Hoppa yfir valmynd
4. mars 2022 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ráðist í aðgerðir til að koma í veg fyrir olíumengun frá El Grillo

Seyðisfjarðarkirkja - myndHugi Ólafsson

Ráðast á í tvær beinar aðgerðir á næstunni til að koma í veg fyrir olíumengun frá flaki flutningaskipsins El Grillo og verða þær fjármagnaðar af umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu. Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra kynnti aðgerðirnar í ríkisstjórn í morgun.

Olíumengun frá flaki flutningaskipsins El Grillo í botni Seyðisfjarðar hefur verið viðvarandi vandamál undanfarin sumur, þrátt fyrir umfangsmiklar hreinsunaraðgerðir árið 2001. Eftir mengunarviðburð sl. sumar setti ráðuneytið á fót vinnuhóp, með þátttöku Umhverfisstofnunar, Landhelgisgæslunnar og Múlaþings, auk ráðuneytisins, um mótun tillagna til að bregðast við líklegri áframhaldandi mengun frá flakinu.

Í kjölfar þeirra vinnu hefur verið ákveðið að kaupa flotkvíar til að fanga olíubrák frá El Grillo ef olía berst áfram upp á yfirborðið. Munu hafnaryfirvöld á Seyðisfirði hafa umsjón með uppsetningu á búnaðinum. Einnig verður ráðist, nú í vor þegar aðstæður eru hvað bestar, í framkvæmdir við að steypa fyrir sprungur á tveimur tönkum skipsins og stöðva með því frekari olíuleka. Landhelgisgæslan mun hafa umsjón með þeim aðgerðum. Farið var í slíkar aðgerðir árið 2020, sem tókst vel en síðar komu upp lekar á nýjum stöðum. Vonir standa til að tekist hafi að finna alla helstu staði þar sem veikleikar eru, þannig að viðgerðirnar haldi um nokkurn tíma.

Samhliða þessum aðgerðum verður farið í viðræður við erlenda sérfræðinga um mögulega langtímalausn til að koma í eitt skipti fyrir öll í veg fyrir mengun frá El Grillo. Ljóst er að þar er um flókið verkefni að ræða, þar sem aðstæður við flakið eru erfiðar; meðal annars eru skotfæri nálægt tönkunum sem geta skapað hættu við aðgerðir.

„Ég vonast til að þessar aðgerðir komi í veg fyrir olíumengun á næstu árum frá El Grillo og dragi úr tjóni ef olía leitar upp þrátt fyrir viðgerðir,“ sagði Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra. „Við munum jafnframt leita leiða til að tryggja framtíðarlausn, þannig að engin hætta sé á leka. Það hefur verið gott samstarf við heimamenn og aðra í þessu máli og ég veit að það mun haldast áfram.“

Kostnaður við aðgerðirnar og kaup á flotkvíunum nemur um 50 milljónum króna.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum