Hoppa yfir valmynd
22. október 2019 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Styrkjum úthlutað til uppsetningar hleðslustöðva við gististaði um land allt

  - myndJohannes Jansson/norden.org

Orkusjóður hefur úthlutað styrkjum til uppsetningar hleðslustöðva við gististaði um land allt þar sem hægt verður að hlaða ríflega 110 rafbíla á hverjum tíma. Verkefnið er hluti af aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum og uppbyggingu innviða vegna orkuskipta í samgöngum.

Þrír ráðherrar ríkisstjórnarinnar kynntu í sumar markvissa uppbyggingu innviða vegna orkuskipta í samgöngum. Sama dag var auglýst eftir fjárfestingarstyrkjum til uppbyggingar hleðslustöðva fyrir rafbíla við gististaði. Var Orkusjóði falið að sjá um úthlutun styrkjanna. Alls verða veittir 26 styrkir til að setja upp 112 hleðslupunkta vítt og breitt um landið. Heildarfjárhæð styrkjanna nemur ríflega 30 milljónum króna. Gert er ráð fyrir að minnsta kosti helmings mótframlagi umsækjenda og nemur heildarfjárfesting verkefnanna því 60 milljónum króna hið minnsta.

Áhrif innkaupa bílaleiga á samsetningu bílaflotans eru veruleg þar sem bílaleigubílar eru tæpur helmingur allra nýskráðra bifreiða á Íslandi. Styrkveitingarnar eru liður í að fjölga hleðslumöguleikum við gististaði til að hvetja til og liðka fyrir orkuskiptum hjá bílaleigum hér á landi.

Á næstunni verður enn fremur úthlutað fjárfestingarstyrkjum til uppbyggingar á hraðhleðslustöðvum fyrir rafbíla, en þeir styrkir voru einnig auglýstir í sumar. Fjöldi umsókna barst og ráðgjafanefnd Orkusjóðs vinnur nú að því að fara yfir þær. Þeim styrkjum er ætlað að styrkja uppbyggingu hraðhleðslustöðva á lykilstöðum og tryggja þannig hindrunarlausar ferðir rafbíla milli landshluta, enda fjölgar rafbílum hratt hér á landi. Ísland er nú í öðru sæti í heiminum á eftir Noregi hvað varðar hlutfall rafbíla af fjölda nýskráðra bifreiða.

Ofangreindir styrkir byggja á tillögum starfshóps sem ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og umhverfis- og auðlindaráðherra skipuðu í byrjun árs og var falið að móta tillögur um aðgerðir til að hraða orkuskiptum hér á landi, í samræmi við aðgerðaáætlanir um orkuskipti og loftslagsmál.

 



 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum