Hoppa yfir valmynd
10. mars 2023

Íslensk nýsköpun í indverska efnahagsvextinum: Kynning í Nýju-Delhí

Hagstætt viðskiptaumhverfi á Indlandi og íslenskt hugvit var meginviðfangsefnið á málstofu fyrir íslensk nýsköpunarfyrirtæki, sem haldin var af sendiráði Íslands í Nýju-Delhi, Invest India  og Íslensk-indversku viðskiptasamtökunum (IIBA) 7. mars 2023.

Martin Eyjólfsson ráðuneytisstjóri sagði m. a. í ávarpi sínu, að fyrirtækjum væri nauðsynlegt að geta starfað í eðlilegu markaðshagkerfi og réttarkerfi, þar sem fyrirtæki gætu skotið ágreiningi til sjálfstæðra dómsstóla. Indland, fjölmennasta lýðræðisríki í heimi, væri framtíðarvettvangur fyrir íslensk nýsköpunarfyrirtæki, og Ísland hefði mikið fram að færa með sérþekkingu í jarðvarma og á fleiri sviðum.

Varaforseti Invest India, Varda Taneja, lýsti viðskiptaumhverfinu á Indlandi, miklum hagvexti og fjárfestingum og taldi mikla samstarfsmöguleika með Íslandi. Invest India, sem er viðskiptaþjónusta á vegum viðskiptaráðuneytisins, kynnti einnig starf sitt að orkumálum og sjávarútvegi.  

Um 50 manns tóku þátt í málstofunni, þ. á m. fulltrúar frá fyrirtækjunum Marel India, Kerecis, Carbon Recycling International, GEG Power jarðvarmafyrirtækið og Össur India, sem kynntu starfsemi sína.

Á meðal þátttakenda voru fulltrúar frá ríkisorkufyrirtækjunum ONGC og India Oil, ráðuneytum endurnýjanlegrar orku, olíu og jarðgass og sjávarútvegs, matvælaeftirlits sjávarútvegsins  (MPEDA) og sjúkrahúsa og fyrirtækja í heilsugæslu og sjávarútvegi.
  • Íslensk nýsköpun í indverska efnahagsvextinum: Kynning í Nýju-Delhí - mynd úr myndasafni númer 1

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum