Hoppa yfir valmynd
15. júní 2016 Heilbrigðisráðuneytið

Batnandi tannheilsa barna

Bætt tannheilsa
Bætt tannheilsa

Árlegt hlutfall barna hér á landi sem búa við það góða tannheilsu að ekki þarf að gera við neina tönn hefur hækkað úr rúmum 56% árið 2001 í 72,4% árið 2015. Ef fjölda tannviðgerða ár hvert er deilt niður á fjölda barna sem leituðu til tannlæknis sama ár hefur hlutfall viðgerðra tanna lækkað um nærri 60% frá árinu 2001 – 2015.

Upplýsingarnar taka til barna yngri en 18 ára sem eru sjúkratryggð hér á landi og eiga rétt á greiðsluþátttöku sjúkratrygginga í kostnaði vegna tannlækninga. Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) hafa tekið saman upplýsingar sem sýna fjölda barna sem leituðu til tannlæknis ár hvert frá árinu 2001 – 2015 ásamt hlutfallslegum fjölda viðgerðra tanna í hverju barni, þ.e. deilt er með fjölda barna í fjölda tannviðgerða sem falla undir greiðsluþátttöku sjúkratrygginga. Í tilkynningu á vef stofnunarinnar segir:

„Árið 2001 var meðaltalið 1,57 viðgerð/barn en hefur síðan þá lækkað nær stöðugt ef frá eru skilin fyrstu tvö árin eftir að samningur um gjaldsfrjálsar tannlækningar barna tók gildi í maí árið 2013.  Það var enda viðbúið að meðaltalið myndi hækka í byrjun þegar börn, sem áður höfðu ekki átt þess kost að láta sinna öllum tannviðgerðum sínum, gátu loks fengið þá þjón­ustu sem þau þurftu.“

Árið 2015 lækkaði meðaltalið aftur og voru viðgerðar tennur að meðaltali 0,65 í hverju barni og nemur hlutfallsleg fækkun viðgerðra tanna í  hverju barni því um 59%.

Annar mælikvarði á tannheilsu barna er árlegt hlutfall þeirra barna sem býr við það góða tannheilsu að ekki þarf að gera við neina tönn. Árið 2001 var þetta hlutfall 56,2%, en árið 2015 hafði það hækkað í 72,4% og hefur aldrei verið hærra að því er fram kemur í umfjöllun SÍ.

Fjoldi-barna-og-tannvidgerda-SI-1999-2015

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum