Hoppa yfir valmynd
1. júní 2023 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Samstarfsráðherrar Íslands og Álandseyja undirrita viljayfirlýsingu um samstarf á sviði sjálfbærrar þróunar

Annette Holmberg-Jansson og Guðmundur Ingi Guðbrandsson. - mynd

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, samstarfsráðherra Norðurlanda, og Annette Holmberg-Jansson, samstarfsráðherra Norðurlanda á Álandseyjum, hafa undirritað viljayfirlýsingu um aukið samstarf varðandi sjálfbæra þróun. Undirritunin fór fram í tengslum við sumarfund samstarfsráðherra Norðurlanda sem nú stendur yfir í Reykholti í Borgarfirði.

Samkvæmt viljayfirlýsingunni munu Ísland og Álandseyjar leggja áherslu á að dýpka samstarf sitt á sviði sjálfbærrar þróunar og deila reynslu sinni og þekkingu. Til grundvallar eru verkefnin Sjálfbært Ísland, Allir geta blómstrað (e. Everyone can flourish) og Áætlun Álandseyja um sjálfbæra stjórnarhætti (e. Åland Framework for Sustainable Governance).

Ráðherrarnir tveir funduðu á Álandseyjum fyrr í mánuðinum og fékk Guðmundur Ingi þá meðal annars kynningu á verkefnum á sviði sjálfbærni sem Álandseyjar standa framarlega í. Hann segir viljayfirlýsinguna einkar ánægjulega.

„Ég tel að við getum náð meiri árangri með alþjóðlegri samvinnu, ekki síst á sviði sjálfbærrar þróunar sem teygir anga sína inn í alla málaflokka. Það verður mjög gagnlegt að vinna nánar með Álendingum. Þau eru með afar áhugaverða nálgun þegar kemur að þátttöku samfélagsins við framkvæmd sjálfbærrar þróunar,“ segir hann.

Annette Holmberg-Jansson, samstarfsráðherra Álandseyja, lýsir sömuleiðis ánægju sinni.

„Það er gott að á Norðurlöndunum sé vakin athygli á vinnu Álandseyja varðandi sjálfbærni. Við getum sannarlega deilt reynslu okkar og þekkingu með öðrum,“ segir hún.

Skrifað undir viljayfirlýsinguna.

Um norrænu ráðherranefndina og formennsku Íslands

Norræna ráðherranefndin er opinber samstarfsvettvangur norrænu ríkisstjórnanna. Þar er unnið að sameiginlegum lausnum á þeim viðfangsefnum þar sem Norðurlöndin geta náð mestum árangri með því að vinna saman. Ísland fer með formennsku í nefndinni árið 2023 og mun leiða samstarfið undir yfirskriftinni „Norðurlönd – afl til friðar“.

Starf Norrænu ráðherranefndarinnar fer fram í 12 nefndum þar sem ráðherrar fagráðuneyta á Norðurlöndunum eiga með sér samstarf eftir málefnasviðum. Vinnan á sér einnig stað í nefndum embættismanna.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum