Hoppa yfir valmynd
28. nóvember 2019 Heilbrigðisráðuneytið

Löngu tímabær endurskoðun lyfjalaga

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra - myndHeilbrigðisráðuneyti

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra mælti í dag fyrir frumvarpi til nýrra lyfjalaga. Gildandi lög voru sett fyrir aldarfjórðungi og hefur síðan þá verið breytt tæplega fimmtíu sinnum. Miklar breytingar hafa orðið á sviði lyfjamála frá samþykkt gildandi laga árið 1994 og heildarendurskoðun laganna því nauðsynleg og löngu tímabær segir ráðherra.

Af grundvallarbreytingum frá gildistöku laganna má nefna tilkomu Lyfjastofnunar, stofnun sérstakrar sjúkratryggingastofnunar, lyfjagagnagrunns og síðast en ekki síst aðild Íslands að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.

Meginmarkmið frumvarps að nýjum lyfjalögum er að tryggja landsmönnum nægilegt framboð af nauðsynlegum lyfjum með öryggi sjúklinga að leiðarljósi, með sem hagkvæmastri dreifingu lyfja á grundvelli eðlilegrar samkeppni. Eins og heilbrigðisráðherra lagði áherslu á í framsöguræðu sinni á Alþingi í dag er það jafnframt markmið með frumvarpinu að tryggja eftir föngum gæði og öryggi lyfja og lyfjaþjónustu, auka fræðslu um lyfjanotkun, sporna við óhóflegri notkun og halda lyfjakostnaði í lágmarki: „Lyfjakostnaður ríkisins á síðasta ári var um 20 milljarðar króna og því til mikils að vinna að setja saman kerfi með hagkvæmni að leiðarljósi án þess að slaka á kröfum um öryggi og gæði lyfja“ sagði Svandís meðal annars í ræðu sinni.

Meðal helstu nýmæla í frumvarpinu má nefna einföldun á stjórnsýslu lyfjamála. Lagt er til að lyfjagreiðslunefnd verði lögð niður í núverandi mynd og að Lyfjastofnun taki við hlutverkum nefndarinnar. Þá er lögð til breyting á verkefnum og ábyrgð lyfjanefndar Landspítala en stofnuninni verður falið að bera faglega og fjárhagslega ábyrgð á ákvörðunum um notkun lyfja á opinberum heilbrigðisstofnunum og notkun nýrra og kostnaðarsamra lyfja í heilbrigðisþjónustunni. Þannig er Landspítala ætlað að bera fjárhagslega ábyrgð á útgjöldum til leyfisskyldra lyfja á öllum heilbrigðisstofnunum landsins. Af fleiri nýmælum má nefna tillögu um að stofnuð verði lyfjanefnd hjá Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu sem vinni að öryggri og skynsamlegri notkun lyfja á öllum heilsugæslustöðvum og dvalar- og hjúkrunarheimilum og einnig að heilbrigðisstarfsmenn verði skyldaðir til að tilkynna tilteknar aukaverkanir lyfja til Lyfjastofnunar. 

Ljóst er að með nýjum lyfjalögum tekur við enn frekari vinna á  málefnasviðinu þar sem nauðsynlegt er að endurskoða og mögulega endurútgefa fjölda reglugerða á sviði lyfjamála í framhaldinu. Því er gert ráð fyrir að nokkur tími geti liðið frá því að Alþingi hefur lokið umfjöllun sinni og samþykkt frumvarpið þar til að lögin geta öðlast gildi.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum