Hoppa yfir valmynd
18. október 2012 Dómsmálaráðuneytið

Breytingar á kosningalögum hafa tekið gildi

Lög um breytingu á lögum um kosningar til Alþingis og lögum um kosningar til sveitarstjórna (aðstoð við kosningu) nr. 111/2012 hafa nú tekið gildi. Með breytingunum verður kjósanda sem sakir sjónleysis eða þess að honum er hönd ónothæf heimilt við atkvæðagreiðsluna að fá aðstoð fulltrúa sem hann hefur valið sjáfur í stað kjörstjóra eða kjörstjórnarmanns eins og verið hefur um langa hríð. Því hafa fatlaðir kjósendur, sem lögin taka til, með tilteknum skilyrðum sjálfir rétt til að ákveða hver aðstoði þá við atkvæðagreiðslu utan kjörfundar og á kjörfundi.

Eyðublöð fyrir þagnarheit fulltrúa

Samkvæmt nýju lögunum er kjósanda sem sakir sjónleysis eða þess að honum er hönd ónothæf heimilt að óska þess við kjörstjóra eða kjörstjórn á viðkomandi kjörstað að fulltrúi sem hann hefur valið sjálfur aðstoði hann við atkvæðagreiðsluna. Þennan vilja sinn verður kjósandinn að tjá kjörstjóra eða kjörstjórn óþvingað með skýrum hætti og að fjarstöddum fulltrúanum sem hann hefur valið sjálfur. Ef þetta gengur eftir skal orðið við ósk kjósandans og fulltrúi hans undirrita þagnarheit á sérstöku eyðublaði áður en hann aðstoðar kjósandann við atkvæðagreiðsluna.
Innanríkisráðuneytið hefur gert viðeigandi eyðublöð sem eru aðgengileg og útfyllanleg á kosningavef ráðuneytisins (www.kosning.is), bæði fyrir atkvæðagreiðslu utan kjörfundar og atkvæðagreiðslu á kjördag. Jafnframt hefur ráðuneytið gert hliðstætt eyðublað við þagnarheit fulltrúa við atkvæðagreiðslu á kjörfundi við sveitarstjórnarkosningar. Það eyðublað nýtist við atkvæðagreiðslu um sameingu sveitarfélaganna Garðabæjar og Sveitarfélagsins Álftaness. Hægt verður að greiða atkvæði utan kjörfundar samkvæmt nýju ákvæðunum frá og með deginum í dag.

Hlutverk réttindagæslumanns

Vakin er sérstök athygli á nýmæli í löggjöfinni er varðar kjósanda, sem óskar aðstoðar fulltrúa sem hann hefur valið sjálfur, en getur ekki sjálfur með skýrum hætti tjáð kjörstjóra eða kjörstjórn þennan vilja sinn. Kjósandinn leggur þá fram vottorð réttindagæslumanns, sem starfar samkvæmt lögum um réttindagæslu fyrir fatlað fólk, þar sem staðfest er að kjósandinn hafi valið sjálfur tiltekinn nafngreindan fulltrúa sér til aðstoðar við atkvæðagreiðsluna. Innanríkisráðuneytið hefur gert eyðublað fyrir þessi vottorð réttindagæslumanna sem verða í vörslu hvers réttindagæslumanns en velferðarráðherra hefur ráðið átta einstaklinga í stöður réttindagæslumanna fatlaðs fólks í samræmi við 4. gr. laga um réttindagæslu fyrir fatlað fólk nr. 88/2011.

Aðeins má aðstoða einn kjósanda

Framangreindar lagabreytingar taka til kosninga til Alþingis, sveitarstjórna, þjóðaratkvæðagreiðslna og kjörs forseta Íslands og ná jafnt til atkvæðagreiðslu utan kjörfundar og á kjörfundi. Í nýju lögunum segir einnig að fulltrúa kjósandans sé óheimilt að gerast fulltrúi annars kjósanda við sömu kosningu. Þá mæla lögin fyrir um að það sé refsivert fyrir fulltrúa kjósandans að segja frá því hvernig kjósandinn greiddi atkvæði.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira