Hoppa yfir valmynd
2. apríl 2019 Utanríkisráðuneytið

Tveir samningar vegna Brexit undirritaðir í London í dag

Frá undirritun bráðabirgðafríverslunarsamnings Íslands, Noregs og Bretlands. Stefán Haukur Jóhannesson, sendiherra Íslands í London, undirritaði samninginn fyrir Íslands hönd. - mynd

Íslensk og bresk stjórnvöld undirrituðu í dag tvo mikilvæga samninga sem tryggja annars vegar áframhaldandi réttindi borgara til búsetu og hins vegar óbreytt tollkjör vegna vöruviðskipta jafnvel þótt Bretland gangi úr Evrópusambandinu (ESB) án útgöngusamnings. Enn ríkir óvissa um hvort Bretland gangi úr ESB án samnings en það gæti gerst 12. apríl nk.

Á þessu stigi er ekki samið um framtíðarsamband Íslands og Bretlands en samningarnir eru mikilvægur liður í varúðarráðstöfunum íslenskra stjórnvalda vegna hugsanlegrar útgöngu Bretlands úr ESB án samnings. Ef útgöngusamningur Bretlands og ESB nær fram að ganga eða ef samið verður um að framlengja enn aðild Bretlands að ESB taka samningarnir ekki gildi þar sem réttindi og fríverslunarkjör verða enn um sinn tryggð á grundvelli EES-samningsins eða samningum sem taka mið af samningi Bretlands við ESB.

Noregur á aðild að báðum samningunum og Liechtenstein er einnig aðili að samningnum um búseturéttindi.

Bráðabirgðafríverslunarsamningur við Bretland

Bráðabirgðafríverslunarsamningurinn sem fulltrúar íslenskra, norskra og breskra stjórnvalda undirrituðu í London í dag tekur aðeins gildi gangi Bretland úr ESB án útgöngusamnings. Hann felur í sér að núverandi tollkjör halda í grundvallaratriðum áfram að gilda fyrir inn- og útflutning vöru til og frá Bretlandi. Greint var frá því á dögunum að samningaviðræðum væri lokið.

„Bretland er einn mikilvægasti útflutningsmarkaður íslenskra fyrirtækja“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra. „Jafnframt flytjum við margs konar varning til landsins frá Bretlandi. Miklir hagsmunir eru í húfi og nauðsynlegt er að Brexit leiði ekki til þess að nýir tollamúrar rísi á milli okkar“.

Íslensk stjórnvöld hafa lagt áherslu á að styrkja enn frekar og byggja upp sambandið við Bretland eftir útgöngu. Markmið samningsins er að viðhalda gildandi kjörum þar til samið hefur verið um nýjan og viðameiri fríverslunarsamning á milli ríkjanna en sem fyrr segir tekur hann aðeins gildi ef Bretland gengur úr ESB án samnings.

Breska ríkisstjórnin birti nýverið almenna tollskrá til bráðabirgða ef Bretland gengur úr ESB án útgöngusamnings. Tollskráin mun gilda í allt að tólf mánuði gagnvart öllum aðildarríkjum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO). Í þeim tilvikum sem hin almenna tollskrá veitir betri tollkjör en fríverslunarsamningar Bretlands munu innflytjendur njóta þeirra kjara sem betri eru. Það gildir einnig um sjávarafurðir sem flestar eru tollfrjálsar samkvæmt bráðabirgðatollskránni.

Samningur um búseturéttindi

Síðari samningurinn, sem EFTA-ríkin innan EES, Ísland, Noregur og Liechtenstein, og bresk stjórnvöld undirrituðu í dag tryggir áframhaldandi réttindi borgara til búsetu, jafnvel þótt Bretland gangi úr ESB án útgöngusamnings.

„Það hefur verið forgangsmál okkar að tryggja réttindi íslenskra borgara sem búa í Bretlandi og breskra borgara sem hér búa“ sagði Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra. „Þótt ekki sé hægt að spá fyrir um með hvaða hætti útganga Breta úr ESB nákvæmlega verður er afar mikilvægt að búið sé að draga úr óvissunni hjá þessum hópi eins og unnt er.“ Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofunni er um að ræða á fjórða þúsund einstaklinga.

Í október 2018 komust forsætisráðherrar Íslands og Bretlands að pólitísku samkomulagi um að tryggja rétt íslenskra ríkisborgara í Bretlandi og breskra ríkisborgara á Íslandi til áframhaldandi búsetu eftir útgöngu Bretlands úr ESB, jafnvel þó svo færi að ekki næðust samningar um útgönguskilmála á milli Bretlands og ESB. Í framhaldinu var unnið að gerð samnings um gagnkvæm réttindi borgara þessara ríkja og var endanlegur texti samningsins kynntur 8. febrúar síðastliðinn.

Sambærileg réttindi hafa einnig verið tryggð  ef útgöngusamningur Bretlands og ESB nær fram að ganga en þá tæki fyrst við bráðabirgðatímabili til loka árs 2020 þar sem EES-samningurinn gilti áfram um Bretland.

  • Frá undirritun EFTA-ríkjanna innan EES og Bretlands á samningi um búseturéttindi. - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum