Hoppa yfir valmynd
Heilbrigðisráðuneytið

Vel heppnuð ráðstefna um bætt samskipti ráðuneytis og stofnana

Mikil og almenn ánægja var með ráðstefnuna af hálfu ráðuneytisins og forstöðumanna þar sem m.a. fjallað var um samskipti ráðuneytisins og stofnana þess.

Guðlaugur Þór Þórðarson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, flutti inngangsræðu á ráðstefnunni og gerði þar grein fyrir áherslum sínum og ríkisstjórnarinnar í heilbrigðismálum. Hann greindi frá þeim miklu breytingum sem fyrirhugaðar eru á starfsemi ráðuneytisins með tilflutningi verkefna frá ráðuneytinu til félagsmálaráðuneytisins og vék að og skýrði markmiðin með sjúkratryggingastofnuninni sem komið verður á fót á nýju ári og tekur til starfa 1. september á næsta ári.

Nýr ráðuneytisstjóri, Berglind Ásgeirsdóttir, fjallaði um heilbrigðismál hér í alþjóðlegu samhengi og nýtt skipurit ráðuneytisins, og bæði lögðu þau, ráðherrann og ráðuneytisstjóri, áherslu á gæði íslensku heilbrigðisþjónustunnar á mælikvarða sem jafnan eru notaðir til að meta þjónustuna. Bæði lögðu einnig ríka áherslu á vilja sinn til að bæta samskiptin við stofnanir og nýta betur þann mannauð og þekkingu sem er til staðar á stofnunum ráðuneytisins.

Ragnheiður Haraldsdóttir, sviðstjóri stefnumótunarsviðs ráðuneytisins, fjallaði um stefnumótun til skamms tíma og langs og gerði forstöðumönnum grein fyrir hvaða þættir stefnumótunarinnar yrðu forgangsmál ráðuneytisins. Svanhvít Jakobsdóttir, sviðstjóri fjármála í ráðuneytinu, gerði forstöðumönnum grein fyrir fjárlögum næsta árs. Hún fór yfir helstu áherslur ráðherra í þessu sambandi og gerði grein fyrir þeim breytingum sem fyrirhugaðar eru og fram koma í fjárlögum 2008.

Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir, fjallaði um hina nýju sjúkratryggingastofnun en Sigurbjörg hefur yfirumsjón með því að ýta þeirri stofnun úr vör. Haraldur Briem, sóttvarnalæknir gerði ráðstefnugestum grein fyrir viðbúnaðaráætlun vegna fuglaflensu.

Ómar H. Kristmundsson, dósent við Háskóla Íslands, gerði grein fyrir rannsóknum sínum á starfsumhverfi ríkisstarfsmanna, en fyrst og fremst könnun sem nýlega var birt og fjallar um samskipti ráðuneyta og stofnana sem undir þau heyra. Þetta var annað meginþema ráðstefnunnar og einmitt í þessu sambandi gerðu þau Magnús Skúlason, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurlands og Margrét Guðjónsdóttir, forstjóri Heilsugæslunnar á Akureyri, grein fyrir samskiptum stofnana og ráðuneytisins frá sjónarhóli stofnananna.

Hanna Katrín Friðriksson, aðstoðarmaður heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, fjallaði um sama efni en undir lok ráðstefnunnar ræddu forstöðumenn og ráðuneytisstarfsmenn ýmislegt sem fram hafði komið fyrr um daginn og settu fram tillögur og hugmyndir um hvernig bæta mætti samskipti milli ráðuneytis og stofnana. Eins og áður sagði tókst ráðstefnan afar vel að mati ráðstefnugesta og er fyrirhugað að halda framhaldsráðstefnu á svipuðum nótum síðar í vetur.Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira