Hoppa yfir valmynd
7. júlí 2023 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspóstur 7. júlí 2023

Heil og sæl, 

Það leikur enginn vafi á því að nú er föstudagur, eins og við í upplýsingadeild spyrjum okkur gjarnan að. Þessa dagana getur líka verið gott að spyrja sig: er komið eldgos?

Þótt við hér heima gerum fátt annað en að fylgjast með beinu streymi frá Fagradalsfjalli heldur lífið áfram sinn vanagang í ráðuneytinu og hjá sendiskrifstofunum okkar úti í heimi.

Sagt var frá því á stjórnarráðsvefnum að Ísland, ásamt Norðurlöndunum og Litáen, tekur þátt í leiða þjálfunarverkefni í sprengjuleit og eyðingu sem hófst í mars síðastliðnum. Í tengslum við verkefnið hefur verið ákveðið að Ísland leggi til grunnbúnað fyrir þátttakendur að andvirði um 50 milljóna króna sem nýtist við þjálfunina. Búnaðurinn verður fluttur til Úkraínu að loknu hverju námskeiði og verður þar notaður við leit að jarðsprengjum og eyðingu þeirra.

Jóhanna Jónsdóttir, staðgengill sendiherra í London undirritaði fyrir Íslands hönd samning við Bretland um samræmingu almannatrygginga. Samningurinn var gerður á milli EFTA ríkjanna þriggja; Íslands, Liechtenstein og Noregs, og Bretlands og kveður hann á um framtíðarfyrirkomulag hvað varðar réttindi á sviði almannatrygginga, aðallega lífeyrisréttindi og sjúkratryggingar þeirra sem fara eða flytjast milli landanna. 

Sendiráðsstarfsmenn í London tóku þátt í London Pride ásamt hinum Norðurlöndunum. Þar var gengið undir flagginu "Nordics for Equality" eins og víðar. 

Pride viðburður átti sér einnig stað í Osló og þar flaggaði sendiráðið regnbogafánanum og tók þátt í gleðigöngunni ásamt fleiri fulltrúum diplómatasamfélagsins. 

Hinseginleikinn var líka hylltur í Finnlandi þar sem Harald Aspelund sendiherra tók þátt í gleðigöngunni sem fór fram síðastliðinn laugardag. 

Og norrænir sendiherrar í Berlín skörtuðu öllum regnbogans litum af sama tilefni þar í borg. 

Félag eigenda íslenskra hesta í Bretlandi hélt sumarmót sitt á dögunum. Meðal gesta var Anna Bretaprinsessa, kunn hestakona og mikill aðdáandi íslenska hestsins. Jóhanna Jónsdóttir, staðgengill sendiherra var þar einnig.

Formennska Íslands í samráði NATO-ríkja á vettvangi Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE) fór af stað í vikunni á vel heppnuðum fundi um stefnu og starf NATO á sviði loftslagsbreytinga og öryggis undir stjórn fastafulltrúa Íslands hjá ÖSE í Vínarborg, Kristínar A. Árnadóttur.

Í Genf flutti Ísland ræðu á 53. lotu Mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna fyrir hönd NB8 ríkjanna svokölluðu; Danmerkur, Eistlands, Finnlands, Íslands, Lettlands, Litáen, Noregs og Svíþjóðar. 

Fulltrúar sendiráðs Íslands í Kína sóttu Gansu heim, þar sem sendiráðið stóð fyrir þátttöku íslenskra fyrirtækja á kaupstefnunni China Lanzhou Investment and Trade Fair. Þeir heimsóttu jafnframt Gansu Technology Center for Rehabilitation and Assistive Devices, samstarfsaðila Össurar  í Gansu.

Í Mangochi héraði í Malaví áttu fulltrúar sendiráðsins þar í landi innihaldsríkar viðræður við fulltrúa Mangochi héraðs um upplýsingaskrifstofu sem er verið að opna þar, með stuðningi Íslands.

Þá fagnaði sendiráðið í Malaví einnig 59. þjóðhátíðardegi landsins á fimmtudaginn 6. júlí.

Víðar var haldið upp á þjóðhátíðardaga en sendiráð Íslands í Kanada hélt upp á svokallaðan Canada Day, þjóðhátíðardag Kanadamanna. Þau tóku af því tilefni á móti forsetahjónunum íslensku sem einnig héldu daginn hátíðlegan. 

Bandaríkin héldu upp á þjóðhátíðardag sinn síðastliðinn þriðjudag, hinn 4. júlí. Sótti Bergdís Ellertsdóttir sendiherra Íslands í Washington hátíðahöld af því tilefni og starfsfólk sendiráðsins sendi landsmönnum öllum hlýjar kveðjur.

Enn af þjóðhátíðardögum. Sendiráð Íslands í Kaupmannahöfn birti í vikunni myndir af vel heppnuðum hátíðarhöldum í tengslum við uppáhald þjóðhátíðardags Íslands þann 17. júní síðastliðinn. 

Í Danmörku hélt félag maka sendiherra sinn fyrsta basar, en markmiðið með basarnum var að kynna menningu og matargerð þátttökulandanna og safna fé til stuðnings danska flóttamannaráðsins. Hafþór Þorleifsson, maki sendiherra Íslands, tók þátt í basarnum  og söfnuðust alls 2,6 milljónir íslenskra króna.

Í Bandaríkjunum var ekki bara þjóðhátíðardagur. Davíð Logi Sigurðsson, staðgengill sendiherra og varnarmálafulltrúi sendiráðsins, sótti á mánudag viðburð á Mount Vernon, búgarði fyrsta forseta Bandaríkjanna, George Washington, þar sem nýju skipi Bandaríkjaflota var gefið nafnið USS Lafayette. Flotamálaráðherra Bandaríkjanna, Carlos del Toro, var viðstaddur athöfnina.

Sendiráðið í Washington tók líka fagnandi á móti nýjum starfsnema, Helenu Bjarkadóttur, sem verður við störf í sendiráðinu næstu mánuði.

Í Tókýó var líka sagt frá nýlentum liðsauka sem var að sjálfsögðu einnig tekið fagnandi.

Í París opnaði Unnur Orradóttir sendiherra ljósmyndasýninguna Søsterskap en sýningin leiðir saman norræna kvenljósmyndara. Í opnunarávarpi varpaði sendiherrann ljósi á auð norrænnar ljósmyndunar og sköpunargleði listamannanna.

Við ljúkum föstudagspóstinum að þessu sinni í Færeyjum með myndum af göngufélagi eldri borgara í Hafnarfirði sem gerðu sér lítið fyrir og heimsóttu skrifstofu aðalræðismannsins Ágústu Gísladóttur á ferð sinni um eyjarnar fögru. 

Þá verður föstudagspósturinn ekki lengri að sinni. Við biðjum ykkur vel að njóta veðursins, hvar sem þið eruð stödd. 

Sólarkveðja frá upplýsingadeild.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum