Hoppa yfir valmynd
23. mars 2012 Innviðaráðuneytið

Margháttað samstarf ráðuneytis og Sambands íslenskra sveitarfélaga

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra flutti ræðu við upphaf XXVI. landsþings Sambands íslenskra sveitarfélaga sem haldið var í Reykjavík í dag. Á þinginu var kastljósinu beint að íbúalýðræði, eflingu sveitarstjórnarstigsins og notendastýrðri persónulegri þjónustu, NPA.  Ráðherra lýsti ánægju með margháttað samstarf ráðuneytisins og Sambandsins í þeim mörgu málefnum sem unnið er að meðal annars til að efla sveitarstjórnarstigið.

Frá landsþingi sambands íslenskra sveitarfélaga 23. mars 2012
Svipmynd frá landsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga 23. mars 2012.

Innanríkisráðherra fór yfir þau málefni sem ráðuneytið og Samband íslenskra sveitarfélaga hafa samstarf um, meðal annars á sviði fjármála og setningu fjármálareglna fyrir sveitarfélög, um flutning á málefnum fatlaðra sem verið hefði umfangsmikið verkefni og á sviði eflingar sveitarstjórnarstigsins sem gerðar hefðu verið tillögur um og væri unnið að.

Ögmundur Jónasson ávarpar gesti á landsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga.Ráðherrann vísaði í málþing á Akureyri í síðasta mánuði þar sem kynnt var könnun á viðhorfum sveitarstjórnarstjórnarmanna og alþingismanna til eflingar sveitarstjórnarstiginu svo og tillögur nefndar ráðuneytisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga um þau efni. Sagði ráðherra fundinn hafa verið gagnlegan og faglegan og hefði umræðan snúist frá því að horfa einkum til landamerkja við sameiningu og eflingu sveitarfélaga og að því að horfa til aukinna verkefna sveitarfélaga og til samstarfs þeirra á milli. Einnig hefði nefndin sett fram margs konar tillögur á sviði mannréttinda, lýðræðis og stjórnsýslu sveitarfélaga, meðal annars að efla rafræna stjórnsýslu þeirra.

Ráðherra sagði þessar tillögur til meðferðar í ráðuneytinu og unnið væri að gerð verkefnaáætlana um að  hrinda þeim í framkvæmd; það væri sameiginlegt verkefni ráðuneytis og Sambandsins og að landsþingið gæti gefið ákveðna vísbending um vilja sveitarstjórnarfólks í þeim efnum.

Ögmundur Jónasson gat einnig um undirbúning þess að koma á persónukjöri við sveitarstjórnarkosningar og alþingiskosningar sem ráðuneytið hefði unnið að með einum helsta sérfræðingi Sambandsins á þessu sviði. Sagði ráðherra haft að leiðarljósi að við persónukjör yrði kerfið einfalt, skiljanlegt og að víðtæk sátt næðist um það.

Svipmynd frá landsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga.Þá sagði ráðherra góða samvinnu hafa verið milli ráðuneytisins og Sambandsins um mótun nýrrar reglugerðar um fjármálareglur og eftirlit með fjármálum sveitarfélaga sem setja skal í kjölfar nýrra sveitarstjórnarlaga sem tóku gildi um síðustu áramót. Mikilvægt væri að góð samstaða sé um þessa reglugerð og að hún leiði til þess að tekið sé tillit til mismunandi aðstæðna hjá sveitarfélögum og möguleikum þeirra til að aðlaga sig að nýjum fjármálareglum. Hann sagði tillögu að reglugerð langt komna og yrði hún sett á vef ráðuneytisins til kynningar fyrir páska. Hvatti ráðherra sveitarstjórnarfólk alla til að kynna sér drögin vel og koma ábendingum og athugasemdum á framfæri við ráðuneytið.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum