnunin gerst brotleg við rannsóknarreglu og andmælarétt kæranda, sbr. 10. og 13. gr. stjórnsýslulaga, sbr. einnig 30. gr. laga um útlendinga. Þá sé ljóst af fullyrðingum Útlendingastofnunar að einstaklingsbundnar aðstæður kæranda hafi ekki verið rannsakaðar með fullnægjandi hætti. Hafi þannig verið fullyrt í ákvörðun Útlendingastofnunar að kærandi hefði séð fyrir sér með atvinnutekjum, dvalið í húsnæði og haft aðgang að heilbrigðisþjónustu og lyfjum. Kærandi hafi hins vegar lýst því í viðtali að hann hafi síðast búið í Venesúela þegar hann hafi verið 11 ára gamalt barn og hafi því t.a.m. með engu móti séð fyrir sér með atvinnutekjum. Hafi rannsókn Útlendingastofnunar á einstaklingsbundnum aðstæðum kæranda því ekki verið í samræmi við áskilnað 10. gr. stjórnsýslulaga.
Kærandi telur að Útlendingastofnun hafi borið að horfa til þess að hann hafi ekki búið í Venesúela síðan hann hafi verið barn og þekki því lítið sem ekkert til staðarhátta eða aðstæðna að öðru leyti en honum hafi verið sagt af fjölskyldu sinni. Verði honum gert að snúa aftur til Venesúela sé ljóst að félagslegar aðstæður hans verði erfiðar þar sem hann hafi ekkert stuðnings- eða tengslanet frá fjölskyldu eða öðrum aðilum. Þetta sé mikilvægt atriði sem nauðsynlegt sé að taka tillit til við ákvörðun um dvalarleyfi af mannúðarástæðum á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga.
Í greinargerð er fjallað um aðrar málsástæður kæranda og aðstæður í Venesúela.
V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála
Samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal stjórnvald sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því og afla í því skyni nauðsynlegra gagna og upplýsinga. Þá mælir 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga fyrir um að Útlendingastofnun skuli afla nauðsynlegra og aðgengilegra upplýsinga við meðferð mála. Mál telst nægilega rannsakað þegar þeirra upplýsinga hefur verið aflað sem nauðsynlegar eru til þess að hægt sé að taka efnislega rétta ákvörðun í því. Kröfur til rannsóknar í hverju máli ráðast af lagagrundvelli málsins og einstaklingsbundnum aðstæðum kæranda, þ.m.t. þeim málsástæðum sem hann ber fyrir sig.
Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi hafi ekki lagt fram greinargerð við meðferð málsins. Í greinargerð kæranda er þessu andmælt og því haldið fram að greinargerð hafi verið lögð fram hjá Útlendingastofnun af hálfu talsmanns 29. nóvember 2022. Lagði kærandi fram staðfestingu á skilum greinargerðarinnar og móttöku hennar hjá Útlendingastofnun. Hinn 7. desember 2023 óskaði kærunefnd eftir skýringum Útlendingastofnunar á athugasemdum kæranda. Kærunefnd barst svar frá stofnuninni sama dag þar sem fram kom að fullyrðing Útlendingastofnunar um að greinargerð hefði ekki borist virðist því miður hafa verið röng. Mistökin mætti rekja til þess að sending hefði verið sótt en láðst hefði að færa hana inn á mál kæranda og skrá í dagbók. Lagði Útlendingastofnun fram staðfestingu á móttöku greinargerðar kæranda.
Meginmarkmið stjórnsýslukæru er að tryggja réttaröryggi borgara með því að gera þeim kleift að fá umfjöllun um mál sín á tveimur stjórnsýslustigum. Að mati kærunefndar ber framangreint með sér að ekki hafi farið fram viðhlítandi mat á aðstæðum kæranda og málatilbúnaði hans á lægra stjórnsýslustigi. Verður jafnframt tekið undir það með kæranda að einstaklingsbundnar aðstæður hans hafi ekki verið rannsakaðar með fullnægjandi hætti. Var þannig m.a. fullyrt í ákvörðun Útlendingastofnunar að kærandi hefði séð fyrir sér með atvinnutekjum í Venesúela. Samkvæmt framburði kæranda var hann þó 11 ára gamall er hann flutti til Sýrlands frá Venesúela og var því ekki á vinnumarkaði í Venesúela. Málsmeðferð Útlendingastofnunar og rökstuðningur ákvörðunar í máli kæranda er, með vísan til framangreinds, ekki í samræmi við málsmeðferðarreglur stjórnsýsluréttar, m.a. 10. og 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kærunefnd telur framangreinda annmarka á málsmeðferð Útlendingastofnunar verulega og að ekki sé unnt að bæta úr þeim á kærustigi.
Með vísan til þess sem að framan hefur verið rakið er það niðurstaða kærunefndar að fella beri hina kærðu ákvörðun úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka umsókn kæranda til nýrrar meðferðar. Í ljósi þessarar niðurstöðu er ekki ástæða til umfjöllunar um aðra þætti ákvarðana Útlendingastofnunar.
Úrskurðarorð:
Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka mál kæranda til meðferðar á ný.
The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate is instructed to re-examine the case.
Þorsteinn Gunnarsson
Sindri M. Stephensen Þorbjörg I. Jónsdóttir