Hoppa yfir valmynd
10. maí 2001 Utanríkisráðuneytið

Norræni þjónustusíminn

Ræða Sivjar Friðleifsdóttur samstarfsráðherra vegna opnunar norræna þjónustusímans
"Halló Norðurlönd"
í Reykjavík, 10. maí 2001


Hverjum þjónar starfsemin?

Íslendingar eru, eins og flestir vita, þjóð sem er opin fyrir nýjungum og ferðast mikið til annarra landa. Þó grunar mig að sú staðreynd, að um 5% íslensku þjóðarinnar skuli vera búsett annars staðar á Norðurlöndum, komi mörgum á óvart. Ekki síður er það athyglisvert að árið 1999 skuli 2300 Íslendingar hafa flutt til annarra Norðurlanda og álíka margir til Íslands frá öðrum norrænum löndum. Þessi hópur, sem er ekki lítill, er sá hópur öðrum fremur sem Norræni þjónustusíminn á Íslandi, sem kynntur er í dag, á að þjóna, þó hann muni vafalaust gagnast fleirum.

Aðdragandi
Norræna ráðherranefndin hefur rekið norrænan þjónustusíma, til reynslu, um tæplega þriggja ára skeið. Markmið þjónustunnar var m.a. að afla upplýsinga um hvort raunveruleg þörf væri á að reka sérstaka þjónustu við þá Norðurlandabúa sem flytja milli norrænu landanna. Niðurstöður þeirrar úttektar sem gerð var á starfseminni að loknum reynslutímanum, leiddi ótvírætt í ljós að svo er. Því var ákveðið að auka þjónustuna og koma á þeirri skipan að þjónustusími yrði starfræktur í öllum löndunum þannig að unnt yrði að hafa samband á móðurmálinu. Norræna ráðherranefndarskrifstofan í Kaupmannahöfn hefur og hafið starfrækslu sérstaks gagnabanka og heldur uppi tengslaneti milli þeirra, sem sjá um þjónustuna í löndunum. Á vegum skrifstofunnar hefur og verið komið á fót sérstakri heimasíðu Halló Norðurlanda. Slóðina að henni er að finna í þeim kynningarbæklingi sem hér liggur frammi. Þar er að finna ýmsan fróðleik sem gagnast getur fólki í flutningshugleiðingum eða í leit að upplýsingum. Hægt er að velja um að fá síðuna upp á hvaða norðurlandamáli sem er.


Innihald þjónustunnar
Megin markmið þjónustunnar er að leiðbeina þeim sem flytja milli norrænu landanna í samskiptum sínum við stjórnvöld. Þjónustan veitir þannig almennar upplýsingar um réttindi og skyldur og nauðsynlegan undirbúning til að menn missi ekki lögbundin réttindi sín við flutninginn. En hún veitir jafnframt upplýsingar og leiðbeiningar til þeirra einstaklinga, sem lent hafa í ýmiss konar erfiðleikum vegna þess að þeir eru búsettir í öðru norrænu landi en heimalandinu.

Reynslan hefur sýnt að þrátt fyrir víðtæka samninga milli norrænu landanna sem gerðir hafa verið til að auðvelda flutninga fólks til langs eða skamms tíma milli landanna, getur komið upp margvíslegur ófyrirséður vandi. Mál þau sem upp koma snerta sjúkratryggingar, skatta, tolla, rétt til námslána, húsaleigubóta, fæðingarstyrks og margt fleira. Það er alveg ljóst að ekki verður unnt að leysa allan vanda en mörgum, sem eiga rétt skv. samningum eða lögum, er hægt að leiðbeina og aðstoða. Eins mun verða unnt að varpa ljósi á hvar úrbóta er þörf og fylgja þeim málum eftir á norrænum vettvangi í hópi ráðherranna.

Það er okkur sérstök ánægja að Norræna félagið skuli hafa tekið að sér reksturinn hér á landi og ráðið sérstakan starfsmann, Esther Sigurðardóttur, sem mun vera við símann hálfan daginn. Það verður þó unnt að bera fram fyrirspurnir á netinu og símleiðis allan sólarhringinn.

Auk Estherar er hér Rebecka Wallin, starfsmaður Norrænu ráðherranefndarinnar, sem sér um rekstur gagnabankans. Hún mun skýra hér á eftir nánar frá starfseminni og svara fyrirspurnum ásamt mér og Esther.

Það er mér sérstök ánægja hversu margir hafa séð sér fært að koma hingað til að kynna sér þessa þjónustu, sem ég vænti góðs af. Ég vona því að þið verið ófeimin að bera fram fyrirspurnir um það er ykkur leikur forvitni á að vita.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum