Hoppa yfir valmynd
Heilbrigðisráðuneytið

Gjörgæsla LSH verður stækkuð

Guðlaugur Þór Þórðarson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, hefur ákveðið að gjörgæsla Landspítala við Hringbraut verði stækkuð eins fljótt og verða má. Þetta þýðir að Landspítalinn fær sérstaka fjárveitingu á árinu 2008 til að stækka gjörgæslu spítalans og hækkar greiðsluáætlun LSH til samræmis við það. Samkvæmt mati mun kostnaður við viðbygginguna nema um 35 milljónum króna. Bæði Landspítalinn og nefnd sem vinnur að tillögum um framtíðarskipulag fasteigna og annarrar aðstöðu innan heilbrigðiskerfisins undir forystu Ingu Jónu Þórðardóttur hafa hvatt til og dregið fram kostina við að stækka gjörgæsluna. Húsafriðunarnefnd hefur fjallað um málið og samþykkti fyrir skemmstu stækkunaráform gjörgæslunnar á LSH við Hringbraut. Eftir stækkun verður aðstaða fyrir sjúklinga sem liggja á gjörgæslu stórbætt, betri aðstaða skapast á gjörgæslunni til að koma fyrir og geyma flókinn búnað sem fylgir gjörgæslustarfsemi og aðstaða fyrir starfsfólk batnar til muna. Hægt verður með þessu að taka á móti fleiri sjúklingum og flæði sjúklinga verður þar með meira.Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira