Hoppa yfir valmynd
19. apríl 2021 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Halla Hrund nýr orkumálastjóri

Halla Hrund Logadóttir - mynd

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, hefur skipað Höllu Hrund Logadóttur í embætti orkumálastjóra frá og með 19. júní 2021.

Halla Hrund er með BA gráðu í stjórnmálafræði, meistaragráðu í alþjóðasamvinnu með áherslu á hagfræði og orkumál og meistaragráðu í opinberri stjórnsýslu frá Harvard Háskóla með áherslu á umhverfis- og orkumál. Halla Hrund hefur starfað frá árinu 2017 sem meðstofnandi og framkvæmdastjóri við miðstöð norðurslóða, Arctic Initiative, við Harvard háskóla sem beinir sjónum m.a. að áhrifum loftslagsmála, og kennir jafnframt á meistarastigi við sömu stofnun. Frá árinu 2019 hefur hún meðstýrt kortlagningu breytingaþátta Norðurslóða, m.a. orkumála, á vettvangi World Economic Forum. Halla Hrund hefur frá árinu 2015 starfað sem stofnandi og formaður Arctic Innovation Lab og starfað sem leiðbeinandi í ýmsum orkutengdum nýsköpunarhröðlum.

 

Hún hefur setið í stjórn Orkusjóðs frá árinu 2015 og sama ár hóf hún störf sem stundakennari við Háskólann í Reykjavík þar sem hún kennir námskeið um stefnumótun á sviði orkumála með áherslu á loftslagsmál. Halla Hrund var framkvæmdastjóri Iceland School of Energy við Háskólann í Reykjavík frá árinu 2013 fram til ársins 2016. Árin 2011 til 2013 var Halla Hrund forstöðumaður Alþjóðaþróunar við Háskólann í Reykjavík.

 

Alls bárust 15 umsóknir um embættið, en tvær voru dregnar til baka. Hæfnisnefnd mat fimm umsækjendur hæfasta til þess að gegna embættinu. Ráðherra  boðaði í framhaldi viðkomandi fimm umsækjendur til viðtals og var það mat ráðherra að Halla Hrund væri hæfust umsækjenda til að stýra Orkustofnun til næstu fimm ára.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum