Hoppa yfir valmynd
18. júní 2021 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 230/2021 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 230/2021

Föstudaginn 18. júní 2021

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 4. maí 2021, kærði A til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 28. apríl 2021, um upphæð greiðslna í sóttkví á grundvelli laga nr. 24/2020.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 8. mars 2021, sótti kærandi um greiðslur frá Vinnumálastofnun á grundvelli laga nr. 24/2020 um tímabundnar greiðslur vegna launa einstaklinga sem sæta sóttkví samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda án þess að vera sýktir, vegna fimm starfsmanna fyrirtækisins. Umsókn kæranda var samþykkt með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 28. apríl 2021, og námu greiðslur til kæranda alls 350.738 kr.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 4. maí 2021. Með bréfi, dags. 5. maí 2021, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags. 11. maí 2021. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 17. maí 2021, var greinargerð Vinnumálastofnunar send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hafa sótt um hjá Vinnumálastofnun vegna sóttkvíar fimm starfsmanna sem hafi komið til af því að Covid-19 hafi komið upp í íbúðum sem þeir deili með vinnufélögum. Nú sé komin niðurstaða og greiðsla frá Vinnumálastofnun en kærandi telji útreikning stofnunarinnar ekki sanngjarnan þótt hann sé í samræmi við lög um sóttkví. Allir þessir starfsmenn hafi verið að koma til vinnu eftir frí og hafi þess vegna haft fáa unna tíma á tímabilinu. Samkvæmt meðfylgjandi vinnuskýrslum sé tímabilið til 20. janúar 2021 en þeir hafi unnið samfellt út janúar og svo áfram. Þeir hafi líka allir unnið hjá kæranda fyrir jólafrí. Kærandi óski eftir því að þessi útreikningur verði endurskoðaður og tillit tekið til þess að starfsmennirnir séu í fullri vinnu hjá kæranda en hafi verið að koma úr fríi.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að lög nr. 24/2020 um tímabundnar greiðslur vegna launa einstaklinga sem sæta sóttkví samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda án þess að vera sýktir, taki til greiðslna til atvinnurekanda sem greitt hafi launamönnum sem sæta sóttkví, laun. Enn fremur gildi lögin um greiðslur til launamanna sem sæta sóttkví en fá ekki greidd laun frá atvinnurekanda. Þá gildi lögin um greiðslur til sjálfstætt starfandi einstaklinga sem sæta sóttkví. Markmið laga nr. 24/2020 sé að styðja atvinnurekendur sem greiði launamönnum sem sæti sóttkví laun þegar önnur réttindi, svo sem veikindaréttur samkvæmt kjarasamningum, eigi ekki við. Með því sé stefnt að því að einstaklingur geti fylgt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda um að sæta sóttkví án þess að hafa áhyggjur af afkomu sinni.

Mál þetta varði þá reiknireglu sem Vinnumálastofnun leggi til grundvallar í máli kæranda. Ágreiningur standi um það ákvæði laganna að við ákvörðun greiðslna skuli miða við laun í þeim almanaksmánuði sem viðkomandi starfsmaður hafi sætt sóttkví og atvinnurekandi hafi greitt honum laun. Kærandi greinir frá því að starfsmenn hans hafi allir verið að koma til vinnu eftir frí og hafi þess vegna unnið fáa tíma á tímabilinu. Samkvæmt meðfylgjandi vinnuskýrslu sé tímabilið til 20. janúar en starfsmennirnir hafi unnið samfellt út janúar og svo áfram. Þá hafi starfsmennirnir allir unnið hjá kæranda fyrir jólafrí.

Útreikningur stofnunarinnar byggi á reiknireglu 6. gr. laga nr. 24/2020 en þar komi fram að greiðsla til atvinnurekanda skuli taka mið af heildarlaunum launamanns í þeim almanaksmánuði eða almanaksmánuðum sem hann eða barn í hans forsjá hafi verið í sóttkví. Til launa teljist hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald þann mánuð sem launamanni hafi verið gert að vera í sóttkví. Til að finna út fjárhæð greiðslna fyrir hvern dag skuli miða við 30 daga í mánuði.

Líkt og lög nr. 24/2020 kveði á um beri stofnuninni við úrvinnslu umsókna um greiðslur í sóttkví að taka mið af heildarlaunum launþega í þeim mánuði er launþegar atvinnurekanda hafi sætt sóttkví, þ.e. ef atvinnurekandi hafi greitt starfsmönnum sínum laun á meðan þeir hafi sætt sóttkví samkvæmt beinum fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda. Lögin kveði á um að til að finna út fjárhæð greiðslna fyrir hvern dag skuli miða við 30 daga í mánuði.

Lög nr. 24/2020 séu skýr hvað varði þann útreikning sem stofnuninni beri að leggja til grundvallar þegar greiðslur til atvinnurekanda sem hafi greitt launþegum laun í sóttkví séu reiknaðar og segi í lögunum að greiðslur til atvinnurekanda skuli taka mið af heildarlaunum launamanns í þeim almanaksmánuði eða almanaksmánuðum sem hann eða barn í hans forsjá hafi verið í sóttkví.

Vinnumálastofnun telji sér óheimilt að standa að ákvörðun um greiðslur í sóttkví með öðrum hætti en meðfylgjandi útreikningur sýni þegar litið sé til skýrs orðalags 6. gr. laga nr. 24/2020 um grundvöll fjárhæðar greiðslna.

Að mati Vinnumálastofnunar hafi rétt verið staðið að ákvörðun í máli kæranda.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að greiða kæranda samtals 350.738 kr. á grundvelli laga nr. 24/2020 um tímabundnar greiðslur vegna launa einstaklinga sem sæta sóttkví samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda án þess að vera sýktir, vegna fimm starfsmanna fyrirtækisins sem sættu sóttkví. Ágreiningur málsins lýtur að útreikningi Vinnumálastofnunar vegna þeirrar greiðslu.

Í 2. gr. laga nr. 24/2020 kemur fram að markmið laganna sé að styðja við atvinnurekendur sem greiða launamönnum, sem sæta sóttkví, laun þegar önnur réttindi, svo sem veikindaréttur samkvæmt kjarasamningum, eiga ekki við. Með því sé stefnt að því að einstaklingar geti fylgt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda um að sæta sóttkví án þess að hafa áhyggjur af afkomu sinni.

Í 5. gr. laga nr. 24/2020 er kveðið á um skilyrði fyrir greiðslum vegna launamanna. Ákvæðið er svohljóðandi:

„Heimilt er að greiða atvinnurekanda launakostnað, eftir því sem nánar er mælt fyrir um í lögum þessum. Skilyrði fyrir greiðslum eru að:

a. launamaður, eða barn í hans forsjá undir 13 ára aldri eða barn undir 18 ára aldri sem þiggur þjónustu á grundvelli laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, hafi sætt sóttkví,

b. launamaður hafi ekki getað sinnt vinnu að öllu leyti eða hluta þaðan sem hann sætti sóttkví,

c. önnur atvik hafi ekki staðið í vegi fyrir því að launamaður hafi getað mætt til vinnu á vinnustað og

d. atvinnurekandi hafi sannanlega greitt launamanni laun á meðan hann eða barn í hans forsjá sætti sóttkví.“

Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 24/2020 skal greiðsla til atvinnurekanda taka mið af heildarlaunum launamanns í þeim almanaksmánuði eða almanaksmánuðum sem hann eða barn í hans forsjá var í sóttkví. Til launa teljast hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald þann mánuð sem launamanni var gert að vera í sóttkví. Til að finna út fjárhæð greiðslna fyrir hvern dag skal miða við 30 daga í mánuði.

Líkt og að framan greinir lýtur ágreiningur málsins að útreikningi Vinnumálastofnunar vegna greiðslu til kæranda vegna fimm starfsmanna fyrirtækisins sem sættu sóttkví. Sóttkví starfsmannanna stóð ýmist í sjö eða átta daga og var greiðsla reiknuð samkvæmt reiknireglu 6. gr. laga nr. 24/2020, þ.e. laun í sóttkvíarmánuði/30 margfölduð með dögum í sóttkví. Úrskurðarnefnd hefur yfirfarið útreikning Vinnumálastofnunar og telur ekki ástæðu til að gera athugasemd við hann. Með vísan til framangreinds er hin kærða ákvörðun staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 28. apríl 2021, um greiðslu á grundvelli laga nr. 24/2020 til handa A, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum