Innviðaþing 28. ágúst – skráning er hafin
Innviðaþing verður haldið fimmtudaginn 28. ágúst nk. á Reykjavík Hótel Nordica undir yfirskriftinni Sterkir innviðir – sterkt samfélag. Innviðaráðuneytið stendur að þinginu en þar verður sjónum beint að uppbyggingu og öryggi innviða í samgöngum og fjarskiptum, þ.á m. fjárfestingum og samfélagslegum ávinningi.
Þingið er öllum opið en fólk er hvatt til að skrá sig á viðburðinn. Viðburðurinn stendur allan daginn. Húsið opnar kl. 8:30, dagskrá hefst kl. 9 en þinginu lýkur kl. 16.
Fjölbreytt dagskrá
Eyjólfur Ármannsson innviðaráðherra, Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra og Daði Már Kristófersson fjármála- og efnahagsráðherra munu flytja erindi á þinginu. Sérstakur gestur Innviðaþings er Jari Kauppila, forstöðumaður hjá International Transport Forum (ITF).
Jari mun í erindi sínu fjalla um gildi innviðauppbyggingar, leiðir til að fjármagna slíka uppbyggingu og setja hvort tveggja í alþjóðlegt samhengi. ITF starfar innan OECD og markmið þess er að stuðla að samvinnu þjóða í málefnum samgangna og standa að viðamiklum rannsóknum sem ætlað er að vera grundvöllur fyrir stefnumótun og ákvörðunartöku á öllum sviðum samgangna.
Fjölmargir aðrir þátttakendur munu í fyrirlestrum eða í pallborði beina sjónum að uppbyggingu og öryggi innviða í samgöngum og fjarskiptum frá ýmsum hliðum.
Skráning hafin
Við hvetjum fólk til að skrá sig á Innviðaþingið og taka virkan þátt í samtali um mikilvæga uppbyggingu og fjárfestingu í innviðum til framtíðar. Ítarlegri upplýsingar um dagskrá þingsins verða kynntar innan skamms.