Hoppa yfir valmynd
28. mars 2019 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 147/2019 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 28. mars 2019 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 147/2019

í stjórnsýslumáli nr. KNU19020036

 

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 12. febrúar 2019 kærði […], fd. […] ríkisborgari Georgíu (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 11. febrúar 2019, um að synja honum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.

Af kæru kæranda má ætla að hann krefjist þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að honum verði veitt alþjóðlega vernd hér á landi með vísan til 1. og 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga eða dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. 

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.         Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi þann 16. janúar 2019. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun þann 21. janúar 2019 ásamt talsmanni sínum en kærandi afþakkaði aðstoð talsmanns og kvaðst vilja koma fram fyrir sína eigin hönd. Með ákvörðun, dags. 11. febrúar 2019, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var ofangreind ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála þann 12. febrúar 2019. Þá barst tölvupóstur frá kæranda þann 19. febrúar 2019. 

III.        Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hann sé í hættu í heimaríki þar sem hann hafi verið beittur hótunum og ofbeldi af hálfu yfirvalda til að greiða atkvæði í nýafstöðnum forsetakosningum þar í landi.

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi sé ekki flóttamaður og honum skuli synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.

Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

IV.        Málsástæður og rök kæranda

Kærandi hefur afþakkað réttaraðstöð, sbr. 30. gr. laga útlendinga við meðferð máls síns hjá Útlendingastofnun og kærunefnd. Kærandi sendi yfirlýsingu með tölvupóst þann 19. febrúar þar sem kom m.a. fram að kærandi hafi neitað að taka þátt í kosningasvindli í Georgíu. 

V.         Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að til að sanna á sér deili hafi kærandi framvísað georgísku vegabréfi. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi sé georgískur ríkisborgari.

Landaupplýsingar

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í Georgíu m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:

·         Freedom in the World 2019 - Georgía (Freedom House, 4. febrúar 2019);

·         World Report 2019 - Georgia (Human Rights Watch, 17. janúar 2019);

·         Amnesty International Report 2017/2018: Georgia (Amnesty International, 22. febrúar 2018);

·         Council of Europe - Action Plan for Georgia 2016 - 2019 (Council of Europe, 25. febrúar 2016);

·         Georgia - Country Reports on Human Rights Practices for 2018 (U.S. Department of State, 13. mars 2019);

·         Georgia 2017 Crime and Safety Report (OSAC, mars 2017);

·         Georgia: Korrupsjon i politi og rettsvesen (Landinfo, 9. mars 2017);

·         Georgia: The Human Rights Education and Monitoring Center (EMC), including office location and source of funding; relationship with the government, including treatment of its members by the police and other authorities (Canada: Immigration and Refugee Board of Canada, 30. júní 2015);

·         National Strategy for the Protection of Human Rights in Georgia 2014-2020 (Ministry of Internal Affairs in Georgia, 17. september 2015);

·         Nations in Transit 2017- Georgia (Freedom House, 9. maí 2017);

·         Georgia – Presidential Election 28 October and 28 November 2018 – ODIHR Election Observation Mission Final Report (OSCE - Office for Democratic Institutions and Human Rights, 28. febrúar 2019);

·         Report on Progress in the Implementation of the National Strategy for the Protection of Human Rights in Georgia 2014-2020 (United States Agency for International Development (USAID), mars 2017);

  • Temarapport: Georgien - Politisk motiverade reprassalier och våld mot oppositionella (Lifos, 30. maí 2017);
  • Temarapport: Georgien – Rätts- och säkerhetssektorn (Lifos, 3. október 2017);
  • Annual Report of The Public Defender of Georgia, The situation of Human Rights and Freedoms in Georgia (Public Defender (Ombudsman) of Georgia, maí 2018);
  • Freedom in the World 2018 – Abkhazia (Freedom House, 5. október 2018);
  • 10 December Report on the situation of Protection of Human Rights and Freedoms in Georgia 2016 (Public Defender of Georgia, 2016) og

·         Georgia Country Report (Bartelsmann Stiftung (BTI), 2018)

Georgía er lýðræðisríki með um 3,7 milljónir íbúa. Georgía gerðist aðili að Evrópuráðinu árið 1999 og fullgilti mannréttindasáttmála Evrópu það sama ár. Georgía gerðist aðili að flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna þann 9. ágúst 1999, alþjóðasamningi um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi þann 3. ágúst 1994 og samningi Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu þann 8. júlí 2005. Þann 1. júlí 2016 gekk í gildi samstarfssamningur milli Evrópusambandsins og Georgíu. Með þeim samningi hefur Georgía meðal annars skuldbundið sig til að efna víðtækar skuldbindingar á sviði lýðræðis, mannréttinda og réttarríkis. Þann 19. júlí 2017 setti Útlendingastofnun Georgíu á lista stofnunarinnar yfir örugg upprunaríki.

Í ofangreindum gögnum kemur fram að stjórnarskrá Georgíu kveði á um jafnrétti allra fyrir lögunum og mismunun á grundvelli kynþáttar, litarháttar, tungumáls, kyns, trúar- og lífsskoðana, stjórnmálaskoðana, þjóðernis, félagslegrar stöðu eða tengsla, uppruna, búsetu eða efnahagslegrar stöðu sé refsiverð skv. refsilöggjöf landsins. Þá sjái tvær stofnanir aðallega um löggæslu og að halda uppi allsherjarreglu í Georgíu, þ.e. innanríkisráðuneytið og öryggissveitir ríkisins. Samkvæmt skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins fyrir árið 2017 hafi stjórnvöld skilvirka stjórn á innanríkisráðuneytinu, öryggissveitum ríkisins, varnarmálaráðuneytinu og þeim stofnunum sem hafi vald til að rannsaka og refsa fyrir misnotkun og spillingu. Í skýrslunni kemur jafnframt fram að engar tilkynningar hafi borist um refsileysi í málum er varði aðila sem fara með löggæslu á árinu en þó hafi Umboðsmanni (e. Public Defender´s Office) borist nokkrar kvartanir varðandi óhóflega beitingu valds af hálfu lögregluþjóna.

Þá komi fram í framangreindum gögnum að spilling sé þó nokkur í georgíska stjórnkerfinu. Yfirvöld hafi hins vegar gripið til ýmissa aðgerða til að sporna við spillingu og hafi miklar framfarir átt sér stað á undanförnum árum. Stjórnvöldum beri að taka allar tilkynningar um misferli lögreglu til skoðunar og aðili sem telji að brotið sé á réttindum sínum geti kært til æðra stjórnvalds eða farið með mál sitt fyrir dómstóla. Í skýrslu utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna frá mars 2019 kemur jafnframt fram að saksóknarembætti þar í landi (e. Chief Prosecutor´s Office) hafi á árinu 2017 hafið rannsókn í 127 málum er varði misnotkun á valdi opinberra starfsmanna og af þeim málum hafi 17 einstaklingar sætt ákæru, þ. á m. þrír lögregluþjónar.

Í gögnunum kemur fram að Umboðsmaður hafi verið starfandi í Georgíu frá árinu 1997. Umboðsmaðurinn hafi eftirlit með mannréttindum og frelsi borgaranna í Georgíu innan lögsögu ríkisins. Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. stjórnarskrár Georgíu gangi alþjóðasamningar, sem fullgiltir hafi verið af hálfu Georgíu, framar landslögum. Svo framarlega sem slíkir samningar gangi ekki gegn stjórnarskrá landsins sé hægt að beita þeim sem hluta af almennri löggjöf. Þá hafi mannréttindadeild saksóknaraembættisins eftirlit með ákærum og fylgist með því að alþjóðlegum stöðlum mannréttinda sé fylgt í þeim málum. Samkvæmt skýrslu Umboðsmanns um stöðu mannréttinda fyrir árið 2017 hafi Umboðsmaður tilkynnt saksóknaraembættinu um 72 mál vegna meintra pyntinga og illrar meðferðar á árunum 2013-17 til rannsóknar. Þær rannsóknir hafi þó ekki leitt til neinna ákæra. Þá kemur fram að þann 30. apríl 2014 hafi áætlun um vernd mannréttinda í Georgíu fyrir árin 2014 til 2020 verið samþykkt. Sú áætlun gefi til kynna að stjórnvöld séu reiðubúin til þess að fylgja hæstu stöðlum alþjóðasamfélagsins varðandi mannréttindi. Þrátt fyrir að áætluninni hafi ekki verið komið í framkvæmd að fullu veiti hún möguleika fyrir samfélagið að efla eftirlit með mannréttindum í landinu. Þá kemur fram í skýrslu öryggis og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE) að forsetakosningar í landinu sem fram hafi farið í tveimur umferðum í október og nóvember árið 2018 hafi verið vel skipulagðar og þar hafi ríkt mikil samkeppni á milli frambjóðenda. Frambjóðendur hafi getað stundað kosningabaráttu sína óhindrað en þó hafi komið upp tilfelli þar sem að opinbert fé hafi verið nýtt til stuðnings frambjóðanda stjórnarflokksins. Fjölmiðlaumfjöllun hafi ekki verið hlutlaus og kjósendur hafi þar af leiðandi ekki fengið fullnægjandi upplýsingar um frambjóðendur til þess að geta tekið upplýsta ákvörðun. Einnig hafi verið uppi ásakanir á milli frambjóðenda um kaup á atkvæðum og ógnandi hegðun gagnvart kjósendum.

Í ofangreindum gögnum kemur fram að ýmis togstreita, spenna og átök hafi ríkt milli Georgíu og Rússlands og svæða sem nefnast Suður-Ossetía og Abkhazía. Abkhazía sé u.þ.b. 8600 ferkílómetrar að stærð og staðsett í vesturhluta Georgíu og liggi svæðið m.a. að Svartahafinu. Í gögnunum kemur fram að árið 1992 hafi Suður-Ossetía lýst yfir sjálfstæði gagnvart Georgíu og hafi Abkhazía gert slíkt hið sama árið 1999, en örfá ríki hafi viðurkennt sjálfstæði Abkhazíu og Suður-Ossetíu. Opinber landamæri og lögsaga Georgíu nái yfir bæði Abkhazíu og Suður-Ossetíu.

Í framangreindum gögnum er m.a. fjallað um stöðu þeirra sem flúið hafa frá Abkhazíu og Suður-Ossetíu til Georgíu. Átökin milli Suður-Ossetíu, Abkhazíu, Rússlands og Georgíu á árunum 1992 til 1993 og árið 2008 hafi leitt til þess að fjölmargir hafi flúið til annarra héraða í Georgíu. Hafi mörgum þeirra síðan verið meinað að snúa tilbaka til síns heima. Þá kemur fram að þeir sem hafi flúið frá sjálfsstjórnarhéruðum Abkhazíu og Suður-Ossetíu hafi möguleika á að setjast að annars staðar í Georgíu. Þá veiti georgísk stjórnvöld þeim sem þurfi á að halda nauðsynlega aðstoð í formi fjárhagsaðstoðar auk þess að tryggja að þeir geti fengið heilbrigðisþjónustu, húsnæði auk starfsþjálfunar og menntunar. Ekki verður séð af framangreindum gögnum að einstaklingar af abkhazískum uppruna verði almennt fyrir ofsóknum eða ofbeldi sem byggist á uppruna þeirra. Þvert á móti sé talið að einstaklingar af abkhazískum uppruna hafi almennt aðlagast vel georgísku samfélagi.

Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.

Í 38. gr. útlendingalaga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.

Í 4. mgr. 38. gr. kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:

a.   ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,

c.   aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Orðasambandið „ástæðuríkur ótti við við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á að hann hafi þegar orðið fyrir ofsóknum í heimaríki, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við slíkar ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis nema talið verði að miklar líkur séu á því að slíkar ofsóknir yrðu ekki endurteknar, t.d. þar sem aðstæður í heimaríki hans hafi breyst. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki, verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra.

Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kæranda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2011). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).

Kærandi byggir kröfu sína um vernd á því að hann hafi verið beittur ofbeldi og hótunum af hálfu einstaklinga tengdum yfirvöldum í Georgíu til þess að greiða atkvæði undir mismunandi auðkennum í nýafstöðnum forsetakosningum þar í landi. Hafi hann sætt barsmíðum af hálfu lögreglumanna þegar hann hafi neitað að fara að fyrirmælum þessara manna. Þá kvaðst kærandi vera hluti af minnihlutahópi í heimaríki þar sem að faðir hans sé frá Abkasíu og að hann verði fyrir áreiti sökum þess. Kærandi hefur lagt fram hljóðupptöku máli sínu til stuðnings og yfirlýsingu með tölvupósti dags. 19. febrúar 2019.

Að mati kærunefndar var frásögn kæranda í viðtali hjá Útlendingastofnun af ofangreindum hótunum og tengslum þeirra manna sem hann nafngreinir við þær afar óskýr og ónákvæm einkum hvað varðar þá aðila sem kærandi kveður hafa hótað sér og beitt hann ofbeldi. Í fyrsta viðtali hjá Útlendingastofnun neitaði hann að nefna nokkur nöfn en í síðara viðtali nafngreindi kærandi tvo aðila sem starfa fyrir stjórnvöld í Georgíu. Frásögn kæranda var þó fremur ónákvæm um aðkomu þessara aðila að þeirri atburðarás sem kæranda hafði lýst. Þá er ógerningur að ráða hvaða einstaklingar um sé að ræða sem ræði saman á hljóðupptökunni eða frá hverjum yfirlýsingin sem kærandi lagði fram við meðferð málsins stafi og verða þau gögn því ekki talin styðja við frásögn kæranda. Í ljósi frásagnar kæranda, gagna sem kærunefnd hefur kynnt sér um aðstæður í Georgíu sem benda eindregið til þess að pólitískar ofsóknir viðgangist almennt ekki í landinu í skjóli refsileysis eða að einstaklingar þar séu settir í fangelsi án dóms og laga og þess að kærandi hefur ekki lagt fram frekari gögn til stuðnings málsástæðu sinni verður ekki lagt til grundvallar að kærandi hafi sætt ofsóknum eða að hann hafi ástæðu til að óttast ofsóknir sem hafa eða gætu náð því alvarleikastigi sem 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga mælir fyrir um.

Kærandi hefur einnig byggt á því að hann verði fyrir mismunun sökum uppruna síns en samkvæmt þeim gögnum og skýrslum sem kærunefnd hefur farið yfir bendir hins vegar ekkert til þess að einstaklingar af því þjóðarbroti sem kærandi kveðst tilheyra verði fyrir ofsóknum eða mismunun af þeirri ástæðu að þeir tilheyri þjóðarbrotinu. Verður því ekki talið að kærandi eigi hættu á ofsóknum af þeim ástæðum sem 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga vísar til, sbr. 3. mgr. 38. gr. laga um útlendinga.

Með vísan til ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki með rökstuddum hætti leitt líkur að því að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. og 3. mgr. 38. gr. laganna.

Telur kærunefnd því ljóst að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.

Í ljósi þess sem að framan er rakið og þeirra gagna sem liggja fyrir um heimaríki kæranda telur kærunefndin að aðstæður hans þar séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laganna. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi uppfylli heldur ekki skilyrði 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga

Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga á kærandi ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga.

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi sem staddur er hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, þrátt fyrir að skilyrði 37. gr. séu ekki uppfyllt, ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærunefnd telur, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.

Þá hefur ekki annað komið fram við meðferð máls kæranda en að hann sé við góða andlega og líkamlega heilsu. Þegar upplýsingar um heimaríki kæranda og gögn málsins eru virt í heild er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á aðstæður sem ná því alvarleikastigi að hann teljist hafa ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Því er fallist á það með Útlendingastofnun að aðstæður kæranda í heimaríki séu ekki með þeim hætti að veita beri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Bann við endursendingu skv. 42. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er ekki heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er einnig óheimilt að senda útlending til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Með vísan til umfjöllunar að framan um heimaríki kæranda telur kærunefnd að þær aðstæður sem ákvæðið tekur til ekki eiga við í máli kæranda. Kærunefnd telur því að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir endursendingu kæranda þangað.

Frávísun og frestur til að yfirgefa landið

Kærandi kom hingað til lands þann 16. Janúar 2019 og sótti um alþjóðlega vernd þann sama dag. Eins og að framan greinir hefur umsókn hans um vernd og dvalarleyfi hér á landi verið synjað og hefur hann því ekki tilskilin leyfi til dvalar enda verður að líta á umsókn hans um alþjóðlega vernd sem áform um að dveljast í landinu meira en 90 daga, sbr. til hliðsjónar 3. mgr. 42. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017. Verður kæranda því vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. og 5. mgr. 106. laganna, enda hafði hann verið hér á landi í innan við níu mánuði þegar málsmeðferð umsóknar hans hófst hjá Útlendingastofnun. 

Kærandi er við ágæta heilsu og kemur frá öruggu upprunaríki. Að mati kærunefndar og með vísan til 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga teljast 7 dagar hæfilegur frestur til að yfirgefa landið. 

Athygli kæranda er vakin á því að ef hann yfirgefur ekki landið innan frests er heimilt að brottvísa honum. Brottvísun felur í sér bann við komu til landsins síðar og skal endurkomubann að jafnaði ekki gilda skemur en tvö ár, sbr. a-lið 2. mgr. 98. gr. og 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinnar kærðu ákvörðunar þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum eftir birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

 

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest. Lagt er fyrir kæranda að hverfa af landi brott. Kæranda er veittur 7 daga frestur til að yfirgefa landið sjálfviljugur

 

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed. The appellant is requested to leave the country. The appellant has 7 days to leave the country voluntarily.

 

 

 

 

Hjörtur Bragi Sverrisson

 

 

 

Erna Kristín Blöndal                                                                                       Ívar Örn Ívarsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum