Hoppa yfir valmynd
26. mars 2004 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Áætlun í jafnréttismálum til næstu ára

Félagsmálaráðherra lagði fram á ríkisstjórnarfundi í morgun tillögu til þingsályktunar um áætlun í jafnréttismálum til næstu fjögurra ára, auk skýrslu félagsmálaráðherra um stöðu framkvæmdaáætlunar ríkisstjórnarinnar til að ná fram jafnrétti kynjanna 2002–2004.

Þingsályktunartillagan er lögð fram samkvæmt 9. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000, þar sem kveðið er á um að slík áætlun skuli lögð fram eigi síðar en ári eftir alþingiskosningar.

Í nýrri framkvæmdaáætlun er lagt til að stefnumarkandi áherslusvið í jafnréttismálum fyrir næstu árin verði eftirfarandi:

  • Samþætting jafnréttissjónarmiða.
  • Fræðsla um jafnréttismál.
  • Jafnrétti á vinnumarkaði.
  • Jafnréttisáætlanir ráðuneyta.
  • Skilgreining á hlutverki jafnréttisfulltrúa ráðuneyta.
  • Eftirfylgni með framkvæmdaáætlun.

Að áætluninni hefur verið unnið á síðustu mánuðum í samstarfi félagsmálaráðuneytis, Jafnréttisstofu og einstakra ráðuneyta. Jafnframt hefur Jafnréttisráð gefið umsögn sína um áætlunina.

Frumvarp til laga um breytingu á sveitarstjórnarlögum

Þá lagði félagsmálaráðherra fram frumvarp til aga um breytingu á sveitarstjórnarlögum, nr. 45/1998. Frumvarpið er m.a. liður í sameiginlegu verkefni félagsmálaráðuneytisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga um eflingu sveitarstjórnarstigsins. Frumvarp þetta snýr að fyrirkomulagi við atkvæðagreiðslur um sameiningar sveitarfélaga.

Frumvarpið byggir annars vegar á tillögum sameiningarnefndar, sem félagsmálaráðherra skipaði til að undirbúa og gera tillögur um sameiningu sveitarfélaga, og hins vegar á tillögum starfshóps sem vinnur að endurskoðun sveitarstjórnarlaga.

Haustið 2003 hófst sameiginlegt átak ríkis og sveitarfélaga til að efla sveitarstjórnarstigið. Átakið felur einkum í sér þrennt: að færa verkefni frá ríki til sveitarfélaga, að fækka fámennum sveitarfélögum með sameiningu sveitarfélaga, og aðlaga tekjustofna sveitarfélaga að breyttum verkefnum og breyttri sveitarfélagaskipan.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum