Hoppa yfir valmynd
10. febrúar 2023 Utanríkisráðuneytið

Rauði krossinn á Íslandi sendir 30 milljónir til jarðskjálftasvæðanna ​

Ljósmynd: Rauði krossinn - mynd

Rauði krossinn á Íslandi hefur ákveðið að verja 30 milljónum króna til mannúðaraðgerða Rauða hálfmánans og Alþjóða Rauða krossins í Tyrklandi og Sýrlandi vegna jarðskjálftanna á mánudag. Samdægurs hrinti Rauði krossinn á Íslandi af stað neyðarsöfnun sem hefur gengið afar vel en nú þegar hafa safnast hátt í níu milljónir króna með öflugum stuðningi landsmanna.

Stuðningur Rauða krossins á Íslandi til þolenda skjálftanna samanstendur af 12 milljónum króna sem koma úr söfnun Rauða krossins og frá Mannvinum Rauða krossins, auk 18 milljóna króna framlags frá utanríkisráðuneytinu.

„Við erum landsmönnum ótrúlega þakklát fyrir stuðninginn við neyðarsöfnun Rauða krossins sem og utanríkisráðuneytinu og Mannvinum Rauða krossins. Fjármagnið mun nýtast í lífsbjargandi mannúðaraðstoð sem kollegar okkar sinna nótt sem nýtan dag í báðum löndum og fjármagnið gerir Rauða hálfmánanum í báðum löndum kleift að halda hjálparstarfinu gangandi og auka umfang þess, en auk þess felst einnig mikilvægur andlegur stuðningur í þessari hjálp, sem veitir kraft í þessum erfiðu aðstæðum og öllu því uppbyggingarstarfi sem framundan er,” segir Atli Viðar Thorstensen sviðsstjóri alþjóðasviðs Rauða krossins á Íslandi.

Í frétt Rauða krossins segir að skjálftarnir hafa valdi gríðarlegum skemmdum á innviðum og híbýlum fólks og kostað þúsundir mannslífa. Talið seé að fjöldi látinna og særðra eigi enn eftir að hækka, þar sem mikill fjöldi fólks sé enn fast í rústunum. Auk þess sé víða síma-, rafmagns- og eldsneytisleysi og mikill kuldi í ofanálag.

„Aðstæður á vettvangi eru því gríðarlega slæmar í báðum ríkjum og hafa fjölmennar sveitir sjálfboðaliða og starfsfólks tyrkneska og sýrlenska Rauða hálfmánans unnið sleitulaust við leit og björgun frá því skjálftarnir áttu sér stað, ásamt því að skipuleggja og veita lífsbjargandi mannúðaraðstoð á vettvangi, hlúa að þolendum skjálftanna og veita sálrænan stuðning. Aðstæður eru sérstaklega erfiðar í Sýrlandi, þar sem stór hluti innviða landsins eru í molum og aðgangur að heilbrigðisaðstoð takmarkaður eftir tólf ára vopnuð átök. Á skjálftasvæðunum í Tyrklandi eru auk heimamanna fjöldi sýrlenskra flóttamanna og því margir sem þurfa að treysta á utanaðkomandi mannúðaraðstoð í kjölfar þessara náttúruhamfara,“ segir í fréttinni.

„Það skiptir gríðarlega miklu máli að bregðast hratt við neyðarástandinu sem hefur komið upp í Tyrklandi og Sýrlandi vegna skjálftanna,” segir Atli Viðar. „Okkur berast skelfilegar tölur af mannfalli sem hækka í hvert sinn sem við lesum fréttir og gríðarlegur fjöldi fólks hefur misst heimili sín, allt sem það á og jafnvel fjölskyldumeðlimi líka. Milljónir einstaklinga á hamfarasvæðunum eru nú í ómögulegri stöðu og hafa hvorki þak yfir höfuðið né aðgang að heitum mat, hvað þá heilbrigðisþjónustu og sálrænum stuðningi. Rauði krossinn á Íslandi er í beinu sambandi við tyrkneska og sýrlenska Rauða hálfmánann og kemur öllum stuðningi Íslendinga beint til skila til þeirra svo þau geti brugðist við neyð þessa fólks með sem besta megni og sem allra fyrst.

Áhersla á fólk í viðkvæmri stöðu

Fjármagnið sem Rauði krossinn sendir verður hluti af neyðarbeiðni Alþjóðasambands Rauða krossins, sem hljóðar upp á samtals 200 milljónir svissneskra franka. Framkvæmd mannúðaraðgerða er fyrst og fremst á herðum tyrkneska og sýrlenska Rauða hálfmánans en með dyggum stuðningi Alþjóða Rauða krossins, þar sem áhersla verður lögð á að tryggja þolendum skjálftanna húsaskjól ásamt aðgengi að mat, vatni, hreinlæti, heilbrigðisþjónustu og áfallahjálp. Áhersla verður lögð á tryggja aðstoð til þeirra sem eru í sérstaklega viðkvæmri stöðu, svo sem langveikt fólk, fylgdarlaus börn, fólk með fötlun og þolendur ofbeldis.

Fjölmargir hafa misst ástvini sína í jarðskjálftunum og enn aðrir hafa orðið viðskila við fjölskyldumeðlimi og/eða bíða frétta af þeim. Hægt er að leita til leitarþjónustu Rauða krossins til þess að komast í samband við fjölskyldur sínar eða til að komast að því hvað varð um nána ættingja sem saknað er. Hægt er að panta tíma þar með því að senda póst á netfangið [email protected].

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

3. Heilsa og vellíðan
2. Ekkert hungur

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum