Hoppa yfir valmynd
19. febrúar 2007 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 11/2006: Dómur frá 19. febrúar 2007

Ár 2007, mánudaginn 19. febrúar, var í Félagsdómi í málinu nr. 11/2006:                                                                 

Alþýðusamband Íslands f.h.

Starfsgreinasambands Íslands vegna

Afls starfsgreinafélags Austurlands

gegn

Samtökum atvinnulífsins vegna

ESS Support Services ehf.

 

kveðinn upp svofelldur

 

D Ó M U R:

 

Mál þetta var dómtekið að loknum munnlegum málflutningi 6. febrúar sl.

Málið dæma Eggert Óskarsson, Gylfi Knudsen, Kristjana Jónsdóttir, Lára V. Júlíusdóttir og Valgeir Pálsson.

 

Stefnandi er Alþýðusamband Íslands, kt. 420169-6209, Sætúni 1, Reykjavík, f.h. Starfsgreinasambands Íslands, kt. 601000-3340 vegna Afls, starfsgreinafélags Austurlands, kt. 560101-3090, Egilsbraut 11, Neskaupstað.

 

Stefndi er Samtök atvinnulífsins, kt. 680699-2919, Borgartúni 35, Reykjavík,  vegna ESS Support Services ehf., kt. 670504-3520, Tungumel 1, Reyðarfirði.

 

Dómkröfur stefnanda 

Stefnandi gerir þær dómkröfur að viðurkennt verði að hækka beri kauptaxta samkomulags milli ESS Support Services ehf. og Matvís og Starfsgreinasambands Íslands, um lágmarkslaunakjör félagsmanna Matvís og Starfsgreinasambands Íslands, sem dagsett er 21. september 2004, um 15.000 krónur frá og með 1. júlí 2006 að telja.

Þá er krafist málskostnaðar auk álags er nemi virðisaukaskatti, samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi við aðalmeðferð máls þessa, ef til hennar kemur.

 

Dómkröfur stefnda 

Að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda.

Að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað að mati dómsins.

Upphaflega krafðist stefndi þess að kröfum stefnanda f.h. Matvíss yrði vísað frá dómi, en féll frá þeirri kröfu er áréttað var með bókun af hálfu stefnanda mál þetta sé eingöngu höfðað vegna félagsmanna Afls starfsgreinafélags Austurlands.

 

Málavextir

Stefndi, ESS Support Services ehf. (ESS), er undirverktaki Bechtel, sem annast byggingu álvers Alcoa á Reyðarfirði. ESS sér um starfsemi mötuneytis fyrir starfsmenn Bechtel og annast einnig þrif á starfsmannahúsnæði. Við þessi störf vinnur verkafólk og matreiðslumenn.  

Hinn 21. september 2004 gerði stefndi ESS Support Services ehf. samkomulag við Matvís og Starfsgreinasamband Íslands, meðal annars um lágmarkslaunakjör félagsmanna stefnanda sem starfa í mötuneytinu á Reyðarfirði. Hið stefnda félag var á þeim tíma utan Samtaka atvinnulífsins. Efni þess samnings lýtur að grunnlaunum og vinnutilhögun starfsmanna, sbr. 2. gr., auk sérstakra greiðslna vegna ferða og ferðatíma, sbr. 3. gr. Að öðru leyti er kveðið á um að fara skuli um kjör þeirra er samningurinn tekur til samkvæmt kjarasamningum Samtaka atvinnulífsins og Matvís frá 24. apríl 2004 og Samtaka atvinnulífsins og Starfsgreinasambandins frá 7. mars 2004, sbr. 4. gr. Stefndi, ESS Support Services ehf., gekk í Samtök atvinnulífsins í nóvember 2004.

Í almennum kjarasamningum Samtaka atvinnulífsins og aðildarfélaga stefnanda vorið 2004 var samið um forsendur kjarasamninga. Sérstakri nefnd, forsendunefnd, var falið að stuðla að framgangi markmiða samningsins og tryggja forsendur hans. Þegar í ljós kom að verðbólguþróun hafði leitt til þess að forsendur samninganna hefðu ekki staðist, var brugðist við innan nefndarinnar með sérstöku samkomulagi um þróun launahækkana á samningstímabilinu.

Sama dag og þetta samkomulag var gert á vettvangi forsendunefndarinnar, eða 22. júní 2006, gerðu Samtök atvinnulífsins og Alþýðusamband Íslands og landssambönd þess, þar á meðal Starfsgreinasambandið og Matvís, sérstakan kjarasamning um hækkun allra mánaðarlaunataxta gildandi kjarasamninga og sérkjarasamninga aðila. Skyldi sú hækkun nema 15.000 kr. á mánuði, hjá öllum sem nytu kjarasamningsbundinna launakjara. Samkvæmt samningnum skyldu þeir sem nytu hærri launa samkvæmt ráðningarsamningi en sem næmi kjarasamningsbundnum töxtum að viðbættum 15.000 kr. þó ekki njóta fyrrgreindrar hækkunar. Taxtahækkanir þessar skyldu gilda frá 1. júlí 2006. Félagsmenn stefnanda sem starfa í mötuneytinu á Reyðarfirði á vegum stefnda hafa ekki fengið þessa hækkun.   

Trúnaðarmaður stefnanda gerði athugasemdir vegna þessa við stefnda án árangurs.  Með bréfi lögmanns stefnanda til stefnda, ESS Support Services ehf., dags. 28. september 2006, var skorað á fyrirtækið að bæta úr þessu.

Með bréfi Samtaka atvinnulífsins, dags. 9. október 2006, var kröfum stefnanda hafnað með þeim rökum að samningur stefnda, ESS Support Services ehf., væri ekki kjarasamningur sem stafaði frá Samtökum atvinnulífsins og fyrrgreind taxtahækkun ætti því ekki að ná til þeirra sem nytu kjara samkvæmt honum, auk þess sem launataxtar þess samnings væru það háir að taxtaviðaukanum hefði ekki verið ætlað að ná til þeirra sem nytu slíkra kjara.

Kröfur stefnanda voru ítrekaðar með bréfi 16. október 2006, en þar sem þeim var ekki sinnt hefur stefnandi höfðað mál þetta.

 

Málsástæður stefnanda

Stefnandi kveður mál þetta varða ágreining um túlkun og eða efndir  kjarasamnings og eigi því undir dómsvald Félagsdóms, sbr. 2. tölulið 1. mgr. 44. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur.

Stefnandi byggir málatilbúnað sinn á því að stefnda beri ótvírætt að hækka grunnlaunataxta allra félagsmanna stefnanda sem starfa í mötuneyti Alcoa á Reyðarfirði á grundvelli þess kjarasamnings sem um þau störf gilda.

Sú hækkun eigi að nema 15.000 kr. á mánuði frá 1. júlí 2006, í samræmi við 2. gr. samnings um taxtaviðauka frá 22. júní 2006. Samningsákvæði þetta sé að mati stefnanda ótvírætt og beri í samræmi við efni sitt að efna skilyrðislaust. Þar sé enda sérstaklega til þess tekið að það ákvæði eigi við um alla mánaðarlaunataxta gildandi kjarasamninga og sérkjarasamninga aðila.

Stefnandi byggir á því að skuldbindingin um taxtaviðauka frá 22. júní 2006 eigi við um starfsmenn ESS Support Services ehf. Í fyrsta lagi vegna þess að samningur félagsins frá 21. september 2004 sé ótvírætt kjarasamningur í skilningi 5. gr. laga nr. 80/1938 og þau launakjör, sem þar var um samið, kjarasamningsbundin grunnlaun tiltekins hóps á samningssviði stefnanda en ekki ráðningarsamningsbundin kjör einstakra starfsmanna. Byggir stefnandi þannig á því að sá samningur hafi að geyma lágmarksgrunnlaun fyrir þá starfsmenn í skilningi 7. gr. laga nr. 80/1938 og 1. gr laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda.

Þá byggir stefnandi á því að stefndi, ESS Support Services ehf., hafi verið bundinn af öllum almennum kjarasamningsskuldbindingum Samtaka atvinnulífsins, allt frá 21. september 2004, á grundvelli 4. gr. samnings félagsins. Tímamark þess hvenær stefndi, ESS Support Services ehf., gekk í Samtök atvinnulífsins skiptir því að mati stefnanda ekki máli í þessu sambandi.  Hið stefnda félag hafði allt að einu skuldbundið sig til þess að fara að samningum Samtaka atvinnulífsins áður en það gekk formlega í samtökin og af þeirri skuldbindingu hafi það verið og sé bundið.

Með samkomulaginu hinn 21. september 2004 hafi stefndi, ESS Support Services ehf., samið um önnur lágmarkslaunakjör en Samtök atvinnulífsins gerðu í almennum samningum. Þeim kjörum hafi ekki verið breytt með nýjum samningi og  samningurinn frá 21. september 2004 hafi ekki fallið úr gildi við það að hið stefnda félag gekk í samtökin. Launataxtar þeir sem stefndi hafði samið um héldu því gildi sínu sem lágmarkstaxtar, enda hafi laun verið greidd í samræmi við þann samning allar götur frá því samningurinn var gerður og eins eftir að hið stefnda félag gekk í Samtök atvinnulífsins. Samningurinn frá 21. september 2004 sé þannig í fullu gildi þrátt fyrir inngöngu hins stefnda félags í Samtök atvinnulífsins, enda hafi ekki verið gerður annar samningur í hans stað. Af þessu leiði að sá samningur sé því sá kjarasamningur sem 2. gr. taxtaviðaukasamningsins vísi til.

Þá byggir stefnandi einnig á því að Samtök atvinnulífsins hafi í raun viðurkennt að stefnda, ESS Support Services ehf., beri að efna skyldur samkvæmt almennum kjarasamningum, þar með talið samningnum um taxtaviðauka. Þá staðfestingu sé að finna í orðsendingu frá Samtökum atvinnulífsins til launafulltrúa fyrirtækisins 20. júlí 2006. Í þeirri orðsendingu hafi verið fullyrt að stefnda sé skylt að standa að 5,5% hækkun á síðustu 12 mánuðum í samræmi við samþykkt forsendunefndarinnar.  Skjóti nokkuð skökku við ef stefndi eigi síðan frjálst val um það hvaða samningsskuldbindingar, sem samið sé um á vettvangi aðila vinnumarkaðarins, honum beri að efna hverju sinni.

Loks byggir stefnandi á því að stefndi, ESS Support Services ehf., hafi auk heldur þegar samningurinn við taxtaviðaukann var gerður verið aðili að Samtökum atvinnulífsins. Samtökunum hafi því verið kunnugt um þá samninga sem hið stefnda félag hafi þá þegar verið bundið af gagnvart starfsmönnum félagsins. Þrátt fyrir það hafi stefndi ekki gætt þess, hafi það staðið til, að undanskilja starfsmenn þá sem hér um ræðir með skýrum hætti undan skuldbindingu samningsins. Það hafi hann ekki gert og verði því að bera hallann af því ef samningurinn er óskýr um það atriði. 

Málsókn sína styður stefnandi við lög nr. 80/1938 sem og meginreglur vinnuréttar og samningaréttar um skuldbindingagildi samninga. Krafa um málskostnað er studd við 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Krafa um álag er nemi virðisaukaskatti á málflutningsþóknun sé studd við lög nr. 50/1988 um virðisaukaskatt en stefnandi sé ekki virðisaukaskattsskyldur og beri því nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefnda.

 

Málsástæður stefnda

Af hálfu stefnda er tekið fram um málavexti að stefnandi hafi farið þess á leit við stefnda, ESS Support Services ehf., að gerður yrði sérstakur kjarasamningur um störf hjá félaginu. Stefndi, EES Support Services ehf., virðist hafa staðið í þeirri trú að slíkur samningur væri nauðsynlegur vegna starfseminnar enda stóð hann á þeim tíma utan Samtaka atvinnulífsins.

Samkomulag stefnda og Starfsgreinasambandsins frá 21. september 2004 kveði eingöngu á um betri kjör til handa félagsmönnum stefnanda og án þess að stefndi njóti frávika frá öðrum þáttum almenns kjarasamnings Samtaka atvinnulífsins og Starfsgreinasambandsins á móti.

Í samningi stefnda og Starfsgreinasambandsins sé kveðið á um mun hærri  mánaðarlaun en giltu samkvæmt kjarasamningi Samtaka atvinnulífsins og Starfsgreinasambandsins. Þá skyldi greiða starfsfólki í mötuneyti hærra vaktaálag en samningur Samtaka atvinnulífsins og Starfsgreinasambandsins kvæði á um. Að auki hafi verið samið um sérstakar ferðagreiðslur sem ekki þekkist í almennum kjarasamningi Samtaka atvinnulífsins og Starfsgreinasambandsins.

Þegar Samtök atvinnulífsins og Starfsgreinasambandið gerðu kjarasamning sín á milli í mars 2004 voru kauptaxtar vegna þessara starfa í samræmi við þá kauptaxta sem þekktust í öðrum kjarasamningum, s.s. hjá ríkinu, sveitarfélögum og sjálfseignarstofnunum í heilbrigðisþjónustu. Í desember 2005 samdi Reykjavíkurborg hins vegar við Eflingu og SFR- stéttarfélag í almannaþjónustu um stórfellda hækkun kauptaxta og leiddi sá samningur til sambærilegra hækkana hjá öðrum sveitarfélögum. Hækkanir þessar höfðu einnig áhrif á sjálfseignarstofnanir í heilbrigðisþjónustu og voru launataxtar hækkaðir þar eftir vinnustöðvun starfsmanna. 

Eftir þessa hrinu hækkana hjá stórum atvinnurekendum hafi verið ljóst að aðildarfyrirtæki Samtaka atvinnulífsins gætu ekki keppt um starfsfólk á grundvelli kauptaxta Samtaka atvinnulífsins og Starfsgreinasambandsins. Til að bregðast við því hafi verið gerður samningur um sérstaka hækkun kauptaxta kjarasamninga, taxtaviðauka. Með samningnum hækkuðu kauptaxtar Samtaka atvinnulífsins frá 1. júlí 2006 upp í 122.598 kr. m.v. 5 ár við ræstingar og 124.212 kr. m.v. 5 ár í mötuneyti. Á sama tíma var kauptaxti í samningi stefnda 142.526 kr. vegna sömu starfa, auk annarra betri kjara.

Launataxtar í kjarasamningum án aðildar Samtaka atvinnulífsins hafi ekki tekið hækkun með samningi Samtaka atvinnulífsins og Starfsgreinasambandsins um taxtaviðauka, enda hafi markmið hans verið að draga úr því misvægi sem skapast hafði milli launataxta á samningssviði Samtaka atvinnulífsins og verkalýðsfélaga annars vegar og þeim töxtum sem giltu hjá hinu opinbera hins vegar. Samningar hjá ríki, sveitarfélögum eða sjálfseignarstofnunum hafi því ekki tekið hækkun vegna samningsins um taxtaviðauka.

Stefndi byggir kröfu sína um sýknu á því að enginn samningur hafi verið gerður um hækkun kauptaxta í kjarasamningi milli stefnda, ESS Support Services ehf., og Starfsgreinasambands Íslands og að hækkun kauptaxta verði ekki leidd af öðrum samningum sem stefndi, ESS Support Services ehf., sé bundinn af.

Í stefnu sé þess krafist að hækka beri kauptaxta í kjarasamningi ESS Support Services ehf. og Starfsgreinasambandsins um 15.000 kr. frá og með 1. júlí 2006. Ekki komi fram í dómkröfu á hvaða grundvelli þessi krafa byggir. Af stefnu megi ráða að byggt sé á samningi milli Samtaka atvinnulífsins og Starfsgreinasambandsins um taxtaviðauka frá 22. júní 2006. Stefnandi krefjist þess að fá dóm um að stefnda sé skylt að uppfylla hluta þess samnings, þ.e. um einhliða hækkun kauptaxtans, en stefnandi sé að sama skapi óbundinn af öðrum þáttum samningsins, þ.e. hverjar séu forsendur taxtahækkunar skv. 2. gr. samningins, hvernig með skuli fara ef starfsmaður kjósi að halda ráðningarsamningsbundnum viðbótargreiðslum, sbr. 3. gr. og fylgiskjöl samningsins, sbr. og 6. gr. Dómkrafa stefnanda gangi því út á meiri rétt honum til handa en gengið sé út frá í samningi Samtaka atvinnulífsins og Starfsgreinasambandsins um taxtaviðauka. Krafa þessi eigi sér enga stoð í samningum. Sé því óhjákvæmilegt að sýkna stefnda af kröfunni.

Stefndi byggir einnig á því að samningur Samtaka atvinnulífsins og Starfsgreinasambandsins um taxtaviðauka frá 22. júní 2006 taki til breytinga á mánaðarlaunatöxtum „gildandi  kjarasamninga og sérkjarasamninga aðila“, sbr. 2. gr. samningsins. Með aðilum sé átt við aðila samningsins, þ.e. Samtök atvinnulífsins og Starfsgreinasambandið f.h. aðildarfélaga. Samtök atvinnulífsins hafi þar með ekki tekið afstöðu til launataxta í kjarasamningum sem samtökin eigi ekki aðild að. Breyting þessi á launatöxtum hafi verið sértæk aðgerð til að leiðrétta taxta sem Samtök atvinnulífsins höfðu samið um. Samningar einstakra fyrirtækja, sem gerðir hafa verið án aðkomu og aðildar Samtaka atvinnulífsins, séu samtökunum óviðkomandi. Samtök atvinnulífsins verði ekki sjálfkrafa aðili að þeim samningum sem aðildarfyrirtæki samtakanna hafi gert fyrir inngöngu.

Stefndi telur einnig að líta verði til tilgangs samnings Samtaka atvinnulífsins og Starfsgreinasambandsins um taxtaviðauka. Honum hafi verið ætlað að draga úr misvægi sem orðið hafði á launatöxtum í kjarasamningi Samtaka atvinnulífsins og Starfsgreinasambandsins annars vegar og hliðstæðum samningum opinberra aðila hins vegar. Nýir launaflokkar í kjarasamningi Samtaka atvinnulífsins og Starfsgreinasambandsins fylgi samningnum og séu hluti hans, sbr. 6. gr. samningsins. Markmið samningsaðila hafi verið að færa kauptaxta vegna þessara starfa nær því sem um hafði verið samið hjá öðrum aðilum á vinnumarkaði. Það gengi þvert gegn markmiðum samningsins að hækka kauptaxta í einstökum fyrirtækjum sem þegar séu mun hærri en kauptaxtar Samtaka atvinnulífsins.  

Því sé mótmælt, sem fram komi í stefnu, að tenging í 4. gr. samkomulags ESS Support Services ehf. og Starfsgreinasambandsins frá 21. september 2004 við kjarasamning Samtaka atvinnulífsins og Starfsgreinasambandsins frá 7. mars 2004, þ.e. að hann gildi að öðru leyti, leiði til þess að kauptaxtar samkomulags ESS Support Services ehf. og Starfsgreinasambandsins eigi að hækka um 15.000 kr. frá 1. júlí 2006. Eins og rakið sé ítarlega í bréfi Samtaka atvinnulífsins til lögmanns stefnanda þá sé niðurstaða forsendunefndar Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusambands Íslands, sem starfar á grundvelli 26. kafla kjarasamnings Samtaka atvinnulífsins og Starfsgreinasambandsins frá 7. mars 2004, bindandi fyrir stefnda, enda vísað til þessa kjarasamnings í 4. gr. samkomulags aðila frá 21. september 2004. Samningur um taxtaviðauka milli Samtaka atvinnulífsins og Starfsgreinasambandsins frá 22. júní 2006 stafi hins vegar ekki frá þessari forsendunefnd og byggi að öðru leyti ekki á 26. kafla kjarasamningsins.

Kjarasamningur ESS Support Services ehf. og Starfsgreinasambandsins sé ekki  samningur um lágmarkskjör í skilningi 1. gr. laga nr. 55/1980, eins og látið sé liggja að í stefnu. Lagaákvæðið taki til samninga sem „aðildarsamtök vinnumarkaðarins“ gera en nái ekki til samninga sem einstök fyrirtæki gera við stéttarfélög og gildi einungis um starfsmenn þess fyrirtækis. Samningurinn sé hins vegar kjarasamningur í skilningi laga nr. 80/1938.

Krafa um málskostnað styðjist við 130. gr. l. nr. 91/1991. 

 

Niðurstaða

Mál þetta á undir Félagsdóm samkvæmt 2. tl. 1. mgr. 44. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur.

Hinn 21. september 2004 gerði stefndi, ESS Support Services ehf., samkomulag við Matvís og Starfsgreinasamband Íslands um lágmarkslaunakjör félagsmanna þessara sambanda sem ráðnir yrðu til starfa hjá stefnda í mötuneyti fyrir starfsmenn vegna byggingar álvers Alcoa á Reyðarfirði.  Ágreiningslaust er með aðilum að samkomulag þetta sé kjarasamningur í skilningi laga nr. 80/1938, en á þeim tíma var stefndi, ESS Support Services ehf., utan Samtaka atvinnulífsins.

Í 2. gr. samkomulags þessa er kveðið á um grunnlaun og vaktaálag, en í 3. gr. er kveðið á um sérstakan ferðakostnað og aukagreiðslur með tilliti til búsetu. Óumdeilt er með aðilum að launakjör samkvæmt þessum samningsákvæðum hafi verið betri en þá var samkvæmt almennum kjarasamningi Samtaka atvinnulífsins og Starfsgreinasambands Íslands frá 7. mars 2004. Samkvæmt 4. gr. samkomulagsins var að öðru leyti kveðið á um að fara skyldi um kjör þeirra er samningurinn tæki til samkvæmt kjarasamningum Samtaka atvinnulífsins og Matvís frá 24. apríl 2004 og Samtaka atvinnulífsins og Starfsgreinasambandins frá 7. mars 2004. Stefndi, ESS Support Services ehf., mun hafa gengið í Samtök atvinnulífsins í nóvember 2004.

Þegar í ljós kom að samningsforsendur, sem tilgreindar voru í gildandi kjarasamningum Samtaka atvinnulífsins og aðildarfélaga Alþýðusambands Íslands, höfðu ekki staðist vegna verðbólguþróunar var brugðist við af háfu forsendunefndar, sem starfar á grundvelli samninganna, með sérstöku samkomulagi 22. júní 2006 um þróun launahækkana á samningstímabilinu. Í því samkomulagi var kveðið á um það að starfsmaðnni sem er í starfi í júlíbyrjun 2006 og starfað hefur samfellt hjá sama vinnuveitanda frá júní 2005 skuli tryggð að lágmarki 5,5% launahækkun á þeim tíma. Sama dag og þetta samkomulag var gert gerðu Samtök atvinnulífsins og Alþýðusamband Íslands og landssambönd þess sérstakan samning um taxtaviðauka. Samkvæmt 2. gr. þess samnings skyldi sérstakur taxtaviðauki, 15.000 kr., bætast við alla mánaðarlaunataxta gildandi kjarasamninga og sérkjarasamninga aðila frá 1. júlí 2006. Tekið var fram að taxtaviðaukinn skyldi ekki bætast við hjá þeim sem nytu hærri launa samkvæmt ráðningarsamningi en sem næmi kjarasamningsbundnum launatöxtum að viðbættum taxtaviðaukanum.

Fyrir liggur að starfsmenn stefnda fengu þá launahækkun sem samkomulag varð um í forsendunefnd, en stefndi hefur hins vegar hafnað því að félagsmenn stefnanda, sem starfa hjá stefnda, eigi rétt á þeim taxtaviðauka, sem samningur Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusambands Íslands og landssambanda þess frá 22. júní 2006 kveður á um.

Með því að stefndi, ESS Support Services ehf., var orðinn aðili að Samtökum atvinnulífsins þegar samningur um taxtaviðaukann var gerður tók sá samningur til starfsmanna stefnda, sbr. ákvæði 4. gr. samkomulagsins um lágmarkslaunakjör frá 21. september 2004. Undanþáguákvæði 2. gr. samningsins um taxtaviðauka á ekki við þar sem stefnandi byggir rétt sinn á kjarasamningi við stefnda. Þá var enginn fyrirvari gerður af hálfu Samtaka atvinnulífsins varðandi kjarasamninginn við stefnda er gengið var frá fyrrgreindum samningi um taxtaviðauka.

Samkvæmt framansögðu verður fallist á þá kröfu stefnanda að hækka beri launataxta félagsmanna stefnanda, sem starfa hjá stefnda, um 15.000 kr. frá 1. júlí 2006 í samræmi við 2. gr. samnings um taxtaviðauka, dags. 22. júní 2006, eins og nánar greinir í dómsorði.

Samkvæmt þessum úrslitum málsins verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda 250.000 krónur í málskostnað.

 

D Ó M S O R Ð:

Viðurkennt er að hækka beri kauptaxta samkomulags, dagsettu 21. september 2004, milli ESS Support Services ehf. og Starfsgreinasambands Íslands, um lágmarkslaunakjör félagsmanna Starfsgreinasambands Íslands, sem starfa hjá stefnda, um 15.000 krónur frá og með 1. júlí 2006 að telja.  

Stefndi, Samtök atvinnulífsins vegna ESS Support Services ehf., greiði stefnanda, Alþýðusambandi Íslands f.h. Starfsgreinasambands Íslands, vegna Afls, starfsgreinafélags Austurlands, 250.000 krónur í málskostnað.

 

Eggert Óskarsson

Gylfi Knudsen

Kristjana Jónsdóttir

Lára V. Júlíusdóttir

Valgeir Pálsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum