Hoppa yfir valmynd
9. júní 2020 Forsætisráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið, Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Ungmennaráð heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna fundar með ráðherrum

Ungmennaráð heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna fundaði með Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra, Svandísi Svavarsdóttur, heilbrigðisráðherra, Ásmundi Einari Daðasyni, félags- og barnamálaráðherra og Páli Magnússyni, ráðuneytisstjóra mennta- menningarmálaráðuneytis í dag. Á fjarfundinum kom ráðið á framfæri áherslum sínum er varða málefni barna og ungmenna í anda heimsmarkmiðanna og með hliðsjón af áhrifum Covid-19 faraldursins. Meðal þess sem rætt var um voru viðkvæmir hópar í skólakerfinu, aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu og óhefðbundnir kennsluhættir. Þá var lögð áhersla á mikilvægi snemmtækrar íhlutunar og þjónustu fyrir börn af erlendum uppruna og börn með fatlanir. Einnig var undirstrikað mikilvægi samráðs við börn og ungmenni.

Ráðherrar lýstu yfir ánægju sinni með fundinn og töldu hann mikilvægan til að efla samráð við ungmenni. Mikilvægt væri að heyra beint frá börnum og ungmennum um málefni sem þau varða.

Meginmarkmið ungmennaráðsins er að vekja athygli á heimsmarkmiðunum og sjálfbærri þróun hérlendis. Ungmennaráðinu er ætlað að vera lifandi vettvangur þar sem heimsmarkmiðin og Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna eru höfð að leiðarljósi og rædd með gagnrýnum og lausnamiðuðum hætti. Hlutverk ráðsins er að fræðast og fjalla um markmiðin og sjálfbæra þróun ásamt því að koma áherslumálum sínum á framfæri. Þá veitir ungmennaráðið jafnframt stjórnvöldum í gegnum verkefnastjórn heimsmarkmiðanna ráðgjöf við innleiðingu markmiðanna og fundar árlega með ríkisstjórn.

Hægt er að fylgjast með störfum ungmennaráðsins á Facebook síðu þess og nálgast nánari upplýsingar um heimsmarkmiðin á heimsmarkmidin.is.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

17. Samvinna um markmiðin
3. Heilsa og vellíðan

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum