Hoppa yfir valmynd
22. desember 2011 Heilbrigðisráðuneytið

Breytingar á gjaldskrám vegna heilbrigðisþjónustu um áramót

Velferðarráðuneytið
Velferðarráðuneytið

Gjöld sem sjúkratryggðir greiða fyrir heilbrigðisþjónustu hækka að jafnaði um 5,3% um næstu áramót í samræmi við áætlun fjárlaga um hækkun sértekna stofnana og þar með vegna verðlags- og gengisbreytinga. Komugjöld á heilsugæslustöðvar og gjald fyrir vitjanir heilsugæslulækna verða óbreytt.

Í fjárlögum næsta árs er gert ráð fyrir að sértekjur stofnana hækki að jafnaði um 5,3%. Er þá gert ráð fyrir leiðréttingu vegna vanmats á verðlagsbreytingum í forsendum fjárlaga þessa árs og spá um 3,7% hækkun vísitölu neysluverðs árið 2012. Þann 1. janúar næstkomandi taka gildi breytingar á gjaldskrám fyrir heilbrigðisþjónustu til samræmis við þetta. Helstu ákvarðanir um gjaldskrár ársins 2012 eru þessar:

  • Heilsugæsla: Þrátt fyrir að gjöld fyrir heilbrigðisþjónustu hækki að jafnaði um 5,32% verða komugjöld á heilsugæslustöðvar og gjöld fyrir vitjanir heilsugæslulækna óbreytt. Börn yngri en 18 ára greiða ekkert fyrir komu á heilsugæslustöð líkt og verið hefur. Með þessu er lögð áhersla á mikilvægi heilsugæslunnar á sviði grunnþjónustu og sem fyrsta viðkomustaðar fólks í heilbrigðiskerfinu.
  • Sjúkra- iðju- og talþjálfun: Kostnaður sjúklinga fyrir þjálfun sem sjúkratryggingar taka þátt í að greiða hækkar um þrjú prósentustig fyrir fyrstu 30 skiptin hjá þjálfara. Kostnaður vegna meðferðar sem samþykki hefur verið veitt fyrir umfram 30 skipti hækkar ekki frá því sem nú er.
  • Sjúkraflutningar: Gjald fyrir sjúkraflutninga þeirra sem eru sjúkratryggðir hækkar um 7,2%, úr 5.130 kr. í 5.500 kr. (ath. þó um kostnað þeirra sem ekki eru sjúkratryggðir hér að neðan). Þurfi sjúklingur sem liggur á sjúkrahúsi eða heilbrigðisstofnun á sjúkraflutningi að halda greiðir viðkomandi stofnun fyrir flutninginn.
  • Sjálfstætt starfandi sérgreinalæknar: Hlutur sjúklinga vegna þjónustu sjálfstætt starfandi sérgreinalækna sem starfa án samnings við Sjúkratryggingar Íslands hækkar um 5,32%.
  • Lyfjakostnaður: Greiðsluþátttaka sjúklinga í kostnaði vegna lyfja sem sjúkratryggingar taka þátt í að greiða hækkar um 5,32%.
  • Kostnaður þeirra sem ekki eru sjúkratryggðir: Almennt munu greiðslur þeirra sem ekki eru sjúkratryggðir hækka um 5,32% fyrir heilbrigðisþjónustu frá áramótum. Þetta á þó ekki við um kostnað þeirra vegna sjúkraflutninga sem færist nær raunkostnaði. Fyrir hverja byrjaða klukkustund hækkar gjaldið úr 8.800 krónum í 35.000 kr. Gjald til eiganda sjúkrabifreiðar (Rauða kross Íslands) hækkar úr 660 krónum í 2.000 krónur fyrir hvern ekinn kílómetra en sjúklingur greiðir alltaf að lágmarki fyrir 15 kílómetra.

Reglugerðir um breytingarnar:

Nr. 1176/2011
REGLUGERÐ um heilbrigðisþjónustu við þá sem ekki eru sjúkratryggðir samkvæmt lögum um sjúkratryggingar og greiðslur þeirra fyrir heilbrigðisþjónustuna.

 Nr. 1175/2011
REGLUGERÐ um hlutdeild sjúkratryggðra í kostnaði vegna heilbrigðisþjónustu.

Nr. 1170/2011
REGLUGERÐ um (4.) breytingu á reglugerð nr. 403/2010, um greiðsluþátttöku sjúkratrygginga við kaup á lyfjum.

Nr. 1169/2011
REGLUGERÐ um (3.) breytingu á reglugerð nr. 333/2011 um endurgreiðslu kostnaðar vegna þjónustu sjálfstætt starfandi sérgreinalækna sem starfa án samnings við Sjúkratryggingar Íslands.

Nr. 1168/2011
REGLUGERÐ um (1.) breytingu á reglugerð nr. 698/2010 um þátttöku sjúkratrygginga í kostnaði við tannlækningar.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum