Hoppa yfir valmynd
30. mars 2001 Utanríkisráðuneytið

Störf Norrænu ráðherranefndarinnar 2000

Ræða samstarfsráðherra Sivjar Friðleifsdóttur á Alþingi
vegna umræðna um skýrslu um störf Norrænu ráðherranefndarinnar 2000
29. mars 2001


Herra forseti,

Ég mæli hér fyrir skýrslu samstarfsráðherra Norðurlanda um störf Norrænu ráðherranefndarinnar á árinu 2000. Danir fóru með formennsku í ráðherranefndinni það ár og var yfirskrift formennskuáætlunar þeirra "Norrænu velferðarríkin - fagleg þekking, mannleg sýn". Markmið áætlunarinnar var að hvetja til umræðu um velferðarmál í víðum skilningi og framtíð norræna velferðarkerfisins í ljósi breyttrar aldursdreifingar og aðþjóðavæðingarinnar. Undir þessum merkjum voru því bæði haldnar athyglisverðar ráðstefnur og gefnar út skýrslur um velferðarkerfið, norræna vinnumarkaðinn og um áhrif evrunnar á efnahag og velferðarkerfi Norðurlanda.

Þó árleg fjárlög Norrænu ráðherranefndarinnar nemi hátt á áttunda milljarð íslenskra króna, er megnið af því fé bundið í langtímaverkefnum og rekstri samnorrænu stofnananna. Þetta hefur á undanförnum árum verið gagnrýnt, þar sem afleiðingin er að fjármuni hefur skort til nýrra áhugaverðra verkefna. Framkvæmdastjóra ráðherranefndarskrifstofunnar var því falið á árinu að leggja fram tillögur um breytingar á norrænu fjárlagagerðinni. Flestar þeirra tillagna, sem lagðar voru fram, eru um fjárlagatæknileg atriði og hafa sumar þeirra þegar verið teknar til framkvæmda, en aðrar verða það bráðlega. Nokkrar tillagnanna krefjast þó frekari umfjöllunar og verður niðurstaða samstarfsráðherranna um þær lagðar fyrir Norðurlandaráð sem ráðherranefndartillaga. Sú þeirra sem er veigamest, er þess efnis að teknar verði upp samningsviðræður við stjórnir flestra norrænu stofnananna um gagngerar breytingar á rekstrarformi þeirra. Hún hefur verið send til umsagnar fagráðherranefndanna og stjórna stofnananna en hlaut þar lítinn hljómgrunn. Samstarfsráðherrarnir hafa síðan fjallað um hana en ekki tekið endanlega afstöðu. Ljóst er þó að ólíklegt er að gengið verði eins langt og lagt er til hvað varðar breytingarnar á rekstrarformi stofnananna.

Ég tel almennt séð að starfsárið hafa verið jákvætt og árangursríkt, bæði hvað varðar sérstök áhugamál okkar Íslendinga og þegar á heildina er litið. Þrjár skýrslur, sem allar snúa að stefnumótun í samstarfinu til lengri tíma voru lagðar fram og ræddar í ráðherranefndinni. Fyrsta vil ég nefna skýrslu hins svo kallaða vitringahóps, sem kallast "Norðurlönd - umleikin vindum veraldar". Þar eru lagðar til fjölmargar hugmyndir og tillögur um breytingar á starfsemi ráðherranefndarinnar og Norðurlandaráðs í ljósi samfélagsþróunar á Norðurlöndum og þeirra breytinga sem vænta má vegna alþjóðavæðingar á næstu árum. Skýrslan lá frammi á síðasta þingi Norðurlandaráðs í nóvember í Reykjavík. Í janúar sl. var síðan efnt til sameiginlegs fundar norrænu samstarfsráðherranna og Norðurlandaráðs.

Á fundinum var meðal annars ákveðið að eftirfylgni Norðurlandaráðs og ráðherranefndarinnar héldist í hendur og að sameiginlegar tillögur um nýjar áherslur og aðgerðir yrðu lagðar fyrir Norðurlandaráðsþing í nóvember 2001.

Í skýrslu "vitringahópsins" er að finna fjölmargar athyglisverðar tillögur um nýja málaflokka og samstarfsfleti, sem taka mið af núverandi aðstæðum og framtíðarspá. Ég nefni til dæmis hugmyndir þær, sem þar eru lagðar fram, um að gera þurfi samstarfið sveigjanlegra og taka m.a. upp þverfaglegt samstarf við önnur ríki og svæði en okkar hefðbundnu grannsvæði. Ég mun þar leggja mitt af mörkum til að hugmyndir um samstarf ríkjanna kringum Norður-Atlantshafið um umhverfis- og auðlindamál þess svæðis komi til framkvæmda. Fyrsti vísir að slíku er reyndar þegar fyrir hendi, því við héldum árið 1999 á formennskuári Íslands norræna ráðstefnu í Reykjavík um umhverfis- og atvinnuþróun og fleiri þætti sem sameiginlegir eru fyrir Norður-Atlantshafssvæðið. Ráðstefnuna sóttu fulltrúar frá skosku eyjunum og Kanada, auk Færeyja og Íslands. Í framhaldi þessa hefur verið boðað til ráðstefnu um verndun sjávar og sjálfbæra nýtingu auðlinda hafsins á Norður-Atlantshafssvæðinu og grannsvæðum þess, sem umhverfis- og sjávarútvegsráðherrar Íslands, Grænlands, Færeyja, Noregs og Danmerkur munu sækja auk ráðamanna frá skosku eyjunum og Kanada. Einnig er vænst þátttöku frá Írlandi og ESB.

Ég nefni einnig hugmyndir um að taka upp norrænt samstarf um mál tengd breyttri aldursdreifingu á íbúum Norðurlanda og fjölgun innflytjenda frá löndum utan Norðurlanda. Þessum þjóðfélagsbreytingum fylgja margvísleg ný vandamál, sem ná þarf tökum á í tæka tíð.

Á starfsárinu var og lögð fram tillaga um áætlun um sjálfbæra þróun á Norðurlöndum til ársins 2020. Áætlunin, sem hefur þegar verið kynnt í ríkisstjórn, verður til umræðu á þemafundi Norðurlandaráðs í byrjun apríl í Osló. Efni hennar og markmið snýr bæði að samnorrænum verkefnum og aðgerðum innanlands. Málefnið er eðli sínu samkvæmt þverfaglegt og mörg samstarfssvið koma að framkvæmdinni. Því voru það forsætisráðherrar landanna sem tóku frumkvæði að mótun stefnunnar. Eftirfylgnin er hins vegar á hendi samstarfsráðherranna, þó umhverfisráðherrar gegni þar lykilhlutverki. Ég tel þetta frumkvæði vera afar mikilvægt framlag til sjálfbærrar þróunar, ekki bara á Norðurlöndum heldur og á alþjóðavettvangi, ef við nýtum þau færi sem gefast á að kynna þetta einstaka átak Norðurlanda sem víðast. Norðurlönd eru fyrstu löndin sem taka sig saman um áætlun um sjálfbæra þróun og taka á þann hátt forustu í þessu mikilvægu máli.

Grundvallarhugsunin að baki hinnar sérstöku áætlunar okkar Íslendinga "Fólki og hafi í norðri", sem við lögðum fram á formennskuári okkar 1999, er um margt sú sama og liggur að baki áætluninni um sjálfbæra þróun á Norðurlöndum. Við Íslendingar vildum með henni stuðla að því að hagsmunir þeirra, sem byggja norðlæg strjálbýl svæði, yrðu settir í fyrirrúm. Og sjálfbær nýting náttúruauðlinda svæðisins skiptir þar sköpum auk sameiginlegra rannsókna á lífríki svæðisins og kynningar á lífskjörum íbúa þess. Því gefst kærkomið tækifæri til að fylgja áfram eftir formennskuáætluninni "Fólk og haf í norðri", verði áætluninni um sjálfbæra þróun á Norðurlöndum veitt brautargengi af Norðurlandaráði, sem er afar líklegt.

Eins og fram kemur í skýrslu þeirri sem ég tala hér fyrir, var ýmsu af því sem við Íslendingar settum á dagskrá árið 1999 ekki hrundið í framkvæmd fyrr en árið 2000. Þess á meðal er viðamikið rannsóknarverkefni um samspil sjávarstrauma og loftslags, sem Færeyingar áttu frumkvæði að, ráðstefna um skógrækt handan skógarmarka og ráðstefna um stöðu ungmenna á jaðarsvæðum. Eins er um víkingasýninguna glæsilegu, sem sett var upp í Smithsonian-safninu í Washington í apríl og síðan flutt til New York. Hún er nú sýnd í náttúru- og vísindasafninu í Denver.

Þá er það afar ánægjulegt hve ráðherranefndin tók að sér mikilvægt hlutverk í eftirfylgni ráðstefnunnar "Konur og lýðræði", sem ríkisstjórnin hélt 1999 í Reykjavík í samstarfi við ríkisstjórn Bandaríkjanna og ráðherranefndina. Ráðherranefndin hefur með höndum skráningu þeirra verkefna sem hleypt var af stokkunum í kjölfar Reykjavíkur-ráðstefnunnar. Jafnframt gegndi hún mikilvægu hlutverki við undirbúning ráðstefnunnar sem haldin var í Helsinki í mars 2000 og við undirbúning ráðstefnunnar sem haldinn verður í Litháen í sumar, en markmið þeirra beggja er að fylgja eftir Reykjavíkur-ráðstefnunni.

Eins og menn muna var og haldið fjölmennt norrænt ungmennamót "Menning og æska" í Reykjavík sumarið 2000 með umtalsverðum fjárstuðningi og aðstoð bæði frá ráðherranefndinni, ríkisstjórninni og öðrum opinberum aðilum hér á landi.

Þá vil ég nefna málefni upplýsingasamfélagsins, sem við Íslendingar og reyndar fleiri norræn lönd hafa lagt ríka áherslu á að sett verði á dagskrá norræns samstarfs. Sú staðreynd að þau mál eru á hendi mismunandi ráðherra í löndunum hefur valdið því, að ekki hefur enn verið haldinn norrænn ráðherrafundur, þó ákvörðun um stofnun ráðherranefndar hafi verið tekin snemma árs 1999. Samstarf milli viðkomandi embættismanna er þó hafið og drög hafa verið lögð að samstarfi ráðherranna. Auk þess hefur ýmis starfsemi byggð á upplýsingatækninni á síðustu tveimur árum verið tekin upp á vegum ráðherranefndarinnar. Þar nefni ég sérstaklega menntamála- og rannsóknasvið og iðnaðar- og atvinnumál.

Sú ákvörðun samstarfsráðherranna á starfsárinu, að fagráðherranefndirnar skyldu bera ábyrgð á því hver á sínu sviði að jafnréttis skuli gætt í starfseminni, er í samræmi við þá stefnu að nauðsynlegt sé að samþætta jafnréttissjónarmið við öll svið þjóðfélagsins til að árangur náist. Því vænti ég góðs af þessari ákvörðun.

Að lokum vil ég skýra frá því að formennskuáætlun Finna, sem nú hafa tekið við forystu í samstarfinu, var lögð fram á þingi Norðurlandaráðs hér í Reykjavík í nóvember sl. Yfirskrift hennar er "Nordbo 2001" eða "Norðurlandabúi 2001" og helsta markmiðið er að setja hagsmuni einstaklingsins á Norðurlöndum í fyrirrúm í samstarfinu. Af því tilefni hefur þegar verið ákveðið að út verði gefin eins konar norræn réttindaskrá, því réttindi eru lítils virði ef fólk veit ekki um þau. Auk skrárinnar verður gerð úttekt á þeim hindrunum sem enn standa í vegi fyrir því að Norðurlandabúar njóta sama réttar og heimamenn með það að markmiði að þessum hindrunum verði rutt úr vegi. Ég styð þetta framtak Finna heils hugar enda er það í samræmi við stefnu okkar Íslendinga í samstarfinu.

Þá vil ég, virðulegi forseti, að lokum nefna, að samningar hafa tekist við Norræna félagið um að sjá um norræna þjónustusímann "Halló Norðurlönd" á Íslandi og flyst því þjónustan til Íslands innan tíðar. Sams konar samningar hafa og verið gerðir annars staðar á Norðurlöndum. Ráðherranefndin verður tengiliður þessarar þjónustu og mun sjá um gagnabanka fyrir starfsemina.

Um nánari upplýsingar vísa ég til skýrslunnar sem að venju var gerð í samstarfi allra ráðuneyta og er afar efnismikil.

Að lokum vil ég þakka sérstaklega Íslandsdeild fyrir gott samstarf og lýsa ánægju með hversu vel tókst til við alla framkvæmd Norðurlandaráðsþingsins hér í nóvember. Það var Alþingi og Íslandsdeild Norðurlandaráðs til mikils sóma hvernig var staðið að því.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum