Hoppa yfir valmynd
5. júlí 2001 Utanríkisráðuneytið

Ferð samstarfsráðherra til Þelamerkur

Ferð samstarfsráherra til Þelamerkur - Tengsl Íslands og Noregs
Samskipti Noregs og Íslands frá upphafi byggðar á Íslandi



Kæru norsku vinir,
það er mér sérstök ánægja að fá að ávarpa ykkur hér í dag.

Mál og menning

Saga Noregs og Íslands hefur um aldir, eða allt frá 9. öld þegar Ísland byggðist, verið samofin. Ég hef oft velt því fyrir mér hvernig Ísland hafi komið norsku landnemunum fyrir sjónir við komuna þangað. Í Landnámabók segir að landið hafi verið viði vaxið frá fjalli til fjöru. Vafalaust var það grösugra og skógi vaxnara en það er í dag, enda hitastig nokkrum gráðum hærra en nú er þó tæplega hafi skóglendið jafnast á við norsku skógana. Margt hlýtur þó að hafa komið á óvart, hraunlendur, heitir hverir, eldgos, jarðskjálftar og landslagið með allt öðrum hætti en í Noregi.

Fyrstu aldirnar eftir að landið byggðist var sama málið talað í Noregi og á Íslandi. Það var eðlilegt, þar sem flestir landnámsmenn hafa komið frá Noregi, að því er sögur segja. Sumir þeirra höfðu þó haft nokkra viðkomu á Bretlandseyjum, þannig að margir af fyrstu íbúum Íslands hafa verið þaðan kynjaðir og án efa talað móðurmál sitt sín á milli. Mjög skiptar skoðanir hafa verið á því hve mikill hluti frumbyggja Íslands hafi verið af gelískum uppruna. Nýlegar rannsóknir á genamengi Íslendinga benda til að fjöldi landnema af gelískum uppruna hafi verið mun meiri en áður hefur verið talið. Allt að einu sýnir tungumálið að ráðandi stétt hefur a.m.k. verið af norskum uppruna, enda þótt fáein tökuorð úr gelísku séu varðveitt í færeysku og íslensku en ekki í norsku.

Allt fram á 14. öld var ekki meiri munur á íslensku og suðvesturnorsku en á milli þeirrar mállýsku og annarra norskra mállýskna. Löndin voru því eitt málsvæði og bækur áttu greiða leið á milli, án efa báðar leiðir lengi vel. Um marga einstaka texta elstu kirkjulegra bókmennta, sem flestir eru þýddir úr latínu er t.d. ekki vitað nú á tímum í hvoru landinu þeir hafa verið þýddir á norrænt móðurmál, enda þótt varveitt handrit þeirra séu flest eða öll íslensk.

Á 13. öld voru riddarasögur þýddar úr frönsku í Noregi og uppskriftir þeirra hafa borist til Íslands og aukið kyn sitt þar en á hinn bóginn voru flestar sögur um norska konunga samdar af Íslendingum og mörg eintök þeirra flutt til Noregs. Auk þess voru íslenskir skrifarar stundum við skriftir í Noregi. Sumir þeirra íslensku skrifara sem skrifuðu jöfnum höndum fyrir Norðmenn og Íslendinga hafa leitast við að tileinka sér norskar ritvenjur, þannig að segja má að þeir hafi gert tilraun til að búa til ritmál sem gæti gengið um allt Atlantsveldi Noregskonungs.

Eftir varðveittum handritum og handritaleifum að dæma hefur íslensk bókagerð fyrir Norðmen staðið í blóma um 1300 og fram á 14. öld en um miðja þá öld virðist hafa dregið úr henni og hún verið á enda þegar öldin var öll.

Skýringarnar á þessari breytingu eru margar. Ein þeirra er að eftir því sem á leið á 14. öld tóku mál Íslendinga og Norðmanna að greinast til muna, þannig að dregið hefur verulega úr gagnkvæmum málskilningi. Önnur skýring er að plágan mikla sem geisaði í Noregi um miðja 14. öld án þess að ná til Íslands olli gríðarlegu mannfalli. Það mun ekki síst hafa gengið út yfir lærða men og aðalinn, sem trúlega hafa verið helstu viðtakendur bóka á þessum tíma. Auk þess var seta konungs lítil í Noregi eftir að Noregur komst í konungssamband við Svíþjóð 1319 og með Kalmarsambandinu fluttist konungsstjórn norska ríkisins endanlega til Danmerkur. Konungurinn ungi, Ólafur Hákonarson, síðasti meiðurinn af norsku konungsættinni frá Haraldi hárfagra, dó 1387. Af sjálfu leiðir að þá hefur dregið úr áhuga Norðmanna á sögum konunga sinna, þó að sá áhugi vaknaði á ný með verkum norskra húmanista á 16. og 17. öld.

Í grein sem íslenski sagnfræðingurinn Árni Pálsson ritaði árið 1924 segir hann m.a. "Hin pólitíska sameining Noregs og Íslands 1262 er ekki hinn sorglegasti viðburður í Íslandssögu, þó að flestir Íslendingar munu líta svo á. Norðmenn hafa oft lýst gremju sinni yfir því, er þeir "misstu" Ísland í hendur Dönum 1814. En vér höfðum þá fyrir löngu misst miklu meira, vjer höfðum misst Noreg úr málfélagi við oss og í hendur Dana, og hygg jég að það sje allra sorglegasti viðburðurinn í sögu Íslands. ... Síðan höfum vjer orðið að mælast einir við her í útskerinu." (ath að hafa þetta á íslensku og norsku)

Þelamörk og Þilir

Flestir íslensku landnámsmannanna komu frá vesturhéruðum Noregs, en Þelamerkur er að sjálfsögðu getið nokkrum sinnum í sögum norskra konung. Í íslenskum sögum er þess getið að nokkrir landnámsmenn hafi átt ættir að rekja til Þelamerkur. T.d. áttu fyrstu landnámsmennirnir, fóstbræðurnir Ingólfur og Hjörleifur, sem eru sagðir hafa komið úr Dalsfirði í Firðafylki, ættir að rekja til Þelamerkur. Afar þeirra eiga nefninlega að hafa verið af Þelamörk en farið þaðan fyrir vígasakir. Einnig er þess getið í sögum að tveir bræður af Þelamörk, Þorsteinn og Þorgeir Ásgrímssynir hafi flust til Íslands ásamt Þórunni móðursystur sinni eftir að faðir þeirra hafi verið veginn að undirlagi Haralds hárfagra fyrir að hafa neitað að gangast undir skattskyldu við konung.

Eins og kunnugt er var neitun skattskyldu við konung ein algengasta ástæðan, sem nefnd er í Landnámabók og Íslendingasögum, fyrir því að Norðmenn gerðust landnámsmenn á Íslandi á dögum Haralds hárfagra. Það var síðan ekki fyrr en Íslendingar gengust undir skattskyldu við Hákan gamla árið 1262 að þeir greiddu skatta til veraldlegra yfirvalda. Að vísu guldu þeir bændur sem voru yfir ákveðnu eignamarki en riðu ekki til alþingis með goða sínum þingfararkaup til að taka þátt í kostnaði við þignreiðina.

Þá er Þela getið á miðöldum í sögnum af Brávallabardaga, sem sögð er hafa verið mest orrusta á Norðurlöndum. Frá 11. eða 12. öld eru til tvær endursagnir gamansamrar þulu um orustuna. Önnur þeirra er á latínu í Danasögu Saxa hins málspaka (Saxo grammaticus) frá því um 1200 og hin á íslensku í handritsbroti frá upphafi 14. aldar. Í Brávallaþulu var sagt frá liði beggja konunganna sem eiga að hafa barits einhvern tíma um eða fyrir 600 á Brávölum á Eystrasaltsströnd Austur-Gautlands. Það voru Haraldur hilditönn Danakonungur, sem hafði dregið að sér lið úr Danmörku, sunna af Öngli, frá Fríslandi, Vindlandi og úr Eystrasaltslöndum, og austurgautski konungurinn Sigurður hringur, sem hafði í liði sínu menn úr ýmsum hlutum Svíþjóðar og víðar að, m.a. úr mörgum héruðum í Noregi og frá Íslandi!

Um þá sem komu af Þelamörk hefur Saxi þau orð að þeir hafi verið þeir hraustustu í liðinu, hugaðir vel en lítt haldnir ofmetnaði. Og um einn þeirra, Gretti hinn illa, segir að hann hafi veirð mjög árásargjarn. Í íslensku handriti segir: "Menn voru og komnir til Hrings konungs af Þelamörk, er kappar voru og höfðu minnst yfirlát því að þeir þóttu vera dragmálir (þ.e. seinmæltir) og tómlátir." Rétt á eftir segir: " Þá voru Þilirnir, er allir vildu síst hafa og hugðu litla liðsemd vera. Þeir voru og bogmen miklir." Og í lýsingu bardagans segir frá því að ein mesta hetjan í liði Dana, Ubbi frísneski, sesm búinn var að vega marga menn, sótti að Þilum, og þá segja þeir: "Nú þurfum vér eigi annars staðar í herinum að leita fram, og látum þennan mann sækja örvar um stund ... og svo lítið sem öllum þykir til vor koma gerum við nú því meira um oss og sýnum oss vaska menn." Tveir kappar Þila skutu tveim tylftum örva að Ubba og hann féll.

Þetta voru nokkur sögubrot til gamans sögð, en þau eru hluti okkar sameiginlega menningararfs og róta frá söguöld til nútímans.

Við upphaf Íslandsbyggðar voru tengsl Íslendinga og Norðmanna hluti daglegs lífs. Síðan tóku við aldir þegar fátækt og einangrun og menningarleg stöðnun einkenndi íslenskt samfélag. Þá áttum við það undir öðrum að sjá okkur fyrir skipasamgöngum og þeim aðföngum sem við þörfnuðumst utan að. Nú er hins vegar öldin önnur. Íslendingar sem aðrir eiga þess kost að ferðast um allan heim og eiga samskipti um gervallan hnöttin og er það vel. Hitt er verra að engilsaxnesk menning virðist stundum vera á góðri leið með að bera smá menningarsamfélög ofurliði. Því er mikilvægt að hlúa að norrænni tungu, menningu, samkennd og samstarfi. Það gerum við með margvíslegum hætti bæði innanlands á Norðurlöndum og innan hins formlega norræna samstarfs í Norðurlandaráði og Norrænu ráðherranefndinni, í vinabæjarsamstarfinu og í margvíslegu tvíhliða samstarfi á Norðurlöndum. Og þróunin í Evrópu vinnur að þessu leyti með okkur. Með fjölgun aðildarríkja ESB eykst mikilvægi svæðisbundins samstarfs og skilningur á þörf þess að vernda þjóð
lega menningu og tungu. Norrænt samstarf, sem byggir á gömlum grunni, er þannig ekki ógnun við alþjóðlegt samstarf norrænu ríkjanna heldur gagnleg viðbót og fyrirmynd annarra evrópuríkja. Ekki síst er norrænt samstarf einn af tengiliðum Noregs og Íslands við ESB samstarfið.

Smugudeilan

Enn þann dag í dag kalla Norðmenn og Íslendingar hvorir aðra frændur eða bræður svo náin eru tengslin milli þjóðanna.

En við erum líka keppinautar, aðallega á sviði sjávarútvegs og þegar þannig er háttað er ekki óeðlilegt að upp komi deilur. Sem betur fer eru flestar þeirra ekki langvarandi en þó getur svo farið eins og sannaðist í hinni svokölluðu Smugudeilu.

Deilan hófst sumarið 1993 þegar Íslendingar hófu veiðar á alþjóðlegu hafsvæði í Barentshafi, Smugunni. En veiðar á þessu svæði höfðum við Íslendingar stundað af og til allt frá árinu 1930. Þegar íslensk skip hófu veiðarnar sumarið '93 sætti það harðorðum mótmælum frá Norðmönnum sem héldu því fram að slíkar veiðar væru óheimilar útlendingum vegna þess að þar væru veiddir flökkustofnar. Við héldum því hins vegar fram að skv. alþjóðarétti væru veiðar utan lögsögu ríkja á úthafinu heimilar og öllum frjálsar, þó sú lagaskylda hvíli á þeim sem stunda veiðar á slíkum svæðum að gæta þess að ekki væri stunduð ofveiði eða rányrkja. Deilurnar snérust að miklu leiti um túlkun á hinum svonefnda Svalbarðasamningi frá árinu 1920 og um verndun flökkustofna á svæðinu þ.e. fiskistofna sem ganga út úr norskri og rússneskri lögsögu í fæðuleit.

Þrátt fyrir mikinn og einlægan vilja stjórnmálamanna beggja þjóða til að ná samningum í Smugudeilunni, þar sem vissulega báðir samningsaðilar voru nokkuð fastir fyrir, tók það þjóðirnar sex ár að ná samkomulagi sín á milli og við Rússa, sem einnig eiga hagsmuna að gæta í Barentshafinu. Jafnvel þó að ekki væru allir á eitt sáttir um samninginn var hann öllum aðilum mikið fagnaðarefni. Langvinnum deilum frændþjóðanna var lokið.


Snjóflóðin á Vestfjörðum 1995

Á árinu 1995 þegar Smugudeilan stóð sem hæst urðum við Íslendingar fyrir skelfilegum áföllum, tvö snjóflóð hrifu á innan við ári með sér tvö byggðarlög. Íslenska þjóðin var sem lömuð af harmi. Deilurnar komu þó ekki í veg fyrir stuðning okkar gömlu frændþjóðar. Í Noregi var fjölmenni við minningarguðsþjónustu í Osló og stöðugur straumur fólks var í íslenska sendiráðið til að skrá nöfn sín í bók til að votta Íslendingum samúð sína. Atburðir sem þessir komu við Norðmenn og þar ríkti skilningur og samúð, enda falla í Noregi fjölmörg snjóflóð á ári sem kostað hafa mörg mannslíf.

Dagblöð í Noregi fjölluðu ítarlega um atburðina og sendu fjölmiðlar blaðamenn sína til landsins. Orð blaðamannsins Arve Bartnes sem kom til Íslands lýsa kannski atburðum þessum best: "Norðmenn líta á Íslendinga sem bræðraþjóð, sem stendur okkur jafn nærri og Svíar og Danir. Smugudeilan hefur vissulega verið erfið en hún hefur ekki náð að breyta þessu viðhorfi. Þjóðirnar eru nátengdar, Noregi eru margir Íslendingar, hartnær 4000, og fjölmargir Norðmenn búa á Íslandi, eða ríflega 300.

Norðmenn buðu einnig strax fram aðstoð sína við þá sérfræðivinnu sem ljóst var að hefja þyrfti. Og tillögur Norðmanna um snjóflóðarannsóknir sýndu í verki þá samúð og samhug sem ríkti meðal þjóðanna. Verkefninu var hrundið í framkvæmd sama ár en það voru Norges Geotekniske Institutt og Veðurstofa Íslands sem stóðu að rannsóknarverkefninu. Þessari samhygð Norðmanna gleymum við seint og fyrir hana erum við ævarandi þakklát.

Eldgosið í Eyjum

22 árum fyrr, aðfararnótt 23. janúar árið 1973 braust út mikið eldgos í Vestmanneyjum. Á fáeinum klukkustundum logaði gossprunga þvert eftir Heimaey og hótaði heilu byggðarlagi. Í eyjunum voru á sjötta þúsund manns enda upphaf vertíðar og margt aðkomufólk. Flytja varð alla íbúa bæjarins burtu og ótrúleg forsjón var að allur floti bæjarins var í höfn. En þrátt fyrir að ekki hafi orðið manntjón urðu rúmlega 5000 manns heimilislausir og eignatjón varð gífurlegt. Einnig þá sýndu Norðmenn okkur samhug sinn í verki. Einungis fjórum dögum eftir að gosið hófst stjórnaði söngvarinn og sjónvarpsmaðurinn Erik Bye dagskrá í norska sjónvarpinu. Dagskráin stóð allt kvöldið og margir listamenn komu fram, íslenskir og norskir. Er skemmst frá því að segja að 80 milljónir íslenskra króna söfnuðust til aðstoðar Vestmannaeyingum, en það samsvarar tæplega 23 milljónum (22,7) norskra króna á núvirði. En Norðmenn létu ekki þar við sitja heldur bauð Rauði kross Noregs ásamt fleiri aðilum börnum frá Vestmannaeyjum til Noregsferðar sumarið 1973. Rúmlega 900 börn á aldrinum 8-15 ára þáðu boðið og héldu utan í smáhópum og dvaldist hver hópur í tvær vikur ýmist í sumarbúðum eða á einkaheimilum. Þeir sem þessa nutu hugsa ætið með einstökum hlýhug til Noregs.
Af ofansögðu má ljóst vera að þjóðirnar hafa staðið saman gegnum súrt og sætt.

Staða Íslands og Noregs á Alþjóðavettvangi

Heimsstyrjöldin síðari skildi Evrópu eftir í sárum og Norðmenn fóru sannarlega ekki varhluta af þeim hörmungum. Ísland hafði á meðan á stríðinu stóð slitið konungssamndi við Danmörku og orðið lýðveldi. Fyrir dyrum stóð að móta utanríkisstefnu sem tryggt gæti að aldrei framar myndu slíkir atburðir verða sem ógnað gætu heimsfriðinum. Þegar tilraunir norrænu ríkjanna til að koma á varnarsamstarfi sín á milli mistókust var það því ekki erfið ákvörðun fyrir Ísland og Noreg að ákveða að fylla hóp stofnríkja NATO árið 1949. Fyrir bæði ríkin var og er aðild að NATO mjög mikilvæg vegna landfræðilegrar legu þeirra, Íslands miðja vegu milli meginlands Evrópu og Ameríku og Noregs með landamæri að Rússlandi.

Við Íslendingar og Norðmenn, sem byggjum ásamt Bretum vestlægustu svæði Evrópu skiljum oft betur en aðrar Evrópuþjóðir mikilvægi atlantshafstengslanna fyrir Evrópu. Nú þegar öryggis- og varnarmálastefna ESB hefur verið að mótast hafa heyrst áhyggjuraddir um að sú uppbygging leiði til að Atlantshafstengslin kunni að veikjast. Bæði Íslendingar og Norðmenn styðja þróun evrópsku öryggis- og varnarmálastefnunnar en það gerum við að því gefnu og í því trausti að hún veiki ekki slagkraft og þýðingu Atlantshafsbandalagsins og að við höfum viðunandi aðild að ákvarðanatökuferlinu varðandi aðgerðir á sviði varnarmála innan ESB.

En það er ekki bara með tilliti til NATO sem staða okkar Íslendinga og Norðmanna er lík, því báðar þjóðirnar standa líka utan ESB en eru þess í stað aðilar að EES meðan hin norrænu ríkin völdu ESB aðild. Aðdragandi ákvörðunar umþá afstöðu var þó vissulega ólíkur, því Ísland hefur hvorki sótt um aðild að ESB né lagt spurninguna um aðild undir þjóðaratkvæði um aðdragandann í Noregi þarf ég ekki að fjölyrða hér. Hvað síðar kann að verða á Íslandi get ég á þessari stundu ekki spáð um. Víst er þó að gerist Noregur aðili að ESB mun það vekja upp alvarlegar umræður á Íslandi og trúlega hafa þau áhrif að áhugi á aðild mun aukast til muna. Svo samofin eru örlög þjóðanna í þessu sem og annars staðar á alþjóðavettvangi.

Schengen samningurinn, sem gekk í gildi um öll Norðurlönd fyrr á þessu ári, er annað dæmi um hliðstæða stöðu Íslands og Noregs. Þar hafa bæði löndin náð viðunandi lausn sem hefur í för með sér fulla aðild að samningnum og ákvarðanatökuferlinu um framkvæmd hans. Í því máli sýndu norrænu ESB löndin okkur fullan stuðning og ég þori að fullyrða að sú hagfellda lausn sem náðist varð til vegna hans.

Lokaorð

Ég hef hér, kæru vinir, stiklað á stóru í samskiptum Íslands og Noregs frá landnámi Íslands og fram á þennan dag. Séu þessi atriði skoðuð í víðara samhengi sést að bæði vandamálin og lausnirnar eru börn síns tíma og umhverfis, og þannig verður það líka í framtíðinni. Við munum saman þurfa að takast á við ný vandamál á ýmsum sviðum. Umhverfismál verða í brennidepli á næstu áratugum. Eðli þess málaflokks er þannig að alþjóðlegt samstarf er forsenda árangus. Aldurssamsetning þjóðanna er að breytast þannig að öldruðum fjölgar. Það leiðir af sér margvísleg vandamál sem þarf að leysa. Þörfin á mannafla utan að mun aukast. Við þurfum að sjá til þess að vel verði tekið á móti innflytjendum annars staðar að og þeim gefinn kostur á fullri aðild að því sem þjóðfélagið hefur uppá að bjóða. Þannig mætti lengi telja. Við munum við leita lausna þessara og annara mála í samstarfi og samráði og samstarf okkar mun breytast og taka mið af nýjum tíma og breyttu umhverfi. Vinátta okkar og bræðraþel mun þó ekki breytast, því svo djúpar eru þær rætur sem tengja Norðmenn og Íslendinga

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum