Hoppa yfir valmynd
28. apríl 2020 Dómsmálaráðuneytið

Einföldun reglna um fjárhagslega endurskipulagningu fyrirtækja

Í samræmi við tillögur ríkisstjórnarinnar sem kynntar voru í dag vinnur dómsmálaráðuneytið að tillögum til að einfalda tímabundið reglur um fjárhagslega endurskipulagningun fyrirtækja.

Byggt verður á núgildandi grunnreglum en breytingar miða að því að fyrirtæki geti komist í skjól á einfaldan hátt á meðan verið er að meta stöðu þeirra og uns meiri vissa fæst um framtíðarhorfur. Breytingar lúta eðal annarsað skilyrðum fjárhagslegrar endurskipulagningar, beiðni og umfjöllun um hana, tímafrestum, heimildum til ráðstafana og riftunar- og vanefndaheimildum viðsemjenda.

Dómsmálaráðuneytið hefur falið réttarfarsnefnd að hafa yfirumsjón með útfærslunni. Nefndin fundaði á sunnudag og mun funda aftur í dag varðandi útfærslu og framkvæmd verksins en reynt verður að hraða þessari vinnu eins og kostur er.

Ljóst er að fjöldi fyrirtækja mun reyna að semja við kröfuhafa sína um frestun og niðurfellingu skulda. Í mörgum tilvikum er þetta gert án formlegrar greiðslustöðvunar en sú leið getur haft ákveðin vandkvæði í för með sér. 

Með fyrirhuguðum breytingum er stefnt að því að skilyrði fyrir greiðslustöðvun/fjárhagslegri endurskipulagningu verði einfölduð og gerð fljótvirkari. Til skoðunar er að breyta þeirri reglu sem kveður á um persónulega ábyrgð gagnvart skuldbindingum sem teknar eru þegar skuldari kann að vera ógjaldfær og miða þá við stórkostlegt gáleysi eða ásetning.

Til greina kemur að skráning beiðni hjá héraðsdómi veiti tímabundna vernd og skuldari tilnefni sjálfur óháðan tilsjónarmann sem uppfylli hæfisskilyrði. Varðandi tímafresti yrði miðað við að nokkuð auðvelt yrði að fá tímabundið skjól í 4 – 8 vikur og í framhaldinu lengra tímabil með samþykki tilskilins fjölda kröfuhafa. Þá kemur til greina að rýmka heimildir til lántöku og hækkunar hlutafjár á meðan á endurskipulagningu stendur þannig að fyrirtæki geti starfað áfram og átt viðskipti án þess að viðskiptavinir eigi á hættu að greiðslur frá þeim lendi í höndum annarra kröfuhafa enda sé ekki gengið á rétt þeirra síðarnefndu. Þá verður skoðað að setja inn ákvæði þess efnis að engin vanefndaúrræði eða riftun geti tekið gildi ef heimild til endurskipulagningar er veitt.

Ekki er ráðrúm til að ráðast í heildarendurskoðun á gjaldþrotalögunum. Hér yrði um sérstök lög að ræða og þau yrðu tímabundin að minnsta kosti til að byrja með.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum