Hoppa yfir valmynd
9. nóvember 2022 Utanríkisráðuneytið

Sima Bahous framkvæmdastýra UN Women heiðursgestur viðburðar í HÍ

Sima Bahous framkvæmdastýra UN Women - mynd

Landsnefnd UN Women á Íslandi stendur á morgun, fimmtudaginn 10. nóvember, fyrir viðburðinum „Moving Forward: Partnership for an Equal World“, sem fram fer í hátíðasal Háskóla Íslands og hefst klukkan 10:00.

Sima Bahous, framkvæmdastýra UN Women, verður heiðursgestur viðburðarins. Hún ræðir meðal annars mikilvægt samstarf UN Women við Ísland í erindi sínu, en stofnunin á í nánu samstarfi við íslensk stjórnvöld og ríkislögreglu um jafnréttismál, að því er fram kemur í frétt frá UN Women. Þá er stuðningur Íslendinga við verkefni stofnunarinnar eftirtektarverður, en íslenska landsnefndin hefur sent hæsta framlag allra landsnefnda til verkefna UN Women á heimsvísu sjö ár í röð, óháð höfðatölu. Bahous fjallar jafnframt um stöðu jafnréttismála í heiminum í dag og helstu áskoranir sem blasa við UN Women í framtíðinni.

Eliza Reid, forsetafrú, setur viðburðinn og eftir erindi Bahous fara fram pallborðsumræður um stöðu jafnréttis og mikilvægi samvinnu til að sporna gegn því bakslagi sem orðið hefur í jafnréttismálum á síðastliðnum árum.

Þátttakendur í pallborði eru Birna Einarsdóttir bankastjóri Íslandsbanka, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir fyrrverandi ráðherra, Andrés Ingi Jónsson þingmaður, Tatjana Latinovic, formaður kvenréttindafélags Íslands, Askur Hannesson meðlimur Ungmennaráðs UN Women á Íslandi, og Steinunn Gestsdóttir aðstoðarrektor Háskóla Íslands. Umræðustjóri er Þorsteinn Víglundsson, fyrrverandi ráðherra.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

5. Jafnrétti kynjanna

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum