Hoppa yfir valmynd
19. desember 2007 Heilbrigðisráðuneytið

Umsýsla frá ráðuneyti til Tryggingastofnunar

Tryggingastofnun metur í framtíðinni hvort einstaklingar eru tryggðir í almannatryggingakerfinu hér, en ekki ráðuneytið eins og tíðkast hefur.

Þetta þýðir að ákvörðun um almannatryggingar er á hendi viðkomandi tryggingastofnana þeirra ríkja sem í hlut eiga. Ákvörðun um það hvort einstaklingur telst tryggður hér á landi heyrir þar með undir Tryggingastofnun ríkisins samkvæmt lögum nr. 100/2007 um almannatryggingar. Það er því Tryggingastofnun ríkisins sem sker úr um hvar einstalingur telst tryggður þegar gerðir hafa verið samningar milli ríkja um almannatryggingar. Reglugerð hefur verið gefin út í samræmi við þetta og hefur hún tekið gildi.

Í ESB-reglugerð nr. 1408/71 um almannatryggingar, sem er hluti af EES-samningnum, er það meginregla að starfsmaður sé tryggður í almannatryggingakerfi starfslandsins. Hægt er að gera undanþágur frá þeirri meginreglu. Annars vegar getur Tryggingastofnun ríkisins veitt undanþágu, þegar um tímabundið starf er að ræða í öðru ríki ef starfstímabilið er styttra en eitt ár. Hins vegar getur ráðuneytið veitt undanþágu á grundvelli 17. gr. ESB-reglugerðar nr. 1408/71 (17. gr. samningar) þegar um tímabundið starf í öðru ríki er að ræða, sem er lengra en eitt ár. Í síðarnefnda tilvikinu er hægt að veita undanþágu til fimm ára. Við undirbúning EES-samningsins var talið að svokallaðir 17. gr. samningar væru milliríkjasamningar sem heyrðu undir ráðuneytið.

Breytingin sem hér er gerð, er í samræmi við túlkun EES samningsins og til samræmis við verklag í nálægum löndum, en í fæstum tilvikum er það ráðuneyti aðildarríkja EES-samningsins sem annast gerð 17. gr. samninga. Í Danmörku, Finnlandi, Noregi og Svíþjóð eru það til dæmis tryggingastofnanir viðkomandi ríkja sem annast gerð samninganna.

Reglugerðin sem gefin hefur verið út felur í sér að umsýsla 17. gr. samninga flytst frá ráðuneytinu til Tryggingastofnunar ríkisins. Er það í samræmi við sameiginlega ákvörðun ráðuneytisins og stofnunarinnar. Einnig er það í samræmi við tillögur sem tengjast aðgerðaráætlun forsætisráðuneytisins um Einfaldara Ísland.

Með flutningnum verður meira samræmi í því hvenær undanþágur frá meginreglunni um að starfsmaður sé tryggður í starfslandi eru veittar og jafnframt einfaldar það stjórnsýsluna að tiltekinn aðili sinni erindum starfsmanna og fyrirtækja vegna almannatrygginga hérlendis og erlendis.

Samningarnir sem ráðuneytið hefur gert eru innan við 150 á ári og af þeim sökum er talið að kostnaðarauki hjá Tryggingastofnun ríkisins verði óverulegur. Í reglugerðardrögunum eru ýmsar lagfæringar til samræmis við breytingar sem hafa orðið á lögum en þær fela ekki í sér efnislegar breytingar.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum