Hoppa yfir valmynd
10. október 2003 Utanríkisráðuneytið

Ræða fastafulltrúa á allsherjarþingi S.þ. og í fyrstu nefnd allsherjarþingsins

Nr. 110

FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu


Íslensk stjórnvöld styðja tillögu Kofi Annan aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna um tilnefningu valinkunnra manna til að leggja fram hugmyndir um endurskipulag samtakanna. Frá þessu skýrði Hjálmar W. Hannesson, sendiherra, fastafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum í umræðu um ársskýrslu aðalframkvæmdastjórans og um aldamótamarkmiðin svokölluðu, í allsherjarþinginu í vikunni.
Fastafulltrúinn undirstrikaði þörf þess að Sameinuðu þjóðirnar lagi sig að breyttum tímum og hvatti til þess að samtökin væru í fararbroddi í notkun upplýsingatækni með það fyrir augum að gera starf þeirra skilvirkara og opnara, og jafnframt til að aðstoða þróunarríki til þess að fá aðgang að nýjustu upplýsingatækni.
Þá flutti fastafulltrúinn ræðu í nefnd allsherjarþings S.þ. um afvopnunar- og öryggismál. Hann hvatti eindregið til þess að starf nefndarinnar yrði tekið til gaumgæfilegrar athugunar. Breytinga væri þörf og nefndi hann t.d. möguleika á fækkun ályktana sem árlega koma til umfjöllunar.
Hann fagnaði aðild Kúbu og Austur-Tímor að samningnum um að hefta útbreiðslu kjarnavopna (NPT) og hvatti sérstaklega Pakistan og Indland til framfylgja ályktun öryggisráðsins frá 1998 þar sem m.a. kjarnorkuvopnatilraunir ríkjanna voru fordæmdar. Lýst var yfir áhyggjum íslenskra stjórnvalda yfir ákvörðun Norður-Kóreumanna um að segja sig frá þeim samningi. Fastafulltrúi sagði að ályktun allsherjarþingsins um bann við losun geislavirks úrgangs væri mikið hagsmunamál fyrir Ísland sem byggði afkomu sína að stórum hluta á auðlindum hafsins.

Hjálagt fylgja viðhengi með ræðum fastafulltrúans.



Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 10. október 2003



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum