Hoppa yfir valmynd
3. nóvember 2009 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Mál nr. 31/2009. Ákvörðun kærunefndar útboðsmála:

Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 15. október 2009

í máli nr. 31/2009:

Omnis ehf.

gegn

Akraneskaupstað

Með bréfi, dags. 29. september 2009, kærir Omnis ehf. ákvörðun bæjarstjórnar Akraneskaupstaðar 22. september 2009 um framlengingu á samningi við Tölvuþjónustuna SecurStore ehf. um kaup á tölvuþjónustu fyrir sveitarfélagið til næstu 18 mánaða.

Kærandi krefst þess aðallega að stöðvuð verði gerð fyrirhugaðs samnings kærða og Tölvuþjónustunnar SecurStore ehf. og innkaup samkvæmt honum á grundvelli ákvörðunar bæjarstjórnar þann 22. september 2009. Þá krefst kærandi þess að lagt verði fyrir kærða að bjóða út innkaup á tölvuþjónustu. Jafnframt er þess krafist að kærunefnd útboðsmála láti uppi álit sitt á skaðabótaskyldu kærða gagnvart kæranda.

Hafi samningur þegar verið gerður samkvæmt ofangreindri ákvörðun krefst kærandi þess til vara að sá samningur verði úrskurðaður ólögmætur og kærunefnd útboðsmála láti uppi álit á skaðabótaskyldu kærða gagnvart kæranda.

      Kærði, Akraneskaupstaður, skilaði athugasemdum í tilefni af stöðvunarkröfu kæranda 12. október 2009. Kærði krefst þess að kröfu um stöðvun samningsgerðar verði hafnað.

       Í þessum hluta málsins tekur kærunefnd til skoðunar hvort rétt þyki að stöðva samningsgerð kærða við Tölvuþjónustuna SecurStore ehf. Endanlega verður leyst úr efnisatriðum kærunnar síðar.

 

I.

Bæjarstjórn kærða og Tölvuþjónustan SecurStore ehf. gerðu með sér samning um innkaup á tölvuþjónustu í júní 2008 án undangengins útboðs. Í samningnum var kveðið á um innkaup á hýsingu, afritun, rekstur á miðlægum búnaði, internet gátt og þjónustu samkvæmt verkbeiðnum við stofnanir bæjarfélagsins og starfsmenn þeirra í tölvumálum.

       Á fundi bæjarráðs kærða 9. júní 2009 ákvað bæjarráð að fela bæjarstjóra að undirbúa útboð banka- og tölvuþjónustu. Skyldi tillaga þar að lútandi liggja fyrir þannig að útboð gæti farið fram fyrir áramót 2009-2010.  Á fundi bæjarráðs 30. júní 2009 var þessi afstaða áréttuð er rædd voru viðbrögð við fyrirspurn umboðsmanns Alþingis um þá ákvörðun bæjarstjórnar að ganga til samninga við Tölvuþjónustuna SecurStore ehf.

       Á fundi bæjarstjórnar kærða 22. september 2009 var hins vegar samþykkt „að endurskoða samþykkt bæjarráðs frá 19. júní s.l. um útboð framangreindrar þjónustu. Meirihluti bæjarstjórnar samþykkir að framlengja samning við Tölvuþjónustuna SecurStore ehf. um hýsingu og rekstrarþjónustu þannig að hann gildi til næstu 18 mánaða frá og með 1. október næstkomandi.“

 

II.

Kærandi bendir á að á fundi bæjarstjórnar 22. september 2009 hafi bæjarstjóri greint frá því að hann teldi að upphæð viðskipta við Tölvuþjónustuna SecurStore ehf. væri 6,4 milljónir króna á ári og því undir viðmiðunarmörkum í innkaupastefnu bæjarins. Kærandi leggur hins vegar áherslu á að afritun og hýsing séu aðeins tveir af fimm þáttum er samningurinn taki yfir og þar af leiðandi aðeins um 25-30% af þeim viðskiptum sem um ræði. Undir samninginn falli: hýsing, þjónusta við miðlægan búnað, öryggisafritun, internet gátt og þjónusta samkvæmt verkbeiðnum. Telur kærandi að allir þessi þættir hljóti að teljast til hefðbundinnar tölvurekstrarþjónustu.

       Kærandi fullyrðir að samkvæmt upplýsingum, sem fram komu á bæjarstjórnarfundum, séu umrædd viðskipti á ársgrundvelli á milli 20 og 25 milljónir króna. Verðmæti nýja samningsins á 18 mánaða tímabili sé því á bilinu 30-37,5 milljónir króna og langt umfram öll mörk útboðsskyldu, hvort sem litið sé til innkaupastefnu kærða eða viðmiðunarfjárhæða samkvæmt lögum nr. 84/2007 um opinber innkaup.

       Kærandi telur að umrædd ákvörðun kærða um að ganga til samninga við Tölvuþjónustuna SecurStore ehf. brjóti í bága við lög nr. 84/2007, svo og innkaupareglur kærða, sem samþykktar voru á fundi bæjarstjórnar 22. september 2009. Þá sé einnig ljóst að tilgangur innkaupastefnu kærða og laga nr. 84/2007 um að gæta jafnræðis við opinber innkaup hafi ekki verið virtur af bæjarstjórn kærða.

      

III.

Í athugasemdum kærða 12. október 2009 við stöðvunarkröfu kæranda kemur fram að bæjarstjórn kærða hafi samþykkt á fundi sínum 22. september 2009 að gera samning við Tölvuþjónustuna SecurStore ehf. um að þeir annist áfram hýsingu og rekstrarþjónustu fyrir bæinn gegn því að einingaverð lækki um 25%. Er samningurinn bundinn við 18 mánaða samningstímabil. Vísar kærði til þess að eldri samningur hafi verið uppsegjanlegur með sex mánaða fyrirvara. Þá segir að bæjarstjóri kærða hafi undirritað samninginn daginn eftir samþykkt bæjarstórnar, það er 23. september 2009. Fullyrðir kærði að því sé ekki hægt að stöðva samningsgerðina og krefst þess að kröfu um stöðvun samningsgerðar verði hafnað.

 

IV.

Samkvæmt 1. mgr. 96. gr. laga nr. 84/2007 um opinber innkaup getur kærunefnd útboðsmála stöðvað innkaupaferli eða gerð samnings, þar til endanlega hefur verið skorið úr kæru, telji nefndin að verulegar líkur séu á því að brotið hafi verið gegn lögunum.  Í ákvæði 1. mgr. 100. gr. laga nr. 84/2007 er hins vegar skýrt kveðið á um að eftir að bindandi samningur sé kominn á verði hann ekki felldur úr gildi eða honum breytt þótt ákvörðun kaupanda um framkvæmd útboðs eða gerð samnings hafi verið ólögmæt.

       Í málinu liggur fyrir að kærði og Tölvuþjónustan SecurStore ehf. undirrituðu 23. september 2009 „Viðauka við samning um hýsingu og rekstrarþjónustu dagsettan 19. júní 2008“. Telja verður að kominn sé á bindandi samningur milli aðila og því verði samningsgerð ekki stöðvuð.

 

Ákvörðunarorð:

Hafnað er kröfu kæranda, Omnis ehf., um stöðvun samningsgerðar kærða, Akraneskaupstaðar, við Tölvuþjónustuna SecurStore ehf.

 

                   Reykjavík, 15. október 2009.

 

 

Páll Sigurðsson,

Stanley Pálsson,

       Auður Finnbogadóttir

 

 

 

Rétt endurrit staðfestir,

 

Reykjavík, 15. október 2009.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum