Hoppa yfir valmynd
31. maí 2019 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið, Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Undirritun samnings um samstarf á sviði sjálfbærni, orku, nýsköpunar og loftslagsmála

Viðar Helgason hjá Íslenska Orkuklasanum, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, Ríkharður Ibsen hjá GRP og Ari Kristinn Jónsson rektor HR - mynd

Ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra undirritaði í dag samning við Háskólann í Reykjavík, Orkuklasann og GRP ehf., um samstarf á sviði sjálfbærni, orku, nýsköpunar og loftslagsmála. Undanfarin ár hafa íslenski Orkuklasinn og GRP ehf., ásamt stjórnvöldum, verið í samstarfi við Cornell háskóla í Bandaríkjunum með það að markmiði að vinna að þekkingaryfirfærslu í orkumálum og sjálfbærni, auk samstarfs í vísindarannsóknum og menntamálum. Með samningnum er efnt til áframhaldandi samstarfs við Cornell háskóla til næstu fjögurra ára og er markmiðið að samstarfið muni leiða af sér aukin tækifæri í nýsköpun, þekkingaryfirfærslu, sjálfbærni, grænum orkulausnum og verðmætaaukningu fyrir íslenskt samfélag.

Í samningnum er m.a. kveðið á um eftirfarandi verkefni:

  1. Undirbúningur úttekta á sjálfbærni Íslands; úttekt á orkukerfi Íslendinga, landbúnaðarkerfi og sjávarútvegskerfi.
  2. Greining á tækifærum nýsköpunar í grænni tækni á Íslandi, t.d. í orkugeiranum og í sjávarútvegi.
  3. Aukið samstarf við Cornell í menntamálum og rannsóknum og frekari tengingar við háskólaumhverfið á Íslandi.
  4. Uppsetning á námskeiðum um græna orku og sjálfbærni tengt sérstöðu Íslands.
  5. Stuðla að samstarfi við alþjóðlega rannsóknarsjóði vegna nýsköpunar- og þróunarverkefna tengdum loftlagsmálum, sjálfbærni og grænni orku.
  6. Setja upp sjálfbæra miðstöð endurnýjanlegra orkugjafa á Íslandi í samstarfi við Cornell og tengda aðila.
  7. Samstarf í markaðsmálum með áherslu á sérstöðu Íslands í orkumálum og sjálfbærni.

Samstarfsverkefnið er vistað hjá Orkuklasanum en sérstök verkefnisstjórn hefur umsjón með verkefninu undir forystu Háskólans í Reykjavík.

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra: „Við höfum átt gott samstarf við Cornell háskóla á undanförnum árum og með þessum samningi þá römmum við það samstarf nánar inn til næstu fjögurra ára, með aðkomu Háskólans í Reykjavík, Orkuklasans og GRP. Í samstarfinu felast fjölmörg tækifæri á sviði nýsköpunar, orku, sjálfbærni og loftlagsmála og má þar nefna greiningu á tækifærum nýsköpunar í grænni tækni á Íslandi og úttekt á sjálfbærni Íslands í ákveðnum geirum.“

 

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

9. Nýsköpun og uppbygging
7. Sjálfbær orka
8. Góð atvinna og hagvöxtur

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum