Hoppa yfir valmynd
14. október 2019 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 439/2019 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 14. október 2019 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 439/2019

í stjórnsýslumáli nr. KNU19060024

 

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 15. júní 2019 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefnd kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, 3. júní 2019, um að synja henni um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar, sbr. 70. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að henni verði veitt dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar með íslenskum ríkisborgara þann 25. maí 2018. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 3. júní 2019, var umsókn kæranda synjað. Þann 15. júní sl. kærði kærandi ákvörðunina til kærunefndar útlendingamála en í kæru óskaði kærandi eftir frestun réttaráhrifa á ákvörðun Útlendingastofnunar á meðan málið væri til meðferðar hjá kærunefndinni, sbr. 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þann 9. júlí sl. féllst kærunefndin á þá beiðni. Greinargerð kæranda barst kærunefnd þann 8. júlí sl. Þá óskaði kærunefnd eftir frekari gögnum frá Útlendingastofnun og Þjóðskrá Íslands, sem bárust 19. ágúst sl. og 27. ágúst sl. Kæranda var veitt tækifæri til að koma að andmælum vegna svars Þjóðskrár þann 27. ágúst sl. en ekkert svar barst.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kom fram að við vinnslu umsóknar hafi vaknað grunur hjá stofnuninni um að til hjúskapar hefði verið stofnað í þeim tilgangi að afla dvalarleyfis hér á landi. Hafi kærandi og maki hennar verið boðuð í viðtöl hjá Útlendingastofnun sem fram fóru þann 21. janúar 2019. Í kjölfar þeirra viðtala hafi enn verið til staðar grunur hjá stofnuninni um að hjúskapur þeirra væri til málamynda og því hafi kæranda verið sent bréf, dags. 20. mars 2019, þar sem rakin voru þau atriði sem að mati stofnunarinnar bentu til þess að hjúskapur þeirra væri hugsanlega til málamynda. Þann 20. maí sl. hafi stofnuninni borist greinargerð frá lögmanni kæranda.Vísaði Útlendingastofnun til og reifaði ákvæði 8. mgr. 70. gr. laga um útlendinga auk lögskýringargagna með ákvæðinu.

Vísaði stofnunin til þess að móðir kæranda hefði verið í óvígðri sambúð með maka kæranda frá 22. nóvember 2017 til 14. febrúar 2018 og eftir það tímabil hefði móðir kæranda flutt til foreldra maka kæranda. Hafi kærandi gengið í hjúskap með fyrrverandi sambýlismanni móður sinnar 25. maí 2018, eða rúmum þremur mánuðum eftir að sambúð móður hennar og sambýlismaka lauk. Hafi kærandi sótt um dvalarleyfi á grundvelli hjúskaparins samdægurs. Þá lægi fyrir að 13 ára aldursmunur væri á kæranda og eiginmanni hennar. Ljóst væri að kærandi og maki hennar hefðu ekki búið saman fyrir stofnun hjúskapar en hefði hist einu sinni haustið 2016 og svo í u.þ.b. tíu daga yfir sjö vikna tímabil frá í desember 2017 og fram í janúar 2018. Þá vísaði Útlendingastofnun til viðtala sem stofnunin tók við kæranda og maka hennar þann 21. janúar 2019. Með vísan til alls framangreinds var það mat Útlendingastofnunar að rökstuddur grunur væri enn til staðar um að til hjúskapar hefði verið stofnað í þeim tilgangi að afla dvalarleyfis hér á landi og að kærandi hefði ekki sýnt fram á annað svo óyggjandi væri, sbr. 8. mgr. 70. gr. laga um útlendinga. Var umsókn kæranda því synjað og var henni veitt færi á að yfirgefa landið af sjálfsdáðum innan 30 daga frá móttöku ákvörðunarinnar.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð gerir kærandi margvíslegar athugasemdir við ákvörðun Útlendingastofnunar. Hafnar kærandi því að móðir hennar og maki hafi verið í óvígðri sambúð. Hið rétta sé að þau hafi kynnst á árshátíð [...] haustið 2016 en þá hafi móðir hennar verið í hjónabandi með öðrum manni. Hafi kærandi komið til landsins um svipað leyti til að heimsækja móður sína og hafi maki hennar þá orðið ástfanginn af henni og m.a. heimsótt hana til [...]. Hafi vinátta tekist með maka kæranda og móður hennar og hafi móðir hennar flutt til [...] og hafið þar störf hjá [...]. Um nokkurt skeið hafi móðir hennar búið hjá maka kæranda en alrangt sé að um óvígða sambúð hafi verið að ræða. Þá vísar kærandi til þess að 13 ára aldursmunur milli hennar og maka hennar geti ekki talist mikill. Gagnrýnir kærandi þá röksemd Útlendingastofnunar að maki hennar hafi ekki viljað sýna starfsmönnum stofnunarinnar netsamskipti þeirra enda sé um einkamál hennar og maka að ræða. Þá taki steininn úr þegar reynt sé að gera tortryggilegt að maki hennar hafi ekki munað símanúmer kæranda eða verið með það vistað á síma sínum þegar stofnunin á sama tíma geri tortryggilegt að þau hafi ekki getað talað saman vegna tungumálaerfiðleika. Jafnframt geti kærandi ekki séð hvernig fyrirhugaðar barneignir geti skipt máli í hjónabandi þeirra. Þá sé jólahald lítt þekkt í [...] og hafi enga sérstaka þýðingu fyrir kæranda og því hvorki henni né maka hennar sérstaklega eftirminnileg.

Kærandi gerir jafnframt athugasemdir við það viðtal sem tekið var af henni og maka hjá Útlendingastofnun. Hafi spurningar stofnunarinnar verið bæði leiðandi og villandi og hafi á einum stað verið svo gott sem fullyrt í spurningu að kærandi hafi verið að giftast stjúpföður sínum. Séu spurningar af þessu tagi óboðlegar hjá stjórnvaldi og brot gegn meðalhófsreglu og rannsóknarreglu stjórnsýsluréttarins. Telur kærandi að rannsókn stofnunarinnar skorti grundvallarskilyrði um hlutleysi sem rannsókn opinbers stjórnvalds verði að hafa. Svo virðist sem spurningar starfsmanna Útlendingastofnunar hafi haft þann eina tilgang að villa um fyrir kæranda og hafi ekki verið í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti. Hafi stofnunin í raun snúið við sönnunarbyrði í málinu þar sem kærandi og maki hennar hafi þurft að sanna sakleysi sitt en ekki öfugt. Vísar kærandi til þess að hún hafi skilað öllum þeim gögnum sem stofnunin hafi óskað eftir og að ekki hafi verið nægilega tekið tillit til menningarmunar í hinni kærðu ákvörðun.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í 70. gr. laga um útlendinga er kveðið á um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar eða sambúðar. Í 1. málsl. 8. mgr. 70. gr. laganna segir að sé rökstuddur grunur um að til hjúskapar eða sambúðar hafi verið stofnað í þeim tilgangi til að afla dvalarleyfis og ekki sé sýnt fram á annað svo að óyggjandi sé veiti það þá ekki rétt til dvalarleyfis. Í athugasemdum við 70. gr. í frumvarpi því er varð að gildandi lögum um útlendingar segir m.a.:

„Ákvæðinu er ætlað að heimila synjun á veitingu leyfis ef hægt er að sýna fram á að til hjúskapar hafi verið stofnað í öðrum tilgangi en til samvistar, t.d. til að afla dvalarleyfis. Þegar metið er hvort grunur sé á málamyndahjúskap er m.a. litið til þess hvort aðilar hafi búið saman fyrir stofnun hjúskapar, aldursmunar, hvort þau tali tungumál hvors annars, þekki til einstakra atriða eða atvika úr lífi hvort annars og hjúskaparsögu viðkomandi maka og hvort hún veki grunsemdir hvað þetta varðar. Við mat á aðstæðum sem þessum þarf þó að taka tillit til þess að mismunur getur verið á milli menningarheima hvað varðar hefðir og aðdraganda hjúskapar og þekkingu hjóna hvort á öðru við upphaf hjúskapar. Það að aðilar hafi ekki hist áður eða búið saman fyrir stofnun hjúskapar getur ekki verið eini grundvöllur þess til að synja um veitingu leyfis á þessum grundvelli heldur verður fleira að koma til sem bendir til þess að um málamyndagerning sé að ræða. Auk þessara þátta getur skipt máli hvort viðkomandi útlendingur hafi áður sótt um dvöl hér á landinu á öðrum grundvelli, m.a. með umsókn um alþjóðlega vernd og að viðkomandi útlendingur hafi gengið í hjúskap stuttu eftir að þeirri umsókn hafi verið hafnað.“

Samkvæmt gögnum málsins gengu kærandi og maki hennar í hjúskap hér á landi þann 25. maí 2018 og lagði kærandi fram umsókn um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar við íslenskan ríkisborgara þann sama dag á [...] en umsóknin var móttekin hjá Útlendingastofnun 31. maí s.á.

Af ákvörðun Útlendingastofnunar verður ráðið að niðurstaða stofnunarinnar um að til hjúskapar kæranda og maka hennar hafi verið stofnað í þeim tilgangi að afla dvalarleyfis er að miklu leyti byggð á þeirri forsendu að maki kæranda eigi í reynd í nánu sambandi við móður kæranda. Hjúskapur kæranda sé því kominn til vegna þessara tengsla maka við móður kæranda. Af hálfu kæranda hefur því verið hafnað að maki og móðir kæranda hafi verið í sambandi. Þau þekkist og hafi búið á sama lögheimili um skeið en aldrei verið í sambandi.

Í gögnum kemur fram að móðir kæranda og maki kæranda voru skráð í sambúð frá 22. nóvember 2017 til 14. febrúar 2018 hjá Þjóðskrá Íslands. Þegar maki kæranda var fyrst spurður um þessa sambúðarskráningu í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 21. janúar 2019 sagðist hann ekki minnast þess að hafa skráð sig í sambúð með móður kæranda. Hann hefði þó lesið eða heyrt um að það hefðu orðið einhver mistök en þau ummæli eru ekki skýrð nánar í viðtalinu. Í andmælum sem kærandi kom á framfæri við Útlendingastofnun þann 20. maí 2019 var því hafnað að móðir kæranda og maki hennar hefðu verið í óvígðri sambúð. Eftir að Útlendingastofnun leit framhjá þeim andmælum kæranda í ákvörðun sinni með vísan til skráningar sambúðarinnar í Þjóðskrá Íslands kom kærandi fram með þær skýringar til kærunefndar útlendingamála frá 8. júlí 2019 að alrangt væri að sambúðarskráningin jafngilti því að maki kæranda og móðir hennar hefðu verið í óvígðri sambúð. Leiða mætti að því líkum að ástæða skráningarinnar hefði eingöngu verið að þau væru með sama lögheimili. Eftir að kærunefnd útlendingamála aflaði upplýsinga frá Þjóðskrá Íslands um að einstaklingar þurfi sjálfir að hafa frumkvæði að því að skrá sambúð hjá Þjóðskrá Íslands og bar þær undir kæranda var því haldið fram af hálfu kæranda að ekki hafi verið um eiginlegri sambúð að ræða heldur hafi sambúð maka kæranda og móður hennar tengst „tryggingamálum“.

Að mati kærunefndar eru skýringar kæranda á ástæðum sambúðarskráningar maka kæranda og móður hennar ótrúverðugar. Þá telur kærunefnd að þær mismunandi skýringar sem hafa verið verið veittar á þessu atriði af hálfu kæranda eftir því sem fleiri gagna hefur verið aflað og meðferð málsins undið fram veki grun um að kærandi hafi vísvitandi reynt að leyna sambandi maka kæranda og móður hennar fyrir stjórnvöldum.

Þá er það mat kærunefndar að svör kæranda í viðtölum hjá Útlendingastofnun verði ekki túlkuð á annan veg en að þar hafi hún jafnframt að leyna tengslum maka kæranda við móður hennar. Þannig liggur fyrir að móðir kæranda hefur frá því að hún flutti lögheimili sitt af heimili maka kæranda verið með skráð lögheimili hjá foreldrum maka kæranda. Í viðtali hjá Útlendingastofnun kvað kærandi fyrst aðspurð að móðir hennar leigði herbergi af „eldri borgurum“ og að móðir hennar heimsæki hana frekar en að kærandi fari þangað vegna þess að „eldri hjón“ byggju þar. Kvað hún það taka um 15 mínútur að keyra til móður sinnar. Aðspurð hvort hún þekkti nöfn þeirra sem móðir hennar byggi með svaraði hún neitandi. Síðar í viðtalinu kvað kærandi aðspurð að foreldrar maka hennar byggju á sveitabæ út fyrir bæinn og að það tæki um 30 mínútur að keyra þangað. Að mati kærunefndar bera svörin með sér að kærandi hafi á fyrstu stigum viðtalsins reynt að leyna því að móðir hennar byggi með tengdaforeldrum hennar með því að reyna að draga upp þá mynd að móðir hennar byggi með öðrum eldri hjónum.

Þá bendir kærunefnd á að svör kæranda og maka hennar í viðtölum voru að einhverju leyti misvísandi að því er varðar samband móður kæranda og maka hennar og samveru fjölskyldunnar. Þannig kvað maki kæranda að í viðtali hjá Útlendingastofnun að kærandi hefði farið um síðustu jól til [...] og [...] til að hitta vini sína. Hún hefði því verið að heiman frá 24. desember 2018 til 2. janúar 2019. Hann hefði haldið upp á jólin með foreldrum sínum og bróður sínum. Þegar maki kæranda var spurður hvar móðir kæranda hefði verið um jólin svaraði hann: „Já, já ég gleymdi henni, hún var líka hjá okkur.“ Aftur á móti kvað kærandi í viðtali hjá Útlendingastofnun að hún hefði eytt jólunum með maka sínum og fjölskyldu hans. Fyrst í viðtalinu kvað hún að móðir hennar hefði verið á eigin heimili um jólin. Hún hefði þó komið til kæranda og maka hennar í einn dag. Þótt fallist sé á skýringar sem kærandi hefur fært fram hjá kærunefnd útlendingamála um að jólahald sé lítið þekkt í [...] telur kærunefnd það ekki draga úr því misræmi sem er milli svara kæranda og maka hennar um hvar þau voru um jólin og þeim ályktunum að þau hafi, í það minnsta fyrst í viðtölum sínum, reynt að draga úr umfangi samskipta maka kæranda við móður hennar.

Þá hefur kærunefnd litið til þess að önnur atriði benda jafnframt til þess að þrátt fyrir að móðir kæranda sé með skráð lögheimili hjá foreldrum maka kæranda dvelji hún að einhverju leyti á heimili kæranda og maka hennar. Í því sambandi vísar kærunefndar t.d. til skjáskots af myndum sem kærandi birti m.a. af húsinu þar sem hún kveðst búa ásamt eiginmanni sínum. Undir myndinni hefur einstaklingur skrifað athugasemdina: „Is this mom‘s house?“ og kærandi svarað: „Yeah“.

Samkvæmt framansögðu er það mat kærunefndar að það sé nægilega upplýst að maki kæranda hafi í það minnsta verið í nánu sambandi með móður kæranda. Sú sambúðarsaga og fjölskyldutengsl vekur að mati nefndarinnar grun um að til hjúskapar kæranda hafi verði stofnað í þeim tilgangi að afla henni dvalarleyfis hér á landi. Sá grunur styrkist enn þegar litið sé til misvísandi og breytilegra svara við spurningum Útlendingastofnunar og annarra skýringa kæranda og maka hennar um samband móður og maka kæranda.

Þá er ljóst af gögnum málsins að kærandi og maki hennar bjuggu ekki saman fyrir stofnun hjúskapar þeirra og tala ekki tungumál hvors annars. Í ljósi lögskýringargagna sem áður hafa verið rakin er það mat kærunefndar að þau atvik styrki grun um að til hjúskapar kæranda hafi verið stofnað í þeim tilgangi að afla dvalarleyfis.

Að öllu framangreindu virtu er það mat kærunefndar að fyrir hendi sé rökstuddur grunur um að til hjúskaparins hafi verið stofnað í þeim tilgangi að afla dvalarleyfis, sbr. 8. mgr. 70. gr. laga um útlendinga. Þá hefur að mati nefndarinnar ekki verið sýnt fram á svo óyggjandi sé að til hjúskaparins hafi verið stofnað í öðrum tilgangi en að afla dvalarleyfis. Samkvæmt framansögðu veitir hjúskapur kæranda og maka hennar því ekki rétt til dvalarleyfis vegna fjölskyldusameiningar.

Í greinargerð gerir kærandi margvíslegar athugasemdir við málsmeðferð Útlendingastofnunar, s.s. að málsmeðferðin hafi ekki borið merki hlutleysis og að ekki verið gætt að meðalhófsreglu og rannsóknarreglu stjórnsýsluréttarins. Af 10. gr. stjórnsýslulaga leiðir að það stjórnvald sem tekur ákvörðun í máli ber ábyrgð á því að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því. Mál sem varða dvalarleyfi hefjast að frumkvæði aðila máls og má stjórnvald því almennt leggja á aðila að veita nauðsynlegar upplýsingar svo unnt sé að taka ákvörðun í máli að því gefnu að stjórnvöld gæti að leiðbeiningarskyldu sinni að þessu leyti. Þá kemur fram í 2. mgr. 14. gr. laga um útlendinga að við undirbúning máls sé heimilt að leggja fyrir útlending, eða þann sem málið varðar, að mæta í samræmi við óskir stjórnvalda þar um og veita upplýsingar sem geta haft þýðingu við úrlausn þess. Að mati kærunefndar er ekki tilefni til að gera athugasemd við að Útlendingastofnun hafi tekið viðtal við kæranda og maka hennar vegna umsóknar hennar um dvalarleyfi. Að mati kærunefndar benda gögn málsins að öðru til þess að hófs hafi verið gætt við beitingu rannsóknarúrræða hjá Útlendingastofnun og að rannsókn málsins hafi verið beint að því að afla upplýsinga um atvik sem tengdust sjónarmiðum sem er málefnalegt að líta til í þessum málum.

Líkt og framan greinir hefur kærunefnd komist að sömu niðurstöðu og Útlendingastofnun eftir að hafa metið að nýju alla þætti málsins. Er því ekki tilefni til frekari umfjöllunar um athugasemdir kæranda.

Með vísan til þess sem að framan hefur verið rakið verður ákvörðun Útlendingastofnunar staðfest.

Samkvæmt framangreindu hefur kærandi ekki dvalarleyfi hér á landi. Kæranda er því ekki heimil áframhaldandi dvöl hér á landi og ber henni að yfirgefa landið innan 30 daga frá móttöku úrskurðarins. Athygli kæranda er vakin á því að ef hún yfirgefur ekki landið innan frestsins kann að vera heimilt að brottvísa henni, sbr. a-lið 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga. Brottvísun felur í sér bann við komu til landsins síðar og skal endurkomubann að jafnaði ekki gilda skemur en tvö ár, sbr. 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

Anna Tryggvadóttir

Gunnar Páll Baldvinsson                                                                                    Ívar Örn Ívarsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum