Hoppa yfir valmynd
14. febrúar 2018 Innviðaráðuneytið

Íslenskir landshlutar koma vel út úr norrænum samanburði

Frá fundi samstarfsráðherra Norðurlanda þar sem skýrslan var kynnt í síðustu viku. - mynd

Íslenskir landshlutar koma mjög vel út í samanburði á efnahagslegri og félagslegri stöðu og horfum fyrir einstaka landshluta. Höfuðborgarsvæðið lendir í fjórða sæti og Vestfirðir fikra sig upp um 17 sæti. Þetta eru m.a. niðurstöður  skýrslu Norrænu ráðherranefndarinnar sem gefin var út í síðustu viku.

Samkvæmt skýrslunni eru landshlutarnir á Norðurlöndum 74, þar af 8 á Íslandi. Færeyjar og Grænland eru flokkuð sem einn landshluti. Við samanburðinn á stöðu norrænu landshlutanna er horft til breytinga sem orðið hafa á síðustu tveimur árum hvað varðar þróun íbúafjölda og samsetningu, atvinnustig og þátttöku á vinnumarkaði og þróun hagvaxtar. Níu þættir eru mældir sem fá ákveðið vægi við útreikninga sem samanburðurinn byggist á.

Vestfirðir, sem mælast lægst íslenskra landshluta, eru í 24. sæti. Staða Vestfjarða hefur þó breyst talsvert frá síðustu mælingu, en svæðið hækkar um 17 sæti sem setur það efst af fimm hástökkvurum milli mælinga ásamt Vesturlandi, sem hækkar um 21 sæti og Norðurlandi vestra, sem hækkar um 18 sæti. Í skýrslunni er tekið fram að Vesturland hafi bætt við sig stigum á öllum þeim þáttum sem mældir eru og var sérstaklega sterkt þegar kemur að atvinnuþátttöku og hagrænum atriðum. Það er þó sammerkt með öllum íslensku svæðunum að þau hafa hækkað talsvert frá fyrri mælingu.

„Ferðaþjónustan hefur vissulega haft jákvæð áhrif á lífskjör á Íslandi, en ekki má hins vegar líta framhjá því að í rótgrónum undirstöðuatvinnugreinum eru umsvif sjávarútvegsins mikil sem og í orku,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, sem jafnframt er samstarfsráðherra Norðurlandanna og tók hann þátt í fundi ráðherranna í síðustu viku.

Höfuðborgarsvæði norrænu ríkjanna mælast öll í efstu sætunum, Stokkhólmur vermir forystusætið en Kainuu svæðið í Finnlandi rekur lestina.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum